Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fundað með Grindvíkingum vegna umbrota við Þorbjörn
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, og Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, ræða málin fyrir íbúafundinn. VF-mynd: Hilmar Bragi
Laugardagur 28. maí 2022 kl. 07:42

Fundað með Grindvíkingum vegna umbrota við Þorbjörn

Grindvíkingar fjölmenntu á íbúafund ó síðustu viku sem bæjaryfirvöld boðuðu til vegna óvissustigs almannavarna sem lýst var yfir sunnudaginn 15. maí. Á íbúafundinum voru vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands með framsögu, auk fulltrúa frá HS Orku, Náttúruhamfaratryggingum Íslands og frá lögreglu og björgunarsveit í Grindavík. Frá 27. apríl og fram til 21. maí sl. hefur land risið við Þorbjörn um fjóra til fimm sentimetra en kvikuinnskot er talið vera á um sjö kílómetra löngu belti sem liggur frá Sýlingarfelli í norðaustri og Sundvörðuhrauni og Eldvörpum í suðvestri. Kvikan er talin vera á fjögurra til fimm kílómetra dýpi.

Hraungos á vondum stað getur valdið miklu tjóni en manntjón ólíklegt

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir það mikil tíðindi jarðfræðilega að Reykjanesskaginn sé farinn af stað. Magnús fór yfir eldgosasögu Reykjanesskagans og áréttaði að engin hamfaragos geti átt sér stað á skaganum. Hraungos á vondum stað geta þó valdið miklu tjóni. Að eldgos á Reykjanesskaganum geti valdið manntjóni sagði hann mjög ólíklegt. - Sjá framsögu Magnúsar Tuma á fundinum hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni samhliða kvikusöfnun

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, úrskýrði á íbúafundinum hvað væri að gerast í náttúrunni við Grindavík. Hús sýndi m.a. líkan sem gert hefur verið svo auðveldara sé að átta sig á kvikuinnskotinu í Svartsengi. Á líkaninu má sjá innskotin þrjú sem urðu árið 2020 og einnig það sem nú er í gangi. Það er metið á 4-5 km. dýpi og er aðeins dýpra en innskotin sem urðu 2020. Jarðskjálftavirknin er svo að dreifast allt í kringum kvikuinnskotið sem líkja má við langan og mjóan borða eða sillu en líkanið gerir ráð fyrir að innskotið nái yfir sjö til átta kílómetra svæði sem liggur frá Sýlingarfelli norðaustri og í suðvestur á milli Bláa lónsins og Þorbjarnar og allt að Sundvörðuhrauni.

Kristín segir skjálftana verða af því að kvikan þurfi pláss og þar sem hún þrýstist upp í jarðlögin þá valdi hún skjálftum allt í kringum innskotið.

Uppsafnaður fjöldi jarðskjálfta sem eru af stærðinni M3,0 eða stærri eru orðnir 900 talsins frá því fyrsta innskotavirknin og landrisið varð við Þorbjörn í ársbyrjun 2020. Flestir urðu skjálftarnir í aðdraganda eldgossins í febrúar og mars 2021 og svo aftur í innskoti í Fagradalsfjalli í desember 2021.

Kristín varpaði fram þeirri spurningu við hverju væri að búast og hvað við værum að fara að sjá næstu daga og mánuði. Hún sagði að búast mætti við áframhaldandi jarðskjálftavirkni samhliða kvikusöfnun. Hún sagði virknina halda áfram á svipuðum slóðum við Þorbjörn, Svartsengi og áfram á Reykjanesskaganum.

„Svo höfum við verið að tala um skjálfta í Brennisteinsfjöllum. Við vitum að stærstu jarðskjálftarnir á Reykjanesskaganum verða í Brennisteinsfjöllum, en þau eru rétt austan við Kleifarvatn, milli Bláfjalla og Kleifarvatns. Sagan segir okkur það að þarna verða skjálftar af stærðinni 6 til 6,5 á svona fimmtíu ára fresti. Nú eru komin fimmtíu og fjögur ár frá því að síðasti skjálfti var. Við vitum líka að þessir skjálftar gerast samhliða miklum jarðskjálftahrinum og nú erum við á svoleiðis tímabili. Það verður því miður að teljast frekar líklegt að það styttist í þennan skjálfta,“ sagði Kristín. Hún sagði líka að áhrif skjálfta í Brennisteinsfjöllum yrðu meiri á höfuðborgarsvæðinu en í Grindavík og ráðist það af fjarlægð frá upptökum. - Hér má sjá framsögu Kristínar á fundinum.

Landrisið við Þorbjörn framhald af atburðum frá 2020

Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, fór yfir jarðskorpuhreyfingar og hvernig þær tengjast þeim jarðskjálftum sem orðið hafa í og við Grindavík síðustu daga og vikur. Halldór sagði að á síðustu tveimur árum hefur mælakerfið á Reykjanesskaganum verið bætt mikið. Núna stendur yfir fjórða ristímabilið við Þorbjörn frá árinu 2020, en það ár komu þrjár rislotur við fjallið. Atburðirnir sem nú eru í gangi eru áþekkir því sem gerðist fyrir tveimur árum og eru framhald af þeim atburðum. - Erindi Halldórs er hér.

Mikilvægasta virkjun HS Orku í Svartsengi

Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, segir virkjunina í Svartsengi vera mikilvægustu virkjun fyrirtækisins. Þaðan er dreift heitu og köldu vatni til allra sveitarfélaga á Suðurnesjum, auk þess sem þar er framleitt rafmagn. „Svartsengi er mikilvægur innviðapunktur,“ sagði Kristinn á íbúafundinum.

Hann sagði að HS Orka hafi gengið í gegnum mikinn lærdóm í fyrra þegar jarðskjálftahrina hófst 24. febrúar 2021 og yfir 50.000 jarðskjálftar urðu á svæðinu, þar af 60 yfir M4,0 og sá stærsti mældist M5,7. Kristinn sagði að vélbúnaður í Svartsengi hafi staðist þá áraun vel og engar alvarlega skemmdir hafi orðið á búnaði sem ógnað gætu rekstraröryggi virkjunarinnar. Þá hafi engar skemmdir orðið á borholum og í raun hafi jarðskjálftarnir haft jákvæð áhrif á jarðhitakerfið.

Nú er tímapunkturinn til að huga að náttúruhamfaratryggingum

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, sagði að nú væri tímapunkturinn sem hægt væri að gera ýmislegt til að huga betur að tryggingaverndinni. Náttúruhamfaratrygging Íslands tryggir landsmenn alla fyrir tjóni sem kann að verða m.a. vegna jarðskjálfta og eldgosa. Lausafé eins og t.d. innbú er hægt að tryggja fyrir jarðskjálftum og eldgosum en það gerist með því að verðmætin séu brunatryggð hjá almennum tryggingafélögum.

Löggæsla aukin vegna óvissustigs í Grindavík

Löggæsla verður aukin í Grindavík og sérstaklega yfir næturtímann, frá miðnætti og til morguns. Þetta kom fram í máli Hjálmars Hallgrímssonar, lögreglumanns í Grindavík, á íbúafundi í Grindavík í síðustu viku. Boðað var til fundarins vegna þeirra jarðhræringa sem verið hafa við Grindavík síðustu daga. Löggæslan er aukin til þess að íbúar í Grindavík geti sofið rólegra en jarðskjálftar undanfarið og landris við Þorbjörn hefur áhrif á líf fólks.

„Staðan er sú að við erum klár með viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Grindavík. Hún tók gildi í upphafi síðasta árs. Eftir henni var unnið í eldgosinu á Fagradalsfjalli þá sex mánuði sem það var í gangi. Núna, enn aftur er búið að virkja þess áætlun, eftir að lýst var óvissustigi almannavarna vegna jarðhræringa síðastliðinn sunnudag. Viðbragðsáætlanir eru verkfæri fyrir þá viðbragðsaðila sem þurfa að vinna eftir þeim. Þær eru aðgengilegar fyrir þá sem þurfa að kynna sér innihald þeirra, t.d. á heimasíðum almannavarna og lögreglu,“ sagði Hjálmar Hallgrímsson á fundinum.

„Að sama skapi eru rýmingaráætlanir klárar, jafnt fyrir almenning, sem og stofnanir og stærstu fyrirtæki. Á næstu dögum munu fulltrúar almannavarnanefndar heimsækja stofnanir og eftir atvikum fyrirtæki til að fara yfir þessar áætlanir,“ sagði hann jafnframt.

Á heimasíðu Grindavíkurbæjar má finna upplýsingarit með korti og tilmælum vegna rýmingar í Grindavík á íslensku og pólsku.

Hjálmar segir að samstarf viðbragðaðila á svæðinu vera mjög gott. „Það sýndi sig sérstaklega þegar við fengumst við eldgosið í Fagradalsfjalli. Þar unnu allir viðbragðsaðilar sem ein heild, hvort sem um var að ræða björgunarsveitir, lögreglu, slökkvilið og alla aðra sem komu að því stóra verkefni. Viðbragðáætlunin virkaði eins og hún átti að gera. Bjargir komu fljótt og vel á svæðið, skipulagið var gott og fjarskiptakerfið gekk upp. Að endingu er vert að benda á að hér í Grindavík erum við einhverja öflugustu björgunarsveit landsins, hvort heldur litið sé til mannauðs eða tækjakosts,“ sagði Hjálmar að endingu á fundinum.