Föstudagur 20. maí 2022 kl. 19:38

Áframhaldandi jarðskjálftavirkni samhliða kvikusöfnun

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, úrskýrði á íbúafundinum í Grindavík á fimmtudagskvöld hvað væri að gerast í náttúrunni við Grindavík. Hús sýndi m.a. líkan sem gert hefur verið svo auðveldara sé að átta sig á kvikuinnskotinu í Svartsengi. Á líkaninu má sjá innskotin þrjú sem urðu árið 2020 og einnig það sem nú er í gangi. Það er metið á 4-5 km. dýpi og er aðeins dýpra en innskotin sem urðu 2020. Jarðskjálftavirknin er svo að dreifast allt í kringum kvikuinnskotið sem líkja má við langan og mjóan borða eða sillu en líkanið gerir ráð fyrir að innskotið nái yfir sjö til átta kílómetra svæði sem liggur frá Sýlingafelli norðaustri og í suðvestur á milli Bláa lónsins og Þorbjarnar og allt að Sundvörðuhrauni.

Kristín segir skjálftana verða af því að kvikan þurfi pláss og þar sem hún þrýstist upp í jarðlögin þá valdi hún skjálftum allt í kringum innskotið.

Uppsafnaður fjöldi jarðskjálfta sem eru af stærðinni M3,0 eða stærri eru orðnir 900 talsins frá því fyrsta innskotavirknin og landrisið varð við Þorbjörn í ársbyrjun 2020. Flestir urðu skjálftarnir í aðdraganda eldgossins í febrúar og mars 2021 og svo aftur í innskoti í Fagradalsfjalli í desember 2021.

Kristín varpaði fram þeirri spurningu við hverju væri að búast og hvað við værum að fara að sjá næstu daga og mánuði. Hún sagði að búast mætti við áframhaldandi jarðskjálftavirkni samhliða kvikusöfnun. Hún sagði virknina halda áfram á svipuðum slóðum við Þorbjörn, Svartsengi og áfram á Reykjanesskaganum. 

„Svo höfum við verið að tala um skjálfta í Brennisteinsfjöllum. Við vitum að stærstu jarðskjálftarnir á Reykjanesskaganum verða í Brennisteinsfjöllum, en þau eru rétt austan við Kleifarvatn, milli Bláfjalla og Kleifarvatns. Sagan segir okkur það að þarna verða skjálftar af stærðinni 6 til 6,5 á svona fimmtíu ára fresti. Nú eru komin fimmtíu og fjögur ár frá því að síðasti skjálfti var. Við vitum líka að þessir skjálftar gerast samhliða miklum jarðskjálftahrinum og nú erum við á svoleiðis tímabili. Það verður því miður að teljast frekar líklegt að það styttist í þennan skjálfta,“ sagði Kristín. Hún sagði líka að áhrif skjálfta í Brennisteinsfjöllum yrðu meiri á höfuðborgarsvæðinu en í Grindavík og ráðist það af fjarlægð frá upptökum.

Í spilaranum hér að ofan má sjá erindi Kristínar sem hún flutti á íbúafundinum.