Föstudagur 20. maí 2022 kl. 11:44

Löggæsla aukin vegna óvissustigs í Grindavík

Löggæsla verður aukin í Grindavík og sérstaklega yfir næturtímann, frá miðnætti og til morguns. Þetta kom fram í máli Hjálmars Hallgrímssonar, lögreglumanns í Grindavík, á íbúafundi í Grindavík í gærkvöldi. Þetta sé gert til að íbúar í Grindavík geti sofið rólegra en jarðskjálftar undanfarið og landris við Þorbjörn hefur áhrif á líf fólks.

„Staðan er sú að við erum klár með viðbragðsáætlun vegna eldgoss í Grindavík. Hún tók gildi í upphafi síðasta árs. Eftir henni var unnið í eldgosinu á Fagradalsfjalli þá sex mánuði sem það var í gangi. Núna, enn aftur er búið að virkja þess áætlun, eftir að lýst var óvissustigi almannavarna vegna jarðhræringa síðastliðinn sunnudag. Viðbragðsáætlanir eru verkfæri fyrir þá viðbragðsaðila sem þurfa að vinna eftir þeim. Þær eru aðgengilegar fyrir þá sem þurfa að kynna sér innihald þeirra, t.d. á heimasíðum almannavarna og lögreglu,“ sagði Hjálmar Hallgrímsson á fundinum.

„Að sama skapi eru rýmingaráætlanir klárar, jafnt fyrir almenning, sem og stofnanir og stærstu fyrirtæki. Á næstu dögum munu fulltrúar almannavarnanefndar heimsækja stofnanir og eftir atvikum fyrirtæki til að fara yfir þessar áætlanir,“ sagði hann jafnframt.

Á heimasíðu Grindavíkurbæjar má finna upplýsingarit með korti og tilmælum vegna rýmingar í Grindavík á íslensku og pólsku.

Hjálmar segir að samstarf viðbragðaðila á svæðinu vera mjög gott. „Það sýndi sig sérstaklega þegar við fengumst við eldgosið í Fagradalsfjalli. Þar unnu allir viðbragðsaðilar sem ein heild, hvort sem um var að ræða björgunarsveitir, lögreglu, slökkvilið og alla aðra sem komu að því stóra verkefni. Viðbragðáætlunin virkaði eins og hún átti að gera. Bjargir komu fljótt og vel á svæðið, skipulagið var gott og fjarskiptakerfið gekk upp. Að endingu er vert að benda á að hér í Grindavík erum við einhverja öflugustu björgunarsveit landsins, hvort heldur litið sé til mannauðs eða tækjakosts,“ sagði Hjálmar að endingu á fundinum.