Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Húsið ónýtt og lánið hjá lífeyrissjóði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 5. janúar 2024 kl. 06:07

Húsið ónýtt og lánið hjá lífeyrissjóði

Getur ekki hugsað sér að búa lengur í Grindavík

Grindvíkingar fóru misilla út úr jarðhræringunum þann 10. nóvember en fáir líklega eins illa eins og hjónin Margrét Huld Guðmundsdóttir og Andri Helgason. Húsið þeirra á Víkurbraut er ónýtt eins og mörg húsanna þar og til að bæta gráu ofan á svart, eru þau með húsnæðislán sitt hjá lífeyrissjóði en eins og landsmenn hafa tekið eftir, segjast lífeyrissjóðirnir ekki geta fellt niður verðbætur og vexti af lánum, eins og bankarnir hafa gert.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Óraði aldrei fyrir því að hugsanlega myndi byrja gjósa undir fótunum á okkur

Margrét og Andri keyptu húsið í júní á síðasta ári og voru nýbúin að borga síðustu útgreiðsluna, þegar þau þurftu að flýja heimilið. Margrét getur ekki hugsað sér að flytja aftur til Grindavíkur. Þau höfðu einnig fjárfest í húsi í Danmörku síðasta sumar en Margrét hafði áður búið þar árið 2004 og dreymir um að búa þar aftur. „Við höfðum búið í Hafnarfirði en gátum keypt okkur  húsnæði í Grindavík og ákváðum því að slá til og nýttum mismuninn í hús í Danmörku. Við vinnum bæði á höfuðborgarsvæðinu en keyrðum á milli til að geta stundað vinnuna áfram, okkur fannst það ekkert mál. Við vissum af jarðhræringunum undanfarin ár en vorum ekkert hrædd við jarðskjálftana en okkur óraði aldrei fyrir því að hugsanlega myndi byrja gjósa undir fótunum á okkur eða að húsið myndi fara eins illa og það fór. Við vorum stödd heima hjá okkur föstudaginn örlagaríka sem var ekkert venjulegur og ákváðum að fara til vina í Reykjavík til að gista þetta kvöld og fórum um níuleytið, tókum það helsta en sonur minn varð eftir en þurfti svo að rýma eins og aðrir Grindvíkingar. Þá var búin að myndast ein lítil sprunga í svefnherberginu en hún var bara eins og eftir dúkahníf.

Aldrei átti ég von á þeirri aðkomu sem beið mín

Við komum svo á mánudeginum til að sækja það helsta og ég bjó mig undir ýmislegt en aldrei átti ég von á þeirri aðkomu sem beið mín, hún var hræðileg! Ég var með miða með fimm hlutum sem ég ætlaði mér að sækja á þeim fimm mínútum sem voru í boði með björgunarsveitarfólki en þegar við komum var búið að hleypa fólki inn á sínum bílum, sem gaf okkur færi á að bjarga aðeins meira en þessum fimm hlutum.

Við þurftum að sparka upp útidyrahurðina og hallinn á gólfum var strax orðinn ansi mikill, gólfið var hreinlega orðið U-laga. Það er veggur á móti fyrsta herberginu þegar inn er komið og það var mjög stór sprunga búin að myndast í hann, ég hefði getað komið hendinni á milli. Ég sá fljótt að húsið væri ónýtt og varð einfaldlega fyrir ansi miklu áfalli en ákvað fyrst að bjarga og svo að sjokkerast. Dagarnir síðan þá hafa farið í að kanna okkar stöðu, bæði hvað varðar Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NHT) og svo lánamál okkar en við erum með húsnæðislánið okkar hjá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. Við fylgdumst með umræðunni og fljótlega gáfu bankarnir eftir og sögðust líka fella niður vexti og verðbætur en lífeyrissjóðirnir telja sig ekki geta gert það vegna þess að lögin banna þeim það. Ég þykist nú vita að lögum hafi oft verið breytt til að liðka fyrir málum og finnst skrýtið að alþingi geti ekki beitt sér í þessu máli.“

Að vita af virku hraunflæði undir mér er tilhugsun sem ég mun ekki geta vanist

Ekki nóg með að Margrét og Andri væru í þessari stöðu, heldur virtist líta út fyrir að þau þyrftu að fjárfesta í Grindavík fyrir tryggingarbæturnar frá Náttúruhamfaratryggingu. „Okkur leist mjög vel á okkur í Grindavík en ég get ekki hugsað mér að búa þar lengur eftir þennan örlagaríka föstudag. Að vita af virku hraunflæði undir mér er tilhugsun sem ég mun ekki geta vanist og mun því ekki flytja hingað aftur. Þess vegna var mjög íþyngjandi það fyrsta sem við fengum að heyra varðandi tryggingabæturnar, að við yrðum að fjárfesta í Grindavík en eftir fyrirspurn í tollhúsinu fengum við staðfest að NHT muni ekki nýta sér þá heimild gagnvart okkur Grindvíkingum. Í lögunum er líka heimild hjá viðkomandi bæjarfélagi að halda eftir 15% af bótafjárhæðinni ef flutt er úr bænum en okkur hefur verið sagt að Grindavíkurbær muni ekki nýta sér þá heimild heldur svo okkur er frjálst að setjast að þar sem við viljum. Upplýsingagjöfin í upphafi var í ansi mikilli óreiðu sem var ekki til að bæta ástandið ofan á sjálft áfallið eftir svona stóran atburð en sem betur fer eru komnar skýrar línur í þetta og við getum horft fram á veginn. Mér finnst athyglisvert að bæði NHT og Grindavíkurbær gátu sveigt fram hjá lögum en lífeyrissjóðirnir geta það ekki, skrýtið,“ segir Margrét.

Hræðslan í dag er of mikil fyrir að vera búsett áfram í Grindavík

Það er ljóst að þau hafa samt orðið fyrir nokkurra milljóna króna tapi því brunabótamat hússins er lægra en kaupverðið, sjálfsábyrgðin er 400 þúsund krónur og svo er spurning hvernig verður með innbúið þar sem allt var í raka og gufu við fyrstu komu eftir rýmingu og það því líklega ónýtt. „Við erum ofboðslega þakklát fyrir að fá þetta val og frelsi, að geta valið okkur annan stað til frambúðar þar sem hræðslan í dag er of mikil yfir að vera búsett áfram í Grindavík. Það er greinilega margt frábært fólk sem vinnur fyrir Grindavíkurbæ og við höfum ekkert nema gott um Grindavík að segja, ég get bara ekki hugsað mér að búa þar lengur vegna jarðhræringanna. Hvernig mál okkar enda hjá lífeyrissjóðnum verður svo bara að koma í ljós en vonandi verður hægt gera upp það lán við fyrsta tækifæri. Ég bar upp spurningu á íbúafundinum í Laugardalshöll sem  forstjóri Náttúruhamfaratryggingar, Hulda Ragnheiður Árnadóttir, hafði ekki svar við á staðnum en ég fékk svar við því daginn eftir svo hún fór hratt í það mál. Ég spurði hvort við þyrftum áfram að borga af tryggingunni þótt svo að búið væri að dæma húsið ónýtt og beindi því til NHT ásamt því að spyrja hver myndi beita sér gegn lífeyrissjóðnum. Ég spurði hvort við þyrftum að halda áfram að greiða af láni af húsi sem er ónýtt eða hreinlega fá sömu meðferð og þau sem eru með lán hjá bönkunum, spurningin átti að beinast að Sigurði Inga en enginn vildi svara þeirri spurningu. Hulda endaði á að segja að þau mál yrðu skoðuð sérstaklega og verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því.

Við viljum senda þakklæti til allra sem hafa komið að þessum málum og aðstoðað okkur og sérstakar þakkir fá nágrannar okkar sem hafa verið okkur innan handar. Björgunarsveitarfólkið hefur líka staðið sig frábærlega og fyrir það erum við þakklát en nú ætlum við að taka smá æðruleysi á þetta og óskum öllum Grindvíkingum góðs gengis í sínum málum,“ sagði Margrét að lokum.