Mannlíf

Humarsúpan á Bryggjunni vekur heimsathygli
Humarsúpan sívinsæla. Mynd: Ása Steinars
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 21. janúar 2023 kl. 06:45

Humarsúpan á Bryggjunni vekur heimsathygli

„Frábært fyrir okkur að fá svona umsögn frá þessu virðulega ferðatímariti,“ segir Hilmar S. Sigurðsson, einn eigenda Bryggjunnar.

Veitingastaðurinn Bryggjan í Grindavík vakti heimsathygli á dögunum fyrir sína frábæru humarsúpu en súpan þótti ein af tuttugu bestu réttum síðasta árs sem ritstjórar ferðatímaritsins Condé Nast Traveler gæddu sér á. Tímaritið fjallar mikið um gæði og upplifun ferðaþjónustu um allan heim og það er ekki auðvelt að komast á blað hjá þeim.

Bryggjan er þekktur staður á heimsvísu, ekki síst vegna hinnar frábæru heimildarmyndar, „Lobster soup“, sem gerð var um staðinn og um fyrri eigendur en myndin kom út árið 2020.

Public deli
Public deli

Það er ekki að ástæðulausu að myndin heitir „Humarsúpan“ en hún hefur verið á matseðli Bryggjunnar allt frá því að staðurinn opnaði árið 2009. Bryggjan er alltaf með humarsúpu á matseðlinum en líka gamaldags góða kjötsúpu auk grænmetissúpu. Af þessum þremur súpum nýtur humarsúpan mestrar hylli en ritstjórar ferðatímaritsins Condé Nast Traveler, tóku saman tuttugu bestu réttina sem þeir brögðuðu á víðsvegar um heiminn árið 2022 og humarsúpa Bryggjunnar komst á listann. Hægt er að lesa umsögnina á vef Condé Nast Traveler.

Hilmar S. Sigurðsson, einn eigenda og framkvæmdastjóri Bryggjunnar, var að sjálfsögðu í skýjunum. „Það er frábært fyrir okkur að fá svona umsögn og þetta mun ekki gera neitt annað en laða fleira ferðafólk til okkar. Grindavík og allt Reykjanesið er í mikilli sókn hvað varðar áhuga ferðamanna á þessum hluta landsins. Bókunarstaðan fyrir árið 2023 hefur aldrei litið jafn vel út hjá Bryggjunni og það stefnir í metár í fjölda ferðamanna.

Við á Bryggjunni verðum tilbúnir fyrir það og hlökkum til að taka vel á móti gestum, bæði erlendum og ekki síst Íslendingum sem eru margir okkur tryggustu viðskiptavinir.“

Hinn glæsilegi salur á þriðju hæð Bryggjunnar.