Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Geimfararnir lenda geimfari sínu í Hafnarfirði laugardagskvöldið  30. desember
Föstudagur 29. desember 2023 kl. 06:00

Geimfararnir lenda geimfari sínu í Hafnarfirði laugardagskvöldið 30. desember

Grindvíska hljómsveitin Geimfararnir var stofnuð um áramótin ´97/´98. Hljómsveitin átti að leika á þremur dansleikjum á Hafurbirninum sáluga en hér eru félagarnir ennþá, að fara halda áramótaball sitt í 26. skipti. Undanfarin ár hefur ballið verið haldið á Salthúsinu í Grindavík en hugsanlega verður aldrei aftur haldið ball þar, svo illa fór Salthús Láka í jarðhræringunum að undanförnu. Allt útlit var því fyrir að ekkert Geimfaraball yrði en félagarnir ætla sér að halda hefðinni lifandi og stuðla að samveru og samkennd sveitunga sinna, og munu halda ballið í Ölhúsinu í Hafnarfirði laugardagskvöldið 30. desember.

Það var trymbilinn Guðmundur Jónsson sem kveikti á þessari hugmynd með skilaboðum á félaga sína á Messenger fimmtánda nóvember, fimm dögum eftir að Grindvíkingar þurftu að yfirgefa bæinn. „Sælir félagar. Skelfilegir tímar hjá okkur og vonandi kemst lífið í rétt horf hjá okkur sem fyrst. Merkilegt nokk þá er ég ennþá til í að taka ball milli jóla og áramóta, veit ekki hvar þið standið varðandi það en kannski væri það bara gott fyrir okkur að taka eitt ball. Mér var að detta í hug hvort við ættum að heyra í Ölhúsinu í Hafnarfirði og tékka hvort þeir vilji leyfa Grindvíkingum að koma saman á hörku balli. Þetta er bara hugmynd, hvað finnst ykkur?“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er skemmst frá því að segja að aðrir Geimfarar voru heldur betur klárir í slaginn. Gummi Jayster eins og hann er oft kallaður, segir að Geimfararnir verði klárir þann 30. desember. „Þetta voru og eru vægast sagt skrýtnir tímar sem við Grindvíkingar erum að upplifa og mér fannst þetta nánast vera skylda okkar Geimfara, að stuðla að hittingi sveitunga og hafa gaman eitt kvöld. Þessi böll okkar hafa í gegnum tíðina verið fastur liður í jóla- og áramótahaldi Grindvíkinga, þar sem brottfluttir hafa þyrpst í bæinn, hitt gamla félaga og dansað við tónlist Geimfaranna. Nú hafa þessir sömu aðilar heldur betur tækifæri á að halda því áfram, þurfa bara ekki að fara eins langt. Flestir Grindvíkingar búa á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna ákváðum við að halda ballið þar en við höfum verið spurðir hvort við ætlum ekki líka að spila annars staðar. Við ætlum bara að halda eitt stórt ball en munum skoða að bjóða upp á rútuferðir ef áhugi er fyrir hendi. Eitt er ljóst að við lofum gamla, góða Geimfarastuðinu á þessu balli á Ölhúsinu laugardagskvöldið 30. desember,“ sagði The Jayster að lokum.