Hs Orka starf
Hs Orka starf

Mannlíf

Gamall draumur eða  grái fiðringurinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 26. apríl 2021 kl. 14:17

Gamall draumur eða grái fiðringurinn

-segir Þórður Helgi Þórðarsson, Doddi litli, um fyrstu og síðustu sólóplötu sína „Last“. Persónulegir textar og morðsaga

Útvarps- og tónlistarmaðurinn Doddi, eða Þórður Helgi Þórðarson hefur sent frá sér nýja sólóplötu sem hann segir að sér sú fyrsta og síðasta en hún heitir Last. „Þessi útgáfa er gamall draumur að rætast. Ég hef verið tengdur tónlist í áratugi en meira talað um hana sem plötusnúður og fjölmiðlamaður. Þetta er kannski grái fiðringurinn minn,“ segir Doddi í spjalli við Víkurfréttir en margir kannast við þýðu Njarðvíkurröddina á Rás 2.

Doddi litli gaf á síðasta ári út tónlist sem furðudýrið Love Guru en nýja platan inniheldur tólf lög.

Sólning
Sólning

Aðspurður segir Doddi tónlistina á plötunni mega flokka sem synthapopp níunda áratugarins með einhverjum með nokkrum aðeins ferskari kryddblöndum. Plötuna vann Doddi að miklu leyti með 24 ára „producer“ frá Marocco, N3dek. N3dek er harður EDM tónlistarmaður og hafði unnið eitt remix fyrir Love Guru. Nokkrir gstir koma fram á plötunni, Una Stef, Karitas Harpa, Lísa Einarsdóttir, Aldís, Rachel Wish, Íris Ey, Inger, Weekendson og breski rapparinn Gimson.

Hugmyndin að plötunni fæddist þegar Doddi gerði síðustu Love Guru plötu (Dansaðu fíflið þitt, dansaðu) þar sem hann fékk takt frá Birgi Þórarinssyni (Biggi Veira, GusGus) og úr varð Wastelands sem var síðasta lagið á ummræddri Love Guru plötu, rúmlega átta mínútna opus þar sem Una Stef söng viðlagið og Eiríkur Guðmundsson las ljóð, eitthvað sem átti lítið skylt við tónist Love Guru.


Sjálfumglatt kyntröll

Doddi segir að honum hafi fundist það of góður biti í þann hundskjaft svo hann gerði lagið alveg upp á nýtt og úr varð fyrsta lagið sem Doddi gaf út sem hann sjálfur, Last Dance (Wastelands). Platan er virðingarvottur til helstu nýrómantíkur og syntha popp hetja Áttunnar.

Hljómsveitin Depeche Mode á eitt lag á plötunni rétt eins og keflvíska hljómsveitin CTV. Þá samdi Gunnar Hilmarsson eitt laganna á plötunni, Doddi samdi sjálfur hin lögin níu ýmist einn eða með öðrum.

„Ég hef líka gert tónlist í mörg ár sem sjálfumglatt kyntröll í gulum jogging galla, Love Guru (sem er sá eini sem telur hann kyntröll) en Love Guru tónlistin er bara flipp, alls ekki mín tónlist. Mig langaði alltaf að gera eigin tónlist en hafði aldrei sjálfstraustið í það, það er öllu erfiðara þegar maður hefur ekki gula gallann til að fela sig á bak við, geta sagt: „Þetta er bara djók“.

Það var mikil áskorun að semja textana á plötuna þar sem allir Guru textar fjalla um það sama, að fara út að dansa og skemmta sér, án þess að nefna áfengi, eiturlyf eða kynlíf því það er alltaf þó nokkur fjöldi ungra krakka sem hafa gaman að Guru og ég er enn brenndur af símtali sem útvarpsstöð fékk fyrir átján árum þar sem móðir kvartaði yfir þessu Guru kvikindi: „Níu ára sonur minn er að syngja um að sjúga og sleikja ...“. Eftir það fóru línur eins og „haldið ykkur frá húsinu, fáið ykkur frekar rúsínu“ að heyrast.

Á plötunni má heyra mjög persónulega texta, morðsögu og alls konar hluti sem ég hef aldrei skrifað áður.

Tónlistin er í anda hetjanna minna þegar ég var að uppgötva -tónlist snemma á níunda áratugnum, syntha-popp og ný rómantik.“


Til níunda áratugarins

Doddi er brottfluttur Njarðvíkingur en heldur alltaf góðri tengingu við Suðurnesin en tveir listamenn úr Reykjanesbæ koma sterkt inn við gerð nýju plötunnar.

„Jón Þór Helgason var mín hægri hönd og tók upp allan söng og Íris Eysteinsdóttir syngur í tveimur lögum en hún er stjarnan í síðustu smáskífunni af plötunni, ‘Alive’ sem kemur út í næsta mánuði. Við erum einmitt að vinna myndbandið núna.

Nú er tilvalið að halla sér aftur og ferðast til níunda áratugarins taka sporið í Bergás, Holtaskóla eða bara á mínum heimavelli, Fjörheimum. Góða ferð og góða skemmtun,“ sagði Doddi hress að vanda.