Mannlíf

Fróðleiksfúsi sýnir að spjaldtölva getur vel verið kennslutæki
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 1. apríl 2024 kl. 06:07

Fróðleiksfúsi sýnir að spjaldtölva getur vel verið kennslutæki

Gagnvirkur fróðleikur fyrir fróðleiksfúsar fjölskyldur í Þekkingarsetri Sandgerðis

Fróðleiksfúsi er heitið á verkefni sem á ættir sínar að rekja til Suðurnesjabæjar, nánar tiltekið til Þekkingarseturs Suðurnesja í Sandgerði en þar hefur staðið yfir náttúrugripasýning allt frá árinu 1995. Daníel Hjálmtýsson er verkefnastjóri fræðslu og miðlunar og þegar hann tók við starfi árið 2022, fæddist hugmynd hjá honum þegar Hrafn sonur hans, sem þá var sex ára gamall, var að spyrja út í þau fjölmörgu dýr sem eru til sýnis í setrinu.

Kviknaði ljós

Það kviknaði ljós hjá Daníel eftir spurningaflóðið frá syninum. „Hrafn spurði mig spjörunum úr og þegar ég hafði lokið þeim verkefnum sem ég þurfti að klára, fæddist hugmynd hjá mér og úr varð saga um dýrin sem hann vildi fræðast um. Hægt og rólega varð til ákveðinn hugarheimur, persónur og pæling að búa til einhvers konar fræðsluleik um náttúruna og þá kannski aðallega um dýrin og vistkerfin sem eru hér á Suðurnesjum og við erum að rannsaka á hverjum degi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrsta skrefið var að festa hugmyndina og skissurnar á blað og sækja um styrk til Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja, mér var vel tekið og fékk styrk til að hrinda verkefninu í framkvæmd. Ég var búinn að skissa upp helstu karakterana, gera handrit og strúktúra hvað ég vildi gera og vegna styrksins gat ég fengið grafískt hönnunarfyrirtæki, Jökulá, til að hanna allt sem sést í leiknum í dag. Jökulá bjó sömuleiðis til viðmótið sem þurfti til að hægt yrði að forrita leikinn og við í sameiningu, höfðum samband við útskriftarárganginn í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Okkur var mjög vel tekið og mjög öflugur hópur útskriftarnema tók verkefnið að sér og úr varð samvinnuverkefni Þekkingarsetursins, Jökulár og Háskólans í Reykjavík. Þó svo að verkefnið sé tilbúið, þá mun það verða í sífelldri þróun og við vorum að fá nýjan styrk í síðustu viku. Hann mun fara í að þýða verkefnið, bæði yfir á ensku og pólsku. Fróðleiksfúsi virkar þá ekki einungis sem náttúrufræðsla heldur einnig sem gott tæki til tungumálakennslu.“

Daníel Hjálmtýsson fræðir áhugasama nemendur.

Gagnvirkur fróðleikur

Þekkingarsetur Suðurnesja opnar að vori en undanfarin ár hefur verið tekið á móti rúmlega þúsund börnum á leik- og grunnskólaaldri í vorferðum. Með því að þýða leikinn yfir á ensku og pólsku sér Daníel gullin tækifæri til að laða erlenda ferðamenn að Þekkingarsetrinu.

„Markhópurinn er fjögurra til tólf ára börn en yfirskrift leiksins er Gagnvirkur fræðsluleikur fyrir fróðleiksfúsar fjölskyldur. Ég sé algjörlega fyrir mér að í stað þess að foreldrar fari með börnin sín í bíó á laugardegi, komi þau frekar í heimsókn til okkar í Þekkingarsetrið og spili Fróðleiksfúsa. Ég er sannfærður um að Fróðleiksfúsi mun laða að erlent ferðafólk og ég þykist líka vita að náttúrufræðikennarar á Íslandi vilji koma með nemendur sína í heimsókn til okkar og fræðast um dýrin og náttúruna í gegnum Fróðleiksfúsa, í stað þess að lesa um í náttúrufræðibókum,“ segir Daníel.

Námstæki

Þekkingarsetur Suðurnesja er afsprengi Fræðasetursins í Sandgerði sem var sett á stofn árið 1995 en hvatamaður að því var Reynir Sveinsson sem nýlega er fallinn frá. Hugmyndin að Fróðleiksfúsa er í raun að færa hið gamla safn yfir í nútímann og nýta tækni til fræðslu. „Það er ekki hægt að fara með ipad-inn heim í stofu og leika leikinn þar, maður þarf að vera á staðnum til að geta fundið viðkomandi dýr og maður þarf að nýta tæknina sem hjálpartæki. Mér finnst mikilvægt að fræða börnin um möguleikann á nýtingu svona tækja, það er hægt að gera svo margt annað en spila Angry birds eða Minecraft. Ég viðurkenni fúslega að ég hef verið uggandi yfir áhrifum snjalltækja á börnin okkar, í raun hef ég áhyggjur af okkur fullorðna fólkinu líka varðandi það. Þess vegna er ég ofboðslega ánægður að geta sýnt fram á að hægt sé að nýta tækið sem námstæki, sjálft appið er litríkt og skemmtilegt, það er með hljóðum allra dýranna og miklum fróðleik, sem börnin eiga auðvelt með að meðtaka. Ef þau myndu mæta á svona náttúrugripasýningu, myndu þau ekki vita neitt um dýrin og ég hefði þurft að lesa ótal bækur til að geta aflað mér þess fróðleiks sem kemur fram í leiknum. Það skemmir síðan ekki fyrir að börnin hafa mjög gaman af leiknum, sem er mjög ánægjulegt fyrir mig og okkur sem stöndum að þessu,“ sagði Daníel að lokum.