Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Eyjamenn með styrktartónleika fyrir Grindavík
Grindavík. VF/Ísak Finnbogason
Mánudagur 1. apríl 2024 kl. 06:04

Eyjamenn með styrktartónleika fyrir Grindavík

Eyjamenn ætla að halda styrktartónleika fyrir Grindvíkinga föstudagskvöldið 3. maí í Eyjum og samhliða sölu á tónleikana hefur verið sett af stað söfnun hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja leggja hönd á plóg. Reikningsnúmerið er 0185-26-000270, kennitala er 270246-4199.

Sótt hefur verið um leyfi sýslumanns fyrir söfnuninni og hún unnin í samráði við Grindarvíkurbæ en þar er sérstakur sjóður settur á laggirnar með sérstakri úthlutunarnefnd.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Söfnunarnefndin í Eyjum er skipuð þeim Höllu Svavarsdóttur, Njáli Ragnarssyni, Sigurhönnu Friðþórsdóttur, Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, Bjarna Ólafi Guðmundssyni og Gísla Valtýssyni, sem verður sérstakur fjárgæslumaður söfnunarinnar.

Á tónleikunum 3. maí koma listamenn frá Eyjum til með að skemmta og flytja tónlist í anda Eyjatónleikanna í Hörpu. Þeir sem þegar hafa boðað komu sína eru Karlakór Vestmannaeyja, meðlimir úr Kvennakór Vestmannaeyja, Blítt og létt hópurinn, hljómsveitin Gosarnir með þá Gísla Stefáns, Jarl Sigurgeirs, Dúna Geirs, Sæþór Vídó, Þóri Ólafs og Bigga Nielsen innanborðs og fá þeir nokkra gestasöngvara, meðal annars Unu Þorvalds, Kristínu Halldórs, Tóta Óla og Hafþór Hafsteins, hljómsveitina Moldu, Unnar Gísla eða Júníus Meyvant og sérstakir gestir verða Matti Matt og Védís Hervör.

Allur ágóði af tónleikunum rennur beint í söfnunina og eru Hallarbændum færðar þakkir fyrir lánið á henni. Allir listamenn gefa vinnu sína og því rennur miðaverð óskipt í söfnunina.

Miðasala er hafin á tix.is. Miðaverð er 5.000,- krónur en það má greiða meira fyrir miðann, segir í tilkynningu frá Eyjamönnum.