Mannlíf

Ekki gott að taka stórar ákvarðanir í miðju áfalli
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 17. febrúar 2024 kl. 06:03

Ekki gott að taka stórar ákvarðanir í miðju áfalli

„Við elskum húsið okkar,“ segja Matthías Örn Friðriksson og Gerður Rún Ólafsdóttir.

Matthías Örn Friðriksson og Gerður Rún Ólafsdóttir fluttu til Grindavíkur árið 2010 þegar Matthías gerði samning við knattspyrnulið Grindavíkur. Þau tóku ástfóstri við bæinn, keyptu sér hús árið 2016 og voru nýbúin að ljúka framkvæmdum og gera húsið að sínu þegar þau þurftu að yfirgefa það. Við tók mikið púsluspil, bæði hvað varðar búsetu en líka að hafa ofan fyrir fimm og tveggja ára gömlum börnum sínum sem komust ekki á sinn leikskóla fyrstu vikurnar. Ástandið hefur tekið á þau eins og aðra Grindvíkinga en þau sjá fram á bjartari tíma. Þau munu flytja í Innri-Njarðvík 1. mars í eitt ár hið minnsta. Þau vonast eftir að geta flutt aftur til Grindavíkur, ekki síst því þar hvílir elsta barnið þeirra.

Hjónin voru, eins og svo margir Grindvíkingar, búin að yfirgefa bæinn áður en hann var rýmdur, svo mikil voru lætin í móður náttúru. Þau pökkuðu ekki miklu, ætluðu að borða hjá systur Gerðar og koma svo aftur heim um kvöldið en nýr veruleiki varð til. Gerður sem er hjúkrunarfræðingur og vinnur á Víðihlíð, hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Grindavík, var mætt í vinnu strax á laugardeginum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við gistum hjá Gunnu systur minni, við tókum í raun húsið yfir og þau fluttu sig annað á meðan en svo var ég mætt til vinnu strax morguninn eftir í Keflavík og var í fjórtán klukkustundir í vinnunni bara þann daginn, allt heimilisfólk í Víðihlíð var lagt þangað inn þegar bærinn var rýmdur. Ég man að það var skrýtið að keyra inn í bæinn en þessar stóru sprungur, eins og við kirkjuna, voru ekki búnar að myndast þá og við keyrðum þar yfir. Við vorum fimm starfsmenn HSS í fylgd lögreglu og björgunarsveitar í verðmætabjörgun í Víðihlíð, að sækja lyf og aðrar nauðsynjar fyrir heimilisfólkið, það var skrýtið að keyra fram hjá íþróttavellinum, maður sá holur sem þar voru búnar að myndast og þetta var allt saman frekar óraunverulegt. Bærinn var auðvitað rýmdur á föstudagskvöldinu og búið að koma öllum af Víðihlíð inn á aðrar stofnanir. Ég myndi segja að starfsfólkið sem var ennþá í Grindavík og björgunarsveitin í Grindavík hafi unnið þrekvirki þetta föstudagskvöld. Allir fóru til Keflavíkur og þaðan var þeim síðan komið inn á önnur heimili, eins og Grund, Sunnuhlíð og Vífilsstaði. Þau eru mörg komin til baka til Keflavíkur og eru á hjúkrunardeild HSS núna. Vinnan mín þessa helgi snerist svo aðallega um að hringja í ættingja heimilisfólksins og halda þeim upplýstum, skrifa hjúkrunarbréf þar sem mikilvægar upplýsingar um hvern og einn koma fram. Ofan á alla þessa vinnu voru svo allir þeir sem ég sinni í heimahjúkrun líka í sambandi við mig svo ég myndi segja að álagið þessa helgi hafi verið mjög mikið. Ég áttaði mig í raun ekki á þessu áfalli öllu fyrr en á mánudeginum en þá tók við nýr höfuðverkur, hvar ætluðum við að búa,“ segir Gerður.

Gerður og Matti eru í flókinni aðstöðu eins og svo margir Grindvíkingar.

Með börnin í vinnunni

Matthías sá um börnin fyrstu helgina þar sem Gerður var á kafi í vinnu en fór líka að svipast um eftir dvalarstað fyrir fjölskylduna og móðurbróðir hans svaraði kallinu. „Þau voru á leiðinni erlendis í viku en buðust svo til að flytja inn á ættingja sína svo við gátum verið í tvær vikur í húsi þeirra í Garðabæ. Þetta er glæsilegt hús, með glæsilegum flygli m.a. og verður að segjast eins og er að við Gerður vorum ekki alveg róleg með börnin okkar ungu, vorum hrædd um að þau myndu eitthvað skemma. Þarna gátum við reynt að melta það sem var búið að gerast og á þessum tíma gátu börnin okkar ekki komist í leikskóla. Það var ansi krefjandi að hafa ofan af fyrir þeim. Ósk er að verða fimm ára og Nói að verða tveggja ára. Hann var bara búinn að vera í leikskóla í fjórar vikur, var rétt búinn með aðlögunina. Sem betur fer var mér sýndur mikill skilningur hjá vinnuveitanda mínum hjá HS orku, ég fékk frí þessa fyrstu daga en þetta var oft skrautlegt, ég með annað barnið á meðan Gerður þurfti að sinna hinu kannski grenjandi, samt í símanum að sinna sínum skjólstæðingum, þetta var svakalegt!,“ segir Matthías.

Eftir tvær vikur í Garðabænum stóð til að fjölskyldan færi í íbúð á þriðju hæð í blokk. Það var ekki þvottavél þar og þau með tvö ung börn og ljóst að það hefði verið erfitt en sem betur fer bauðst þeim íbúð foreldra vina sinna sem voru á leiðinni út. Matthías fékk aftur nett kvíðakast. „Aftur vorum við komin í glæsilegt húsnæði með dýrum innanstokksmunum, m.a. rándýrt málverk og við gátum sem betur fer komið flestum dýrustu mununum inn í eitt herbergið og læst þar inni. Það var furðulegt að þurfa vera hafa áhyggjur af svona hlutum ofan á allt saman. Við vorum þarna með okkar fjölskyldu en þurftum að passa allt því þetta var ekki okkar heimili. Allt fór þetta nú samt vel og við komumst svo inn í íbúð um miðjan desember sem pabbi minn á og verðum í íbúðinni fram í mars.“

Ósk og Nói eru samrýnd systkini.

Sakna hússins

Við eldgosið 14. janúar og hörmulega slysið nokkrum dögum fyrr, þegar maður féll í sprungu og fannst ekki, var ljóst að glænýr veruleiki blasti við Grindvíkingum og þá kannski sérstaklega barnafólki eins og Matthíasi og Gerði. Þau geta ekki hugsað sér að flytja í bráð til Grindavíkur. Sprunga liggur í gegnum garðinn og fer undir húsið þeirra og þau vita ekki hvað verður með húsið sem þau hafa verið að gera að sínu undanfarin ár.

„Eftir þennan hörmungaratburð og svo eldgosið, er okkur ljóst að við getum ekki flutt aftur heim í bráð. Það er ekkert vit í því og við vitum ekkert hvað þetta muni taka langan tíma. Þetta er okkur mjög þungbært, við elskum húsið okkar, staðsetningin var fullkomin, rétt hjá leikskólanum Króki og svo hefði Ósk dóttir okkar bara verið nokkrar mínútur að labba í Hóps-skóla, stutt fyrir mig að keyra til vinnu og Gerður gat labbað í sína vinnu. Við höfum verið að taka húsið í gegn hægt og rólega og vorum í raun búin að ljúka framkvæmdum þegar við þurftum að yfirgefa húsið korteri seinna. Það er rétt hjá þar sem maðurinn féll ofan í sprunguna og það liggur sprunga undir hluta af húsinu okkar. Við eigum eftir að fá úr því skorið hvort húsið sé dæmt ónýtt eða hvað, þetta er bara ömurleg staða að vera í,“ segir Matthías.

Fallega húsið fyrir hamfarirnar. Myndirnar að neðan sýna hvernig sprunga liggur undir húsið.

„Pabbi, pabbi!“

Matthías, sem er frá Dalvík, og Gerður, sem er frá Vopnafirði, kynntust í menntaskóla á Akureyri. Matthías spilaði knattspyrnu, rann út á samningi hjá Þór Akureyri og gekk þá til liðs við Grindavík. Parið tók strax ástfóstri við bæinn og eftir flottan feril með Grindavík í efstu deild, lagði Matthías knattspyrnuskónum og byrjaði að kasta pílu. Ekki leið á löngu þar til hann var búinn að skipa sér á stall með bestu pílukösturum landsins en hann hefur alls þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari.

Sem dæmi um breytta hagi hjá parinu, þá hitti blaðamaður þau í barnaafmæli í Reykjavík nokkrum vikum eftir fyrri rýminguna. Þá um kvöldið var stórt mót í pílukasti í Reykjavík og eðlilega var Matthías spurður hvort hann væri ekki að fara taka þátt í mótinu. Þrútinn og þreyttur svaraði Matthías með stóískri ró, að nei, það hefði ekki gefist neinn tími til að æfa pílu og allur hans tími færi í að hafa ofan af fyrir börnunum sínum. Í þeim töluðu orðum kom eldra barnið, Ósk, og greip í jakka pabba síns og kallaði háum, skærum rómi; „pabbi, pabbi!“ Blaðamaður gat ekki annað en glott við tönn við að sjá viðbrögð hins dasaða Matta en að sjálfsögðu sinnti hann barni sínu með yfirvegun, eins og hans var von og vísa.

Innri-Njarðvík í eitt ár

Fjölskyldan mun von bráðar flytja í Innri-Njarðvík en hvernig sér Gerður framtíð fjölskyldunnar fyrir sér?

„Við erum búin að leigja hús í eitt ár í Seljudal í Innri-Njarðvík og flytjum þangað 1. mars. Þetta er passleg stærð fyrir okkur, núverandi húsnæði er of lítið, við sofum með bæði börnin okkar á milli í 160 sentimetra breiðu rúmi og það gefur auga leið að maður nær ekki alltaf góðum nætursvefni þannig. Í nýja húsinu fá börnin sín herbergi, það er bílskúr og það verður gott að koma sér fyrir og geta spáð í rólegheitum næsta árið hvað við viljum gera. Langflestir í Grindavík búa í einbýlis- eða parhúsum, á bara að hrúga öllum í blokkir? Grindvíkingar munu illa sætta sig við það til lengri tíma er ég hrædd um svo við erum mjög ánægð með að hafa tryggt okkur þetta húsnæði í eitt ár. Reyndar fáum við ekki leikskólapláss strax svo við þurfum að keyra börnin í safnleikskólann, sem er núna í Grafarvogi. Það er búið að segja okkur að hann færist í Hafnarfjörð einhvern tíma í febrúar en í sjálfu sér höfum við litlar upplýsingar um það þar sem þetta er allt frekar óljóst ennþá og lítil upplýsingaveita til foreldra að okkur finnst. Það verður strax mikill munur fyrir okkur þegar safnleikskólinn flyst í Hafnarfjörð. Við eigum eftir að finna út úr hvernig við skiptum keyrslunni á milli okkar, ég vinn á vöktum svo suma daga er ég í vaktafríi og get þá farið. Ég er í vinnu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og mæti á sjúkrahúsið í Keflavík í staðinn fyrir að mæta í Grindavík. Ég er teymisstjóri heimahjúkrunar og held því áfram, er mest með nýja skjólstæðinga og þarf að notast við GPS til að rata um Reykjanesbæ. Gaman að bæta þessu öllu ofan á allt annað. Matti er innkaupastjóri hjá HS Orku, var að vinna í Svartsengi en fyrirtækið gat opnað skrifstofur í Kópavog. Hversu lengi þeir verða þar vitum við ekki. Matti gæti í raun labbað héðan í vinnuna en hann þarf að koma börnunum í safnleikskólann uppi í Grafarvogi, svo þetta hefur ekki verið neitt einfalt hjá okkur, ekki frekar en öðrum Grindvíkingum geri ég ráð fyrir.“

Komast ekki að leiði dóttur sinnar

Hvað varðar framtíðina vill fjölskyldan flytja aftur til Grindavíkur, þ.e.a.s. þegar allt er komið í öruggt og eðlilegt horf. Ef ríkið ætlar að kaupa fasteignir af Grindvíkingum, myndu þau líklega taka því, ef þau væru með forkaupsrétt á húsinu. Þó svo að þau séu að norðan, hefur hugurinn ekki leitað þangað, aðallega vegna vinnu Matta sem hann er mjög ánægður í.

„Það er ekki gott að taka stórar ákvarðanir í miðju áfalli, við ætlum að flýta okkur hægt og erum mjög ánægð með að sjá næsta ár fyrir okkur eins og við erum búin að teikna það upp. Það er víst lítið annað sem við getum gert nema beðið og vonað það besta. Svo er auðvitað eitt stórt mál sem skiptir okkur mjög miklu máli, við misstum fyrsta barnið okkar, Líf hefði orðið sex ára gömul 26. janúar en hún hvílir í kirkjugarðinum úti á Stað í Grindavík. Við gátum ekki farið að leiðinu hennar á afmælinu hennar eins og við erum vön og það var auðvitað erfitt en við virðum ákvarðanir yfirvalda varðandi aðgengi í Grindavík. En að flytja í burtu frá Grindavík, frá Líf, er erfið tilhugsun svo okkar hugur stendur alfarið til þess að flytja aftur heim en við verðum bara að bíða og sjá hvernig hlutirnir munu þróast,“ sagði Gerður Rún að lokum.