Flugger
Flugger

Mannlíf

Ég elska bara að spila
VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 8. júní 2024 kl. 06:11

Ég elska bara að spila

Sextán ára píanósnillingur úr Reykjanesbæ hefur fengið tækifæri sem fáum býðst

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hinn sextán ára gamli Jakob Piotr Grybos vakið verðskuldaða athygli fyrir færni sína á tónlistarsviðinu en Jakob hefur lært á píanó frá því að hann var níu ára gamall. Hann stefnir á lokapróf í píanóleik á næsta ári og ætlar verja sumrinu í æfingar auk þess að sækja Master Class á Spáni.

Við hittum Jakob í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en þar má nánast ganga að honum vísum við æfingar. Fyrsta spurning er hvernig hafi staðið á því að hann byrjaði í tónlistarnámi?

„Ég byrjaði af því að bróðir minn var að læra á gítar. Mamma og pabbi vildu að ég byrjaði líka á gítar en einhverra hluta vegna valdi ég píanó, veit ekki alveg af hverju. Ég var níu ára þá,“ segir Jakob sem byrjaði að læra í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Jakob er sextán ára í dag og hefur náð ótrúlegum árangri eftir einungis sjö ára tónlistarnám.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég ætla að taka framhaldspróf á næsta ári í Menntaskóla í tónlist (MÍT), þannig að ég er að hætta hérna [í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar].“ Hann segir að hvorki mamma hans né pabbi séu tónlistarfólk en þeir bræður eru báðir helteknir af tónlistinni. Eldri bróðir Jakobs er Alexander Grybos og hann lauk sínu framhaldsprófi á gítar nú í vor.

Af hverju þar en ekki hér?

„Ég er búinn að vera í MÍT frá því í áttunda bekk,“ segir Jakob og bætir við að hann sé þá í menntaskóla í bænum samhliða tónlistarnáminu. „Það hentar mér betur.“

 Frá lokatónleikum Jakobs í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem fóru fram í Bergi nú í vor.

Nú ætlar þú að taka lokaprófið frá MÍT á næsta ári, hvað ætlarðu að gera eftir það?

„Klára menntaskóla og fara síðan út í frekara píanónám. Draumurinn er að fara til New York en Evrópa kemur líka vel til greina, kannski Holland eða Kraká í Póllandi. Besti skólinn í Póllandi til píanónáms er í Kraká og ég kann auðvitað tungumálið svo það myndi auðvelda mér ýmislegt, kannski er best fyrir mig að vera í Póllandi,“ segir Jakob sem á ættir að rekja til Póllands, foreldrar hans eru bæði pólsk en þau kynntust á Íslandi og bræðurnir eru báðir fæddir og uppaldir hér.

Voru það foreldrar ykkar sem vildu að þið færuð í tónlistarnám?

„Ég held að bróðir minn hafi langað að fara að læra á gítar og svo vildu mamma og pabbi að ég færi líka í tónlist.

Ekkert annað kemst að

Jakob hefur tekið þátt í fjölmörgum tónlistarverkefnum og var til að mynda einleikari í verkinu Rhapsody in Blue eftir Georg  Gershwin þegar Lúðrasveit verkalýðsins setti það á svið í Stapa og Hörpu nú í vor. Einleikshlutverk píanóleikarans er mjög krefjandi og viðamikið eins og venja er með einleikskonserta og ber verkið uppi, þá lék hann einnig á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands fyrir síðustu jól en þessar tvær framkomur hans segja meira en mörg orð um hæfni hans sem píanóleikara. Jakob einskorðar sig þó ekki við einleiksverk með stórum hljómsveitum, en hann er líka í hljómsveitinni Demo ásamt bróður sínum og þar að auki hefur Jakob verið meðlimur í bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undanfarin ár en er nýhættur í kórnum til að einbeita sér að píanóinu.

„Já, ég elska bara að spila og stefni á að spila sem mest,“ segir Jakob og getur ekki varist brosi. „Mér finnst svo gaman að spila alls konar tónlist og á alls konar viðburðum. Ég spila líka mjög oft á viðburðum í pólska sendiráðinu og hélt t.d. jólatónleika þar í janúar þar sem ég útsetti og spilaði pólsk jólalög fyrir píanó. Það var líka mjög skemmtilegt.“

Jakob að leika einleikskonsert úr Rhapsody in Blue með Lúðrasveit verkalýðsins.

Nú hefur þú verið að spila allt frá einleiksverkum með Sinfóníunni og Lúðrasveit Verkalýðsins yfir í popptónlist með Demo. Þetta er ansi vítt svið sem þú ert að fara yfir, er ekkert eitt svið sem þú ætlar að sérhæfa þig í?

„Ég er sérhæfður í klassískri tónlist en ég get spilað hvað sem er. Mér finnst gaman að spila hvað sem er. Stundum spila ég djass með bróður mínum – ekki vel,“ segir hann og skellir upp úr. „En ég hef gaman að því.“

Áttu einhver önnur áhugamál eða er tónlistin bara það sem lífið þitt snýst um?

„Tónlist. Það er ekkert annað sem kemst að.“

Engin kærasta í spilinu?

„Nei, ég er einn – sólóisti,“ sagði Jakob brosandi og sneri sér aftur að æfingunum.


Í spilaranum hér að neðan má sjá brot af lokatónleikum Jakobs í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar nú í vor og einnig hluta af einleikskonsert hans í verkinu Rhapsody in Blue með Lúðrasveit verkalýðsins.