Flugger
Flugger

Mannlíf

„Amma sagði að kannski yrði ég einn daginn alvöru prestur“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 13. apríl 2024 kl. 06:07

„Amma sagði að kannski yrði ég einn daginn alvöru prestur“

Gummi Kalli vill verða biskup Íslands

Guðmundur Karl Brynjarsson sækist eftir kjöri til embættis biskups Íslands en biskupskjör hefst 11. apríl og því lýkur 16. apríl.  Gummi Kalli er Keflvíkingur og ólst upp í Holtunum í Keflavík. Hann hlustaði á pönktónlist, féll ítrekað á mætingu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og segir í samtali við Víkurfréttir að um tíma hafi hann verið afhuga kristinni trú. Á tvítugsafmælinu kom blað frá KFUM&K í Keflavík inn um lúguna á heimili hans. Gummi Kalli tók blaðið og grínaðist með innihald þess. Eitthvað hefur þó verið grunnt á gríninu því tæpu ári síðar var hann kominn á kaf í starf KFUM&K og orðinn leiðtogi í starfinu í Keflavík. Eftir námið í FS fór Gummi Kalli í biblíuskóla í Noregi í eitt ár. Þaðan var stefnan tekin á guðfræðinám í Háskóla Íslands. Eftir að hafa þjónað sem skólaprestur leysti hann af í Vestmannaeyjum, fékk sitt fyrsta brauð á Skagaströnd og hefur nú í rúma tvo áratugi verið sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi. Víkurfréttir hittu Gumma Kalla í Keflavík um liðna helgi. Einnig verður rætt við hann í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta síðar í vikunni og ítarlegra viðtal verður í þættinum Suður með sjó sem verður aðgengilegur á vf.is á föstudag, sem og á hlaðvarpsveitum.

Þekktur sem Gummi Kalli

Flest þekkja Guðmund Karl sem Gumma Kalla. Hann játar því og segir að fermingarbörnin hans í Lindakirkju kalli hann aldrei annað en Gumma Kalla. Það hefur verið þéttskipuð dagskrá hjá honum síðustu daga og vikur. Hann hefur farið víða um land til að kynna sig og hvað hann stendur fyrir í framboði sínu til biskups. Útsendarar Víkurfrétta hittu hann um nýliðna helgi í Keflavík, áður en Gummi Kalli hélt upp í enn eina kynningarferðina vestur á firði og á Snæfellsnesið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Viðtalið við Gumma Kalla var varla hafið þegar farþegaflugvél af stærstu gerð tók á loft frá Keflavíkurflugvelli og þotugnýr fékk alla athygli á vettvangi viðtalsins undir suðurgafli Keflavíkurkirkju.

„Flugvélahljóðin tilheyrðu alltaf í barnæskunni sem maður hætti svo alveg að taka eftir. Ég man eftir því þegar ég var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og það voru heræfingar. Sirrý Geirs var að kenna okkur ensku og það heyrðist ekki mannsins mál. Hún stoppaði bara því það voru þessar rosalegu drunur í loftinu. Hún horfði út um gluggann með dreymandi augnaráði og sagði; Þeir eru alltaf að æfa sig blessaðir“.

Æskuminningarnar ekki alltaf sól og sunna

Fyrir okkur sem alin eru upp í bítla- og herbænum var ósköp eðlilegt fyrir börn og aðra íbúa að herinn væri hérna.

„Það var ósköp eðlilegur samgangur við þetta fólk og okkur þótti ekkert að þessu. Bandaríkjamenn leigðu hérna niðri í bæ og þarna voru krakkar sem maður kynntist.“

Gummi Kalli segir alltaf bjart yfir endurminningum sínum sem barn í Keflavík. En með æskuminningar allra, þá er ekki alltaf sól og sunna. „Ég átti tímabil þegar ég var sjö til átta ára og þá var verið að taka mig fyrir og það var bara útaf útlitseinkennum. Ég er með styttri háls en gerist og gengur og fékk alveg að heyra það. Ætli það hafi ekki eitthvað að gera með það hvernig ég er gerður að ég tók þau máli í eigin hendur. Á tímabili var ég alltaf að slást. Ég var umkringdur góðum vinum á alla kanta. Þetta útlitseinkenni og það að ég var feitur sem krakki hefur bara verið til hliðar við mína sjálfsmynd.“

Þetta situr ekki í þér?

„Nei og ég hef aldrei séð mig þannig í spegli.“

Í dag myndi þetta kallast einelti.

„Já, að sjálfsögðu og þetta var það. Þetta var reynsla sem mótaði mig með þeim hætti að ég hef alltaf átt erfitt með þegar fólk er sett niður og til hliðar. Ég átti mína kafla á unglingsaldri þar sem ég var mjög neikvæður út í lífið og tilveruna. Þá varð ýmist fólk fyrir barðinu á því.“

Hvers vegna varstu neikvæður?

„Ég fékk mjög gott uppeldi. Mínir áhrifavaldar eru foreldrar mínir og systur og ekki síst amma mín og afi, Vilmundur Rögnvaldsson og Lára Guðmundsdóttir. Fyrstu sex uppvaxtarárin áttum við heima við hliðina á ömmu og afa. Þangað sótti ég mikið. Mér voru kenndar allar þessar helstu bænir og amma kenndi mér trúarjátninguna þegar ég var fjögurra eða fimm ára.  Píndur á dögum Pontíusar Pílatusar og allt það. Sem barn var djúpt á trúarstrenginn í mér. Ég tók þessu ekki sem þetta skipti einhverju máli. Þegar ég kemst á unglingsárin fer ég á mótþróaskeið. Þetta er á þeim tíma sem íslenska pönkið er að ryðja sér til rúms. Maður hlustaði á allskonar anarkistabönd frá Bretlandi, þar sem var mikill frumkraftur og sprengikraftur, sem var jákvætt að mörgu leyti en það var samt mínus fyrir framan svo margt í heiminum. Það var þannig sem maður fór að sjá svo margt í kringum sig. Ég hlustaði á breskt band sem hét Crash og þar var allt svo neikvætt gagnvart kristinni trú. Ég tók það svolítið inn og þoldi ekki Jesú. En svo er það svo ótrúlegt hvernig Guð vinnur. Ég man eftir að á tvítugsafmæli mínu var ég með krakka heima í boði og það kemur blað inn um lúguna frá KFUM&K í Keflavík. Ég tók blaðið úr lúgunni og byrjaði að taka eitthvað „stand-up“ á þetta og gera stólpagrín að því sem stóð þarna. Ekki ári síðar sé ég lífið öðrum augum og var orðinn mjög virkur í félagsskap KFUM&K og í raun treyst fyrir leiðtogahlutverki þar. Ég sé þetta sem langtíma vegferð en fólki í kringum mig fannst eins og ég hefði bilast. Útávið urðu þetta snögg umskipti. Þetta var búið að eiga langa vegferð. Ég fann það að ég var ekkert að ráða við neysluna. Ég drakk mikið og fiktaði í ýmsu öðru líka. Ég fann það að það var ekkert að ganga upp hjá mér.

Eygló Geirdal, sú ágæta kona, var í heimsókn hjá mömmu einn morguninn. Við bjuggum á móti þeim í Baugholtinu. Ég heyri hana segja að hún sé enginn kirkjukona en á hverju kvöldi þakki hún Guði fyrir manninn sinn og börnin sín og fari yfir það sem þurfi að þakka fyrir. Ég hugsaði að þetta væri fallegt og ég ætti að byrja á þessu. Ég ákvað að gera þetta og þetta þakklætis hugarfar breytti hjarta mínu og sýninni á lífið. Smám saman var gardínan dregin frá þessum Jesú og eftir að ég kynntist honum byrjaði ég að sjá lífið í litum og þrívídd.“

„Þú verður að ganga menntaveginn“

Aðspurður um námsárin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja segir Gummi Kalli að þau hafi aðallega farið í einhvern leik og hann hafi oft fallið á mætingu. Hann rifjar upp að móðir hans hafi komið með kassa til hans með gömlum gögnum frá þessum árum og þar hafi verið einkunnaspjald sem sýndi tólf eða fjórtán einingar í mínus fyrir lélega mætingu. Þar hafi heil önn farið í vaskinn. Hann segir að það hafi verið fast í foreldrum hans og það hafi fylgt honum frá barnsaldri að læknir hafi sagt að Gummi Kalli mætti ekki vinna erfiðisvinnu. „Þú verður að ganga menntaveginn,“ var sagt. Gummi Kalli segir að foreldrarnir hafi lagt hart að honum að halda áfram í námi og þegar ljósið hafi kviknað var fjölbraut kláruð á stuttum tíma. Hann hafi útskrifast um jólin 1988 og þá átt nokkra mánuði í að verða 23 ára. „Þá var stefnan tekin til Noregs þar sem ég var eitt ár í biblíuskóla í Osló en tíminn í FS var alveg geggjaður og ég sé ekki eftir honum, þó svo ég vilji ekki endurtaka margt af því sem ég gerði.“

Hjálmar Árnason Herra Hnetusmjör síns tíma

Gummi Kalli segist líta á unglingsárin sem áhugaverðan tíma. Þegar hann var í Gagnfræðaskóla Keflavíkur, sem heitir Holtaskóli í dag, hafi Hjálmar Árnason komið þangað að kenna. Hjálmar var með vinsæla unglingaþætti í útvarpi ásamt Guðmundi Árna Stefánssyni og Gummi Kalli segir að þetta hafi verið fyrir unglinga þá eins og að fá Herra Hnetusmjör til að kenna sér. „Maður fékk alveg stjörnur í augum.“ Gummi Kalli segir að Hjálmar hafi séð út nemendur sem voru ritfærir og Hjálmar í félagi við Ingvar Guðmundsson enskukennara hafi tekið að sér að sjá um skólablaðið Stakk. Þeir vildu kalla til ungmenni sem þeir héldu að gæti haldið utan um blaðið. Gummi Kalli rifjar upp að þarna hafi verið Jón Ben, Einar Falur Ingólfsson, Atli Einarsson heitinn, Kristinn Þór Pálsson, Garðar Vilhjálmsson og Ragnar Sævarsson í ritnefndinni. „Við fengum ritstjórnarskrifstofu og allt í einu varð Stakkur stórveldi. Það var blað mánaðarlega fyrsta veturinn og það var aldrei undir 32 síðum. Við söfnuðum auglýsingum og það voru myljandi tekjur. Seinna árið sem við vorum í útgáfunni keyptum við í félagi við skólann nýja ljósritunarvél. Stakkur var ljósritaður uppi á kennarastofu. Þar gengum við hring eftir hring um borðið og röðuðum blaðinu saman. Þetta var ótrúlega mótandi tími og skemmtilegur. Þarna fengum við traust“.

Purrkur Pillnikk með mesta hlustun í spilaranum

Eftir árin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja segist Gummi Kalli hafa verið orðinn mjög trúaður og hann hafi viljað fræðast meira um trúna. Því hafi hann ákveðið að fara í biblíuskólann í Osló, þar sem hann hafi verið í eitt ár. Hann hafi fyrst ætlað að fara á venjulega biblíulínu en þegar út var komið hafi hann áttað sig á því að einnig var í boði tónlistarlína. Þar hafi hann fengið tilsögn á gítar. Í bekknum hans var einnig starfandi kór og hann segir að hann hafi eflt tónlistarþáttinn í sér. Gummi Kalli var í nokkrum hljómsveitum í gamla daga, pönki og einnig ballhljómsveitum. „Það þroskaði tóneyrað að syngja í kór alla daga. Síðan þá hef ég verið mikið að semja allskonar tónlist og það hefðu kannski fáir trúað því að ég á fjögur sálmalög í nýju sálmabókinni, ný lög við gamla sálma. Í dag er ég alæta á tónlist,“ segir Gummi Kalli.

Hlustar þú ennþá á pönk?

„Já, já. Ég komst að því um daginn þegar ég fékk yfirlit um spilun mína síðasta árs að númer eitt hjá mér var Purrkur Pillnikk. Ég held að almennt sé það að tónlistin sem þú hlustar á á unglingsárunum fylgir þér alltaf.“

Fann fyrir köllun að fara í kristniboð til Afríku

Gummi Kalli segist hafa fundið fyrir köllun að fara sem kristniboði til Afríku sem ungur maður. Það hafi m.a. verið ástæða þess að hann fór í biblíuskólann í Osló, sem rekinn er af norska kristniboðssambandinu. Hann segir þó að köllunin hafi ekki verið það skýr eftir árið í Noregi að hann ákvað að fara til Íslands og skrá sig í guðfræðideildina við Háskóla Íslands. Þá hefði hann möguleika á að starfa innan kirkjunnar hér og einnig að fara út sem kristniboði.

„Þegar ég er á fyrsta vetrinum í guðfræðideildinni kynnist ég konunni minni, henni Kamillu Hildi Gísladóttur. Hún er fædd í Eþíópíu en foreldrar hennar voru þar kristniboðar í samanlagt tíu ár í Konso. Hún er yngst af sex systkinum og öll systkini hennar hafa farið út sem kristniboðar en okkar leið lá annað eftir að hún giftist Þjóðkirkjupresti,“ segir Gummi Kalli og hlær.

Gummi Kalli og Kamilla Hildur eiga þrjú börn sem eru frá tvítugu og upp í tuttugu og átta ára. Þá eru þau orðin tvöföld afi og amma, það eru komnar tvær litlar stelpur.

Fékk köllunarbréf að gerast skólaprestur

Þegar Gummi Kalli var að klára guðfræðinámið fékk hann bréf frá Kristilegu skólahreyfingunni sem er með kristilegt starf fyrir krakka á framhaldsskólaaldri. Köllunarbréfið hljóðaði upp á að verða skólaprestur á þeirra vegum. „Ég tók þeirri köllun og er vígður sem skólaprestur. Það er gaman að segja frá því að á vígsludaginn klappaði amma á öxlina á mér og óskaði til hamingju og sagði að kannski yrði ég einn daginn alvöru prestur,“ segir Gummi Kalli kíminn.

Þegar hann sinnti skólapreststarfinu bauðst honum að leysa af þau séra Bjarna Karlsson og séra Jónu Hrönn Bolladóttur, sem þjónuðu þá í Vestmannaeyjum. Hann segir að þá hafi opnast ný vídd, að þjóna í venjulegum söfnuði. Hann segir að það hafi verið frábært að starfa fyrir skólahreyfinguna og KFUM&K, sem hann hafi haft mikið með að gera. Hann segir þó að hann hafi verið farinn að horfa á hlutverk skólaprestsins sem verndaðan vinnustað og hann hafi viljað prófa sig með venjulegu fólki í venjulegu samfélagi og hvort hann myndi ekki fúnkera þar líka.

„Ég má samt til með að nefna eina stóra uppeldisstöð fyrir mig sem var Vatnaskógur en þar var ég starfandi í fimm sumur. Það er ofboðslega gaman að hitta orðið miðaldra menn sem eru að rifja upp hað hafa verið hjá mér í Vatnaskógi,“ segir Gummi Kalli.

Sterkar taugar til Skagastrandar

Gummi Kalli var vígður sem skólaprestur í febrúar 1996 og var orðinn sóknarprestur á Skagaströnd 1998. Árið 2000 var hann kominn í Hjallakirkju en sækir svo um Lindakirkju árið 2002, sem er nýr söfnuður. Þar hefur hann verið síðan. „Árin á Skagaströnd voru okkur mikilvæg og Skagaströnd er staður sem ég ber sérstakar taugar til. Þarna var maður fljótur að kynnast fólki en samt, þó ég væri búinn að vera þar í þrjú ár var maður ennþá að átta sig á tengslum fólks. En samfélagið var ljúft og það var gott að búa þar.“

Gummi Kalli hefur verið sóknarprestur í Lindasókn frá 2002. Þegar hann sótti um brauðið var ekkert starf þar fyrir, söfnuðurinn nýr, og hann segir að það hafi verið spennandi að gera mótað starf þar sem enginn var fyrir og gæti sagt, við höfum alltaf haft þetta svona og svona.

Hugleiddi biskupskjör ekki neitt

Hvað kemur til að þú hefur áhuga á að verða biskup Íslands?

„Ég er alveg að segja satt. Ég hugleiddi þetta ekki neitt. Þetta kom fyrir hvatningu allskonar fólks og sérstaklega síðasta árið. Síðasta sumar var vígslubiskupskjör og mjög óvænt og án þess að ég sæktist eftir því eða neitt, þá var nafn mitt ofarlega á blaði. Ég hef verið að heyra í kollegum undanfarið að köllunin hafi vaxið frekar en hitt og ég tók þessa ákvörðun. Sem sóknarprestur í Lindakirkju þá hefur starfið þar verið sterkt og öflugt þar og frábært fólk í kringum mig. Við erum þrjú prestar þarna og sem sóknarprestur hef ég reynt að hafa augun opin fyrir hæfileikafólki sem vill gera vel fyrir kirkjuna. Við erum með eyrun opin fyrir frumlegum og skemmtilegum hugmyndum. Við látum bara vaða og sumt hefur virkað og annað ekki. Fyrir vikið fær fólk að blómstra í sínum hæfileikum án þess að ég hafi áhyggjur af því að einhver skyggi á mig og mér finnst gaman að sjá starfið blómstra í kringum mig. Þannig myndi ég hugsa að ég myndi starfa sem biskup líka. Að virkja mannauðinn ennþá betur því það er svo margt sem býr í vígðum þjónum kirkjunnar og fólki í söfnuðunum sem þykir vænt um kirkjuna sína. Því miður hefur umræðan um Þjóðkirkjuna oft verið á neikvæðum nótum og þannig eru nú fréttir yfirleitt.“

Hvernig finnst þér staða Þjóðkirkjunnar vera í dag?

„Hún er sterk hjá fólkinu sem leitar til okkar. Það er fjöldi fólks sem treystir okkur fyrir börnunum sínum í barnastafinu og treystir okkur fyrir sínum dýpstu tilfinningum á erfiðum stundum lífsins og gleðistundum líka. Það er fólkið sem finnur og skynjar kirkjuna á mjög jákvæðan hátt en svo fáum við allt aðra mynd í fréttaflutningi. Það sem mig langar til að gera er að miðla réttri ásýnd kirkjunnar og við við sýnum okkar rétta andlit.“

Þurfið þið að bæta ykkur í upplýsingagjöf?

„Já, og við þurfum ekki að bíða eftir því. Eins og þið eruð með ykkar fjölmiðil þá er þetta frekar einfalt. Ég hef sagt að eini staðurinn þar sem við öll erum á er í símanum. Þar erum við að miðla upplýsingum og þar eru hinir hefðbundnu fjölmiðlar sem við erum alin upp við. Það er bara eitt dagblað eftir á prenti. Það er orðið eins og villta vestrið hvernig þú miðlar upplýsingum. Þetta er andrúm sem kirkjan á að stíga inn í og taka sér sitt dagskrárvald og miðla sinni ásýnd til fólks og ekkert að bíða eftir því að þessir hefðbundnu fjölmiðlar nenni að tala við okkur. Þetta þarf ekki að kosta mikið. Ef við miðlum rétta efninu þá erum við alveg að ná augum og eyrum. Við eigum að fara á torgið í símanum okkar og ná fólki út úr þessari stafrænu eyðimörk og inn í lifandi samfélag.“

Stórkostlegt tækifæri

Gummi Kalli segir að með því að hafa farið fram í biskupskjöri hafi hann fengið stórkostlegt tækifæri upp í hendurnar. Góður vinur hafi sagt honum að gleyma ekki því verkefni að vera hann sjálfur og hafa gaman af þessu. „Ég er þakklátur og auðmjúkur fyrir þetta en ég er einarður og ofboðslega ákveðinn í að hafa gaman af þessu og hvernig sem allt fer þá er ég alveg viss um að ég lendi standandi.“

Nýtti ferðina til að gifta

Gummi Kalli nýtti ferðina til Reykjanesbæjar og gerði meira en að hitta Víkurfréttamenn. Eftir viðtalið fór hann á fund hjónaleysanna Fjólu Ósk Stefánsdóttur og Júlíusar Margeirs Steinþórssonar í Keflavík. Júlli og Gummi eru gamlir vinir og sá fyrrnefndi var búinn að nefna við hann fyrir nokkru síðan að gefa þau Fjólu saman næst þegar hann ætti ferð til Keflavíkur. Svo þegar leið Gumma lá suður með sjó var tilvalið að nýta ferðina og hann heyrði í Júlla sem var búinn að ganga frá öllum málum til að athöfn gæti farið fram. Hann fór á heimili þeirra hjónaleysa sem hafa verið saman mjög lengi en aldrei náð að altarinu. Það var því tilvalið að fá Gumma sem gaf þau saman í látlausri athöfn á heimili þeirra í Keflavík. Svo skemmtilega vildi til að þetta hitti á afmælisdag Steinþórs heitins, föður Júlíusar.

Gummi Kalli er m.a. alinn upp í Holtunum í Keflavík. Í bakgarðinum var spennandi leiksvæði og sparkvöllur. Göturnar voru ómalbikaðar og börnin voru úti að leika alla daga fram á kvöld.