Flugger
Flugger

Íþróttir

Rúnar Ingi og Einar Árni þjálfa Njarðvíkinga á næstu leiktíð
Mynd/JBÓ – Rúnar Ingi, Halldór Karlsson formaður KKD UMFN og Einar Árni Jóhannsson.
Fimmtudagur 23. maí 2024 kl. 18:29

Rúnar Ingi og Einar Árni þjálfa Njarðvíkinga á næstu leiktíð

Einar Árni Jóhannsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna í Njarðvík og tekur hann við keflinu af Rúnari Inga Erlingssyni. Rúnar sem stýrði Njarðvíkingum að silfurverðlaunum í Subway-deild kvenna hefur tekur svo við karlaliði Njarðvíkur af Benedikti Guðmundssyni.

„Stjórn Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vill þakka Benna fyrir samstarfið síðustu tímabil en hann gerði liðið m.a. að bikarmeisturum og deildarmeisturum og fór með liðið í undanúrslit Subway-deildarinnar síðustu þrjú tímabil. Að sama skapi er Daníel Guðni aðstoðarþjálfari að stíga frá borði og vill stjórn þakka honum fyrir gott samstarf,“ segir á vef Ungmennafélagsins Njarðvíkur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við erum mjög spennt fyrir áframhaldandi samstarfi við Rúnar Inga og bindum miklar vonir við hann með stjórnartaumana hjá karlaliði félagsins. Rúnar hefur síðustu tímabil gert mjög vel með kvennaliðið og landaði þar m.a. Íslandsmeistaratitli, öðrum kvennatitlinum í sögu félagisns. Einar þekkjum við vel og fögnum því ákaft að fá hann aftur til liðs við félagið. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann tekur við kvennaliðinu okkar en bæði Einar og Rúnar munu einnig halda þétt utan um taumana hjá elstu yngri flokkum félagsins,” sagði Halldór Karlsson formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.

„Fyrst og fremst er ég glaður að halda áfram að vinna fyrir mitt félag og gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að Njarðvík sé að berjast um alla þá titla sem eru í boði. Það eru spennandi tímar framundan fyrir Njarðvík bæði karla og kvennamegin og það er spennandi fyrir mig að takast á við nýjar áskoranir með strákunum eftir góð ár undir stjórn Benna og Danna,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson við UMFN.is

„Ég er fullur tilhlökkunar að koma heim og fara að vinna með stelpunum og fólkinu öllu í Njarðvík. Stelpurnar stóðu sig vel undir stjórn Rúnars Inga í vetur og það er spennandi verkefni að byggja ofan á það. Það er mikið af efnilegum stelpum í Njarðvík, og sumar þeirra þegar farnar að banka á dyrnar í meistaraflokknum. Það er líka mikil tilhlökkun að fara inn í nýtt tímabil á nýjum heimavelli þar sem mun fara töluvert betur um okkar öfluga stuðningsfólk og þar stefnum við á að mynda góða stemmingu með báðum liðunum okkar í baráttunni í Subway deildunum,” sagði Einar Árni við UMFN.is

Einar mun einnig starfa við yngri flokka Njarðvíkur á komandi leiktíð en hann var áður yfirþjálfari hjá félaginu en eins og mörgum er kunnugt er hann að koma úr starfi frá Hetti á Egilsstöðum þar sem hann vann með hópi sem hefur fjölgað iðkendum gríðarlega austur á Héraði og lyft grettistaki hjá Hetti síðustu ár.