Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Grétar nálgast toppinn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 12. janúar 2024 kl. 06:14

Grétar nálgast toppinn

Markamaskínan Grétar Ólafur Hjartarson heldur áfram að setj’ann, núna í tippleik Víkurfrétta en hann hafði betur gegn öðrum markaskorara, Magnúsi Þorsteinssyni frá Keflavík, 12-9. Grétar er jafn heitur fyrir framan tippseðilinn og hann var fyrir framan markið á sínum tíma og er kominn í annað sætið í heildarkeppninni, með samtals 29 rétta en Njarðvíkingurinn Hámundur Örn Helgason er efstur með 34. Þess ber þó að geta að Hámundur tók fjórum sinnum þátt á meðan Grétar hefur bara verið þrisvar sinnum og hefur tryggt sér fjórða skiptið hið minnsta og þarf bara sex leiki rétta til að taka toppsætið. Það ætti ekki að vera flókið mál fyrir markaskorarann, hann er með 9,67 að meðaltali úr þremur umferðum!

Það var lítið um óvænt úrslit og þess vegna fékk Grétar ekki nema 440 krónur fyrir afrek sitt, hann var einn af rúmum 56 þúsund tippurum sem náði tólf réttum. Tæplega fjögur þúsund tipparar náðu þrettán réttum, þar af 72 Íslendingar og fá þeir „heilar“ 17.360 krónur í sinn hlut.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Áskorandi Grétars kemur að þessu sinni frá Njarðvík, enginn annar en körfuknattleikshetjan Teitur Örlygsson. Teitur er einn af betri körfuboltamönnum sem Ísland hefur alið af sér, var bæði frábær sóknarmaður og varnarmaður með magnað keppnisskap. Hann hataði að tapa og er frægt sjónvarpsaugnablik þegar hann skallaði Gunnar bróður sinn tvisvar sinnum rétt áður en Gunnar var að fara taka mikilvæg vítaskot í úrslitarimmunni gegn Keflavík um Íslandsmeistaratitilinn árið 1991. Skallarnir skiluðu sínu, Gunnar setti bæði vítin niður hálfvankaður og Njarðvík vann leikinn og tryggði sér svo Íslandsmeistaratitilinn.

Teitur ætlar sér að beita sóknarleik í rimmunni gegn sóknarmanninum Grétar. „Það gengur ekki upp að spila vörn í tippleik og hvað þá á móti svo öflugum sóknarmanni sem Grétar er. Sjálfur var ég jafnvígur á sókn og vörn í körfuboltanum og mun beita bullandi sóknarleik á móti Grétari. Hann hefur verið sjóðandi heitur drengurinn en stundum er sagt að sókn sé besta vörnin og því mun ég sækja til sigurs í þessum leik. Ég er United-maður eins og Grétar og verður að segjast eins og er að við höfum séð bjartari tíma hjá okkar klúbbi. Það hefur ekkert gengið síðan karlinn [Alex Ferguson] hætti og allur rekstur klúbbsins virðist vera í algeru lamasessi. Ég vona að sir Radcliffe komi með góða innspýtingu inn í klúbbinn, mér skilst að hann fái að stjórna fótboltalega hlutanum, það gengur ekki að láta kúreka frá Ameríku sjá um það,“ sagði Teitur.

Grétar var hrærður þegar blaðamaður Víkurfrétta náði tali af honum. „Ég veit ekki hvað skal segja, ég er algerlega í skýjunum yfir gengi mínu í tippleik Víkur-frétta. Ég fór ekki með miklar væntingar inn í þennan leik þar sem ég var ekki búinn að vera duglegur að tippa en ég finn hvernig mér vex ásmegin með hverri helginni sem líður. Það var gaman að ná tólf réttum og stefnan er alltaf að gera betur og þrettán réttir því takmarkið. Það verður gaman að mæta Teiti, hann var frábær körfuboltamaður og mikill keppnismaður, nokkuð ljóst að ég þarf að mæta með A-leikinn minn ef ég ætla mér að hafa betur,“ sagði Grétar.