Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Glímir drengilega – jafnt innan vallar sem utan
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 2. mars 2024 kl. 08:57

Glímir drengilega – jafnt innan vallar sem utan

Guðmundur Stefán Gunnarsson er íþrótta- og tómstundafulltrúi Sveitarfélagsins Voga. Hann er engin smásmíði, þrekinn og hávaxinn, augljóslega ekkert lamb að leika við en þeir sem þekkja hins vegar til Guðmundar vita að þar fer hið mesta ljúfmenni sem hefur mikla ástríðu fyrir fangbragðaíþróttum hvers konar. Guðmundur stofnaði júdódeild Njarðvíkur stuttu eftir hrun með það að markmiði að geta boðið krökkum upp á ókeypis æfingar enda var ástand víða bágborið á þeim tíma. Guðmundur hefur helgað sig fangbrögðum og var kjörinn formaður Glímusambands Ísland þann sautjánda síðasta mánaðar.

„Ég byrjaði í körfubolta með Njarðvík og sundi, fór svo að æfa júdó með Keflavík [UMFK] þegar ég var níu eða tíu ára. Svo var ég í sveit og lenti í því að heyvagn keyrði yfir mig og ég gat ekki æft í einhvern tíma. Fljótlega eftir það hætti svo UMFK og þá hætti Sigurbjörn Sigurðsson, Bói í Duus, með júdódeildina í Keflavík. Þá hafði maður ekkert júdó og saknaði þess alveg svakalega, þannig að ég fann mig ekki í öðrum tómstundum. Ég var aðeins í sundi, svo spilaði ég á básúnu í Lúðrasveit Njarðvíkur. Ég spilaði á trompet en svo missti ég tvær framtennur og þá gat ég ekki spilað lengur á trompet því munnstykkið fór alltaf á augntennurnar og ég gat ekki blásið. Halli [Haraldur Árni Haraldsson] reddaði þessu og henti mér á básúnu, það var alveg geggjað. Ég átti bara svo erfitt með að æfa mig út af lesblindunni, hún uppgötvaðist ekki fyrr en í menntaskóla, þá sá ég aldrei nóturnar heldur spilaði bara af fingrum fram. Ég reyndi bara að halda takti og hitta á réttu slögin en svo þegar kom að spuna þá varð ég aldrei neitt góður í því, alveg ágætur en ég var alltaf þriðja básúna, krakkar sem byrjuðu miklu seinna en ég urðu fyrsta básúna,“ segir Guðmundur og hlær.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kynnist glímu á menntaskólaárunum

Guðmundur segir að fyrstu kynni sín af glímu hafi verið á menntaskólaárunum þegar Kjartan Lárusson fékk hann til að keppa í glímu. „Hann hafði heyrt að ég hefði verið að æfa júdó og fékk mig til að keppa í glímu. Það gekk ekkert sérstaklega vel, ég lagði einn eða tvo, en svo fór ég að æfa júdó aftur með Ármanni.

Á þessum menntaskólaárum vorum við nokkrir sem komumst yfir vídeóspólur um Gracie Jiu Jitsu og fengum í kjölfarið Magnús Hersi Hauksson til að þjálfa okkur í líkamsræktarstöð í Njarðvíkum, Hjá Bertu minnir mig að hún hafi heitið. Svo vorum við þar bara í einhverjum sal, mjög skrautlegur hópur sem fór þar í gegn. Ef einhver lenti í slag um helgi þá tóku Maggi og pabbi þá og jörðuðu á mánudegi, það mátti ekki slást. Það má auðvitað ekkert slást með þetta.

Þetta var eiginlega byrjunin, þarna kviknar áhuginn aftur. Ég fór síðan í Íþróttaskólann á Laugarvatni og kíki eitthvað á æfingar hjá Magga í Vogunum, ég var eitthvað að þjálfa í afleysingum á Selfossi og datt svo inn á júdóæfingar hjá hinum og þessum félögum; Ármanni, Júdófélagi Reykjavíkur og fleirum.“

Guðmundur kynntist konunni sinni, Eydísi Mary Jónsdóttur, þegar hann var í æfingabúðum á Akureyri skömmu eftir að menntaskólaárunum lauk. „Þá var ég svolítið mikið þar fyrir norðan og æfði þá með KA, síðan fórum við út til Danmerkur og ég æfði þar í svona þrjú ár af þeim fjórum sem við vorum þar.“

Eydís, eiginkona Guðmundar, virðist hafa fengið sig fullsadda á honum.

Stofnun júdódeildar þegar margir höfðu ekki efni á æfingagjöldum

„Við komum heim haustið eftir hrun, árið 2008, og þá var verið að afnema allt hérna, þ.m.t. hvatagreiðslurnar. Ég fór að kenna á þessum tíma og var með einhverja fjóra, fimm nemendur sem voru á mjög erfiðum stað. Það var mikil neyð á þessum tíma en þarna sá ég tækifæri til að gera eitthvað fyrir þá. Enginn þeirra hafði tækifæri eða efni á að fara að æfa neitt og það varð hvatinn að stofnun júdódeildar Njarðvíkur sem Stefán Thorderen, þáverandi formaður Njarðvíkur, hjálpaði mér við að ýta í gang. Við stofnuðum deildina í október 2010 og hófum æfingar í janúar 2011.“

Í byrjun æfði deildin á efri hæð Reykjaneshallar og leigði dýnur af Júdósambandinu. Húsnæðið hentaði illa, það lak og dýnurnar lágu undir skemmdum. Það varð því úr að Reykjanesbær lagði til iðnaðarhúsnæði á Iðavöllum þangað sem taekwondo-deild Keflavíkur og júdódeild Njarðvíkur fluttu sína æfingaaðstöðu og fengu sinn hvorn salinn en þessar tvær deildir hafa átt í mjög farsælu samstarfi í gegnum árin.

„Við vorum þarna með taekwondo-deildinni og það var ýmislegt sem þurfti að leysa – og það bara gekk ógeðslega vel. Helgi [Rafn Guðmundsson, yfirþjálfari taekwondo-deildar Keflavíkur] var með þetta svolítið mikið í höndunum á sér fyrst og svo komu stjórnir. Ég fékk alveg skammir fyrir umgengnina hjá mínu liði og hitt og þetta. Við ólum hvert annað upp, þau þurftu aðeins að slaka á og öfugt. Þetta hefur alltaf verið í mjög góðu á milli deildanna, taekwondið mætti á æfingar hjá okkur og við hjá þeim. Ég hef meira að segja keppt í taekwondo, þrisvar sinnum.“

Árið 2019 varð Guðmundur heimsmeistari í keltneskum fangbrögðum en hann háði harða keppni við ellefu sterkustu glímumenn í greininni og stóð að lokum uppi sem sigurvegari.

Kári kemur til bjargar

„Þegar við fórum í þessa aðstöðu vorum við í þeirri stöðu að vera bara með eldgamlar og hálfónýtar dýnur sem við vorum að borga of háa leigu fyrir. Þá fór ég og keypti notaðar wrestling-dýnur úr æfingastöð sem var að hætta og þær notuðum við í nokkur ár. Síðan sendi Björgvin Jónsson, sem var formaður þá, styrktarbeiðni á einhvern samfélagssjóð hjá Íslenskri erfðagreiningu. Við förum á fund Kára Stefánssonar, mér finnst hann alveg geggjaður gaur, og hann spyr í hvað við ætlum að nota styrkinn. Ég útskýri að við ætluðum að gera svona áhugafélag sem myndi bjóða upp á ókeypis íþróttaiðkun fyrir krakka og ala upp þjálfara sem væru tilbúnir að þjálfa einu sinni til tvisvar í viku [innsk. blm.: launalaust]. Hann fór að tala um júdó við okkur og vissi heilmargt um júdó, var sjálfur með eitthvað belti í taekwondo. Svo segir hann bara: „Já, þetta er kúl hugmynd. Ég legg inn á ykkur á mánudaginn.“ Ég sá fyrir mér einhvern hundrað, hundrað og fimmtíu þúsund kall eða eitthvað – það voru draumórarnir hjá okkur. Hann lagði svo eina og hálfa milljón inn á reikninginn,“ segir Gummi og hlær að þessu enda dugði fjárhæðin fyrir nýjum dýnum. „Þetta er stærsti styrkur sem við höfum fengið frá upphafi.“

Félögin voru í iðnaðarhúsnæðinu á Iðavöllum í nokkur ár en deildirnar stækkuðu og var farið að þrengja verulega að þeim. Það varð úr að Reykjanesbær tók stærra húsnæði í notkun fyrir júdó og taekwondo og bættu við þriðja salnum fyrir Hnefaleikafélag Reykjaness. Þetta húsnæði er á Smiðjuvöllum og þarna æfa félögin ennþá.

Eftir því sem júdódeildin stækkaði fór Guðmundur að innleiða fleiri glímugreinar, s.s. Brazilian Jiu Jitsu, Backhold og íslenska glímu. Deildin breytti því heiti sínu í glímudeild Njarðvíkur enda fleiri greinar en júdó æfðar þar.

Ágreiningur, brottrekstur og kærur

Glímudeildinni gekk vel og fjölgaði iðkendum stöðugt, keppendur deildarinnar urðu sífellt betri, voru valdir í landslið og titlarnir urðu stöðugt fleiri, í mótum innan lands og utan. Það er stundum sagt að allir góðir hlutir taki enda og það á við í þessu tilviki.

„Þetta gekk alveg rosalega vel, það hefur gengið vel að bjóða upp á fríar æfingar og fyrir áramót voru um tuttugu manns á hverri æfingu, viku eftir viku. Barnahópurinn okkar var orðinn mjög stór en það hefur fækkað allverulega eftir að Reykjanesbær hótaði að henda okkur út,“ segir Guðmundur en það hefur gengið á ýmsu í samskiptum glímudeildarinnar við Reykjanesbæ og forsvarsmenn Ungmennafélags Njarðvíkur.

„Þetta hefur auðvitað mikil áhrif á iðkendur og þegar öllu er á botninn hvolft þá bitnar þetta bara á börnunum,“ segir Gummi. „Það hefur verið sagt að einhver ágreiningur sé í gangi. Jú, einhvern tímann var eitthvað rifrildi, einhver ágreiningur, en hann varði kannski í fimmtán mínútur. Eini ágreiningurinn er í raun bara persónuleg óvild formanns og framkvæmdastjóra UMFN í garð deildarinnar – nei, í minn garð. Allt sem þeir hafa sagt um mig er bara áróður og baktal. Ég fór á fund með aðalstjórn Njarðvíkur og á það á upptöku, fékk aðila frá íþrótta- og tómstundaráði með mér og ég vildi fá að vita hvað ég hefði brotið af mér – og ef ég hefði ekki brotið af mér, þá vildi ég fá að vita það. Þeir gátu ekki svarað því þrátt fyrir að ég ítrekaði það aftur og aftur. Þannig að þeir láta málin bara hanga í loftin og maður getur ekki varið sig, af því að þetta er bara baktal.“

Gengur þetta svo langt að deildinni er vikið úr félaginu?

„Já, ég fékk það í afmælisgjöf. Þeir sendu mér bréf þess efnis að aðalstjórn hafi vikið glímudeildinni úr félaginu á afmælisdaginn minn þrátt fyrir að ákvörðunin hafi verið tekin meira en viku fyrr – ég held að það hafi ekki verið nein tilviljun.“

Guðmundur segist alls ekki vera sáttur við hvernig aðalstjórn Njarðvíkur hafi staðið að málum gagnvart glímudeildinni og bendir á að; „í lögum Njarðvíkur segir að deild verður ekki lögð niður nema á aðalfundi eða aukaaðalfundi og þá þarf samþykki 2/3 fundarmanna. Þessi brottvikning fór aldrei fyrir aðalfund og það er bara brot á lögum UMFN.

Svo segja þeir að deildin sé óstarfhæf og ég spyr; hvernig er deild óstarfhæf með hundrað iðkendur? Ég bara geri mér ekki grein fyrir því. Við erum að halda mót, við erum að taka þátt í mótum. Á aðalfund deildarinnar mættu 65 manns, það eru fleiri en mættu á aðalfund UMFN.“

Þegar þú talar um aðalfund þá varð nú uppákoma með aðalfund deildarinnar á síðasta ári, er það ekki?

„Jú, það var fyrir aðalfundinn fyrir árið 2022. Við boðuðum þann fund löglega en annað hvort formaður eða framkvæmdastjóri UMFN útbúa plagg þar sem búið er að breyta dagsetningu fundarins og staðsetningu og nafn formanns glímudeildarinnar skrifað undir, sem ég kannaðist ekkert við. Við mættum þarna nokkur og létum vita að fundurinn væri ólöglegur og hann rann bara út í sandinn. Svo héldum við löglegan aðalfund.

Á síðasta aðalfundi deildarinnar, sem var 11. desember, þá halda þeir að þeir hafi lagt deildina niður – og við leyfðum þeim bara að halda það. Á þeim aðalfundi greiddum við atkvæði um að við skildum ganga úr Njarðvík og kjölfarið stofnuðum við nýtt félag sem heitir Íþróttafélagið Sleipnir. Það á eftir að samþykkja það inn í ÍRB.“

Guðmundur var kjörinn formaður Glímusambands Íslands í síðasta mánuði og segist líta framtíð glímu og annarra fangbragðaíþrótta björtum augum.

Hafa alls staðar komið að luktum dyrum

Guðmundur segir að Reykjanesbæ hafi ekki tekið á þessum málum af fagmennsku. „Við erum nýfarin að fá fundi til að segja okkar hlið, það hefur enginn viljað hlusta á okkur. Bæjarstjórinn vildi ekki taka á þessu, pabbi fór og talaði við hann, það er búið að tala við sviðsstjóra menntasviðs en hann er pabbi framkvæmdastjóra UMFN svo hann vildi ekkert tala um þetta heldur. Þannig að það virðist vera hægt að segja allt um okkur en við fáum aldrei að verja okkur.“

Að sögn Guðmundar hafa forsvarsmenn UMFN, þ.e. formaður og framkvæmdastjóri, ekki viljað svara spurningum út á hvað þetta ósætti gangi. „Það hefur verið reynt að fá upp úr þeim hvað sé í gangi. Fréttamiðlar eins og DV og Vísir hafa talað við mig og reynt svo að fá þeirra hlið en þar er engu svarað. Meira að segja lögfræðingurinn minn fær engin svör. Það er alger þögn.

Ég get líka sagt frá því að Glímusambandið hefur reynt en fékk þau svarið; „þið ættuð bara að hugsa um glímu“. Sambandið er að því, að bjarga glímunni. Ég er stór hluti af því að glíman er lifandi í dag.“

Guðmundur upplýsir að nú sé búið að leggja inn kæru á hendur formanni UMFN fyrir tilraun til fjárdráttar. „Ástæðan fyrir því að við kærum formann félagsins er raunverulega sú að hann byrjar á því að senda póst á RSK og ætlar að leggja niður deildina, mig minnir að þetta hafi verið á föstudegi. Á mánudegi reynir hann að loka reikningum deildarinnar og færa peningana yfir á aðalstjórn. Í lögum UMFN segir að leggi deild niður starfsemi þá getur aðalstjórn leyst til sín eignir deildarinnar eftir fimm ár. Ég held að meining laganna sé að þá sé hægt að halda einhverjum gripum til að varðveita vegna sögunnar. Flestar deildir eiga ekki fjármuni þegar starfsemi þeirra er hætt en þeir vissu að við ættum pening, samt stendur í lögum UMFN þetta með fimm árin.

Með málið hjá RSK var þetta öðruvísi. Í því máli fáum við andmælarétt og við mótmæltum tilrauninni til að loka kennitölunni okkar. Ákvörðun ríkisskattstjóra var okkur í hag.“

Glímudeildin var rekin á eigin kennitölu og Guðmundur segir það ekki vera neitt einsdæmi. Hann bendir m.a. á knattspyrnudeild Þróttar Vogum sem er rekin með sama fyrirkomulagi.

„Þannig að þetta mál allt hefur fordæmisgefandi gildi,“ segir hann, „og það kemur sér illa fyrir ÍSÍ sem hefur staðið með UMFN í þessu máli en núna vill sambandið engu svara um hvort Njarðvík hafi gert rétt með því að leggja deildina niður. ÍSÍ hefur aldrei viljað tala við okkur en Glímusambandið hefur stutt við okkur og núna ætlum við að eiga fund með Íþróttasambandinu.

Það hefur enginn viljað hlusta á okkar hlið, þetta,“ segir Guðmundur og vísar í samtalið við Víkurfréttir, „er í fyrsta sinn sem einhver hlustar á mína hlið,“ segir Guðmundur að lokum.