Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Miklar framkvæmdir og nýtt fullkomið bókunarkerfi
Feðgarnir Jón William Magnússon og Steinþór Jónsson fyrir framan hótelið. Á neðri myndinni eru Steinþór og Davíð bróðir hans við tölvuna í lobbíinu.
Laugardagur 18. maí 2013 kl. 08:00

Miklar framkvæmdir og nýtt fullkomið bókunarkerfi

30 herbergi endurnýjuð frá grunni á Hótel Keflavík

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Hótel Keflavík að undanförnu og nýlega tók hótelið einnig í notkun nýtt bókunarforrit til að halda utan um allar bókanir og aðra þætti sem tengjast veru fólks á hótelinu. Að sögn Steinþórs Jónssonar, hótelstjóra er nýja forritið mjög fullkomið þar sem hægt er að fylgjast með stöðu mála í gegnum „App“ í snjallsímanum.

„Það skiptir mjög miklu máli fyrir hótel að hafa góð bókunarforrit til að halda utan um allar bókanir og þá fjölmörgu þætti sem tengjast hverjum hótelgesti. Á bak við hvern gest er bókun með upphæð gistingar, persónuupplýsingum, símanúmeri og heimilsfangi, hver bókar og hvert á að senda reikninginn. Síðan þarf að tékka viðkomandi inn, tékka hann út, setja inn viðbótarreikning vegna veitinga og fleira. Þá þarf að halda utan um skilaboð, vakningar, þrif og aðra þætti á meðan viðkomandi gistir. Það er því einstakt tækifæri að fá að þróa slíkt forrit með fagmönnum svo ekki sé talað um þessa nýju vídd sem Roomer kerfið býður upp á,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri og bætir því við að það sé auðvitað skemmtilegt að viðkomandi tölvufræðingur, Björn Guðmundsson, sem hann fékk árið 1986 til að búa til nýtt  bókunarkerfi fyrir Hótel Keflavík hafi í framhaldi selt það kerfi í 27 ár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 

Aðgengilegt hvar sem er

„Roomer.is er svokallað „cloud“-kerfi. Það þýðir að það er aðgengilegt hvaðan sem er og getur stækkað nánast óendanlega. Það er hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum sem gert er sérstaklega fyrir hótel og Keflavíkurhótelið því það fyrsta í heiminum sem tekur slíkt kerfi í notkun. Árið 1986 smíðaði ég hótelkerfi í náinni samvinnu við Steinþór fyrir Hótel Keflavík. Það kerfi, sem kallað var ÓÐAL, var til dæmis þannig hannað að á skerminum gastu strax séð stöðu einstakra herbergja og gesta. Þetta var gert með notkun lita. Það var í fyrsta sinn sem slíkt var gert í hótelkerfum en í dag gera þetta flestir og meira að segja á sama hátt“, segir Björn Guðmundsson, hönnuður og eigandi Roomer sem er nafnið á hótelkerfinu.

 

„Það forrit var einstakt á sínum tíma og við ákváðum í sameiningu að hafa liti undir nöfnum gesta til að skilgreina hvort gestur væri ókominn, mættur í hús eða úttékkaður. Ég fékk það hlutverk að velja liti fyrir hverja stöðu og ákvað að velja þá út frá pólitísku litrófi þannig að rautt átti við um ókominn gest, grænt um þá sem væru á förum en blái liturinn lýsti upp nöfn inntékkaðra og núverandi gesti. Það er fróðlegt að segja frá því að síðar byrjuðu önnur hótel að þróa forrit með svipuðu litrófi. Þá er ekki síður skemmtileg sú staðreynd að litirnir merkja í dag um allan heim það sama og litla hótelið okkar byrjaði með 1986. Blátt fyrir flokkinn minn og gestina mína og þannig er það nú um allan heim í anda Hótel Keflavík,“ rifjar hótelstjórinn upp.

Nú er Björn aftur, ásamt erlendum aðilum, að hanna nýtt og einstakt hótelkerfi á heimsvísu sem Steinþór og hans fólk fékk að þróa með þeim. „Við á Hótel Keflavík erum því mjög stolt af þessari samvinnu og höfum þegar séð mikla möguleika og þægindi sem þessu bókunarforriti fylgir. Svo ég taki dæmi þá get ég nú í nýju „appi“ á símanum mínum séð bókunarstöðu dagsins eða alls mánaðarins hvar og hvenær sem er. Ég get fylgst með í rauntíma hvar sem ég er staddur hvernig þrifin ganga og hvað mörg herbergi á eftir að þrífa,“ segir Steinþór.

Björn var mjög ánægður með samvinnuna við Steinþór og hans fólk og sagði þetta: „Það er nokkuð merkilegt til þess að hugsa að þessir hlutir gerast allir í Keflavík, af öllum stöðum“.

Aðspurður um komandi sumartraffík segir Steinþór að bókunarstaðan sé mjög góð en einstaklingsbókanir hafa aukist á meðan hópabókanir haldast í stað. „Nær 30 ára markaðssetning hótelsins og aukning ferðamanna hefur jákvæð áhrif en á sama tíma hefur fjölgun herbergja á Suðurnesjum nær tvöfaldast og þá helst í ódýrari gistingu á Ásbrú. Helsta ógn hótela og gististaða á Reykjanesi  er ójöfn samkeppnisstaða þegar hver blokkin af fætur annarri á Ásbrú er leigð út stjórnlaust, m.a. á veltutengdri leigu og breytt í gistirými, þrátt fyrir loforð stjórnvalda um annað. Þetta heldur verðum niðri og þá einnig á fínni hótelum eins og Hótel Keflavík vissulega er.“
 

Ný heimasíða og endurbætur

Ný heimasíða www.kef.is hefur verið í þróun og hönnun hjá Suðurnesjafyrirtækjunum Dacoda og Kosmos og Kaos.

„Að okkar mati glæsileg vinna hjá þessum aðilum enda með þeim bestu á sínu sviði á landinu öllu og sérlega ánægjulegt að þeir skuli vera í sama bæjarfélagi og við.

Samhliða þessu höfum við staðið í mestu framkvæmdum sem við höfum ráðist í frá upphafi sem felast m.a. í að skipta um alla glugga, flísaleggja allt hótelið að utan og gera það glæsilegt gestum og bæjarbúum til ánægju og yndisauka. Þá erum við að  endurnýja 30 herbergi frá grunni og flísaleggja baðherherbergi en síðustu herbergin verða kláraðuð næsta vetur. Það má því með  sanni segja að hótelið sem við byggðum og opnuðum 1986 sé nú aðeins tveggja ára í tíma og rúmi og bjóði upp á það sem best gerist í Evrópu,“ sagði Steinþór.