Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Sigurfari hefur verið lengi við lýði
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 26. nóvember 2021 kl. 07:17

Sigurfari hefur verið lengi við lýði

Nú fer að koma sá tími að bátarnir sem hafa verið fyrir austan og norðan fari að koma suður til veiða – og fyrsti báturinn sem kom suður, og er ég þá að tala um minni beitningavélalínubátanna, var Daðey GK sem fór á miðin út af Sandgerði. Þar gekk bátnum feikilega vel því í fyrsta róðri fékk Daðey GK 9,3 tonn og samtals landaði báturinn 30 tonnum í fyrstu fjórum róðrunum.

Þessi góða veiði spurðist út og bátunum fjölgaði umtalsvert. Næst á eftir Daðey GK kom Sævík GK og hún fór líka fór til Sandgerðis og landaði þar 13,3 tonnum í tveimur róðrum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fleiri bátar fylgdu á eftir, t.d. Margrét GK, Geirfugl GK, sem reyndar kom frá Snæfellsnesinu en þessi bátur hafði komið í byrjun nóvember og fór þá beint í Breiðarfjörðinn og landaði þá á Rifi. Dóri GK kom síðan en hann fór lengstu leiðina, eða alla leið frá Siglufirði.

Af minni bátunum eru ennþá nokkrir úti á landi, á Skagaströnd er Ragnar Alfreðs GK, Guðrún Petrína GK, sem reyndar hefur ekkert landað afla þar síðan 24. október, og Gulltoppur GK. Nýr skipstjóri tók við bátnum en Gulltoppur GK var kominn til Sandgerðis.

Skipstjórinn á Gulltoppi GK sigldi með bátinn til Akranesi og þaðan var hann settur á vörubíl sem ók honum til Skagastrandar. Nokkuð sérstakt að fara norður á þessum tíma, þegar að veiðin er að aukast hérna út frá Suðurnesjunum.

Af bátum sem eru að róa hérna þá er Hópsnes GK kominn með 23 tonn í sex róðrum og Addi Afi GK sautján tonn í fjórum róðrum.

Frekar rólegt er yfir netaveiðunum og núna er aðeins Maron GK eftir á netaveiðum hérna en honum hefur gengið nokkuð vel, kominn með 41,5 tonn í tólf róðrum og mest 10,3 tonn í einni löndun, sem landað var í Sandgerði

Reyndar er Hólmgrímur aðeins með tvo báta í útgerð núna því Halldór Afi GK er kominn í slipp eftir að leki kom að bátnum í gegnum öxul þess. Er hann í slipp núna og þar er líka Langanes GK en búið er að leggja honum tímabundið – og líklegast fram að næstu kvótaáramótum því núna er þorskkvótinn nokkuð minni en var á síðasta fiskveiðiári og leiguverð er ívið hærra núna en var á síðasta fiskveiðiári.

Grímsnes GK er ennþá að eltast við ufsann og er kominn ansi langt austur og hefur verið að landa alla leið á Hornafjörð. Er kominn með 58 tonn í fimm róðrum og mest 21 tonn í einni löndun. Halldór Afi GK var kominn með 6,1 tonn í sjö róðrum þegar að hann fór í slipp.

Dragnótabátarnir, þó þeir séu fáir, hafa haldið sig á heimamiðum og núna í nóvember hefur þeim gengið nokkuð vel. Tveir þeirra eru á veiðum inn í Faxaflóanum eða bugtinni eins og það er kallað. Siggi Bjarna GK sem er með 95 tonn í þrettán róðrum og Benni Sæm GK sem er með 44 tonn í átta róðrum. Sigurfari GK er of langur til þess að mega veiða í Faxaflóanum og er hann því við veiðar undir Hafnarbergi og út af Sandgerði, hann hefur landað 62 tonn í sex róðrum.

Annars er nokkuð merkilegt með þennan bát Sigurfara GK, því að Nesfiskur á þennan bát og bátafloti Nesfisks, sem og togarar, er nokkuð stór og mikill. Nöfnin á öllum bátum og togurum þeirra tengjast eigendum og fjölskyldum þeirra – að undanskildu þessu nafni, Sigurfari GK, sem tengist fyrirtækinu eða eigendum þess á ekki neinn einasta hátt.

Hvaðan kemur þá þetta nafn, Sigurfari GK? Jú, þetta nafn kemur frá Vestmannaeyjum og sér langa sögu þar, eða aftur til ársins 1943 þegar fyrsti báturinn kemur sem fékk þetta nafn Sigurfari VE 138. Sá bátur var eikarbátur og gerður út í Vestmannaeyjum til 1975 þegar að annar bátur, stálbátur, fékk þetta nafn og hann var gerður út til ársins 1984. Þá var keyptur bátur frá Danmörku sem fékk nafnið Sigurfari VE 138 og sá bátur var síðan seldur til Nesfisks árið 1993 – og jú, Nesfiskur hélt eftir þessu nafni og númeri en breytti bara VE í GK. Svo báturinn var Sigurfari GK 138.

Núverandi Sigurfari GK 138 var keyptur árið 2019 og er með þessu númeri 138 og ansi merkilegt að þetta nafn og númer 138 er því búið að vera við lýði á Íslandi í útgerð í 78 ár.