Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Langmest um að vera í Sandgerði
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
miðvikudaginn 1. desember 2021 kl. 16:43

Langmest um að vera í Sandgerði

Þar sem ég sit núna heima og skrifa þessi orð þá snjóar ansi fallega úti og þegar þessi pistill kemur út þá er kominn desember og því vel við hæfi að veðurguðirnir komi með snjó, því desember er frekar dapur mánuður ef það er enginn snjór, verður allt svo jólalegt þegar að jólasnjórinn er kominn.

Snjór. Þarf ekki að taka nema einn bókstaf í burtu, bókstafinn n, þá stendur eftir Sjór.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Já, það hefur bara verið mjög góð veiði hjá bátunum og langmest hefur verið um að vera í Sandgerði enda línumiðinn þar stór og fengsæl. Bátarnir eru orðnir líka nokkuð margir og við skulum líta aðeins á hvernig þeim hefur gengið og miða þá við heimalandanir bátanna.

Addi Afi GK er búinn að vera í Sandgerði allan nóvember og landað 25,5 tonnum í fimm róðrum. Það hefur líka Hópsnes GK verið og hefur landað 34 tonnum í níu róðrum, báðir þessir bátar eru balabátar.

Daðey GK, sem kom fyrstur beitningavélabátanna, hefur gengið mjög vel og landað 51 tonni í átta róðrum og mest 9,3 tonnum. Sævík GK kom næstur á eftir Daðey GK og hefur landað 41 tonni í sjö róðrum og þess má geta að hann fór til Grindavíkur þegar gerði norðanbrælu og lagði línuna undir Krýsuvíkurbjargi, veiðin þar var frekar dræm.

Katrín GK er með 15,6 tonn í þremur róðrum en báturinn er búinn að vera í Sandgerði í allt haust.  Geirfugl GK hefur landað 27,8 tonnum í fimm róðrum en þessi bátur kom fyrst á Snæfellsnes í byrjun nóvember og kom síðan til Sandgerðis um miðjan nóvember. Margrét GK er með 24 tonn í fjórum róðrum. Það eru ennþá nokkrir bátar eftir fyrir norðan en þeir eru ekki margir.

Óli á Stað GK er búinn að vera á Siglufirði í allt haust en er búinn að færa sig til Skagastrandar. Á sama tíma fyrir ári síðan var báturinn kominn til Sandgerðis, þangað kom hann 22. nóvember í fyrra svo það ætti að fara að líða að því að báturinn komi suður. Gulltoppur GK var kominn suður en nýr skipstjóri tók við bátnum og fór með hann norður til Skagastrandar. Dálítið skrítin ákvörðun þegar að veiðin fyrir sunnan er að glæðast en fyrir norðan hefur Gulltoppur GK landað 18,7 tonnum í sex róðrum sem er frekar lítill afli og hafa ber í huga að Gulltoppur GK er balabátur og þarf því að aka bölunum fram og til baka frá Sandgerði þar sem er beitt og norður. Bátnum var reyndar ekki siglt alla leið því honum var siglt til Akraness og tekinn þar á trukk sem ók honum til Skagastrandar – og sama aðferð verður höfð þegar að báturinn kemur suður aftur.

Guðrún Petrína GK er ennþá á Skagaströnd og hefur farið í einn róður núna í nóvember og kom með 6,9 tonn í land. Á sama tíma í fyrra var báturinn í Sandgerði og landaði þá 35 tonnum í sjö róðrum, öllu var landað í Sandgerði, svo það er ansi mikið aflahrun hjá bátnum milli þessara ára.

Ragnar Alfreðs GK er líka fyrir norðan og hefur landaði tuttugu tonnum í fimm róðrum en hann hefur landað á Hvammstanga. Samhliða þessari góðu veiði hefur netabáturinn Maron GK líka verið þarna á veiðum og gengið nokkuð vel, kominn með 55 tonn í fimmtán róðrum og mest tíu tonn í róðri. Reyndar vekur nokkra athygli að báturinn er að veiðum utan við Sandgerði en siglir til Njarðvíkur til þess að landa aflanum. Er það nokkuð lengri sigling að fara þangað en beint til Sandgerðis.

Einn netabátur er búinn að vera að landa í Grindavík og er það Hraunsvík GK sem er kominn með 13,6 tonn í fimm róðrum. Reyndar kom frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK til Grindavíkur snemma í nóvember með 360 tonna afla og eftir löndun var togaranum siglt til Akureyrar. Þar verður togarinn í allt að þrjá til fjóra mánuði. Nokkuð stórt verkefni er í gangi með togarann því rífa á niður allt frystikerfið í togaranum og smíða nýtt frystivélarými og frystikerfi í lest skipsins, ásamt því að mála vinnsludekkið í skipinu og önnur minniháttar viðhaldsverkefni. Togarinn mun líklegast ekki fara á veiðar aftur fyrr en í febrúar á næsta ári.