SSS uppbyggingarsjóður
SSS uppbyggingarsjóður

Pistlar

Svona síbreytilegt
Föstudagur 1. ágúst 2025 kl. 06:25

Svona síbreytilegt

Ég hef uppgötvað glænýjan kvíða hjá mér þetta sumarið: veðurkvíði. Hann felst aðallega í því að kíkja á veðurspána oft og mörgum sinnum yfir daginn. Langtímaspáin virðist alltaf byggð á bjartsýninni. Korter í að sólin eigi svo að láta sjá sig virðist veðurkortið verða fúlt á móti og sýnir eingöngu sólina á Austurlandi. Alveg merkilegt nokk. Sólin á suðvesturhorninu breytist þá í skýjaþykkni, rigningu og rok. Svona síbreytilegt eitthvað…

Nú þegar verslunarmannahelgin er framundan hafa veðurfræðingarnir ákveðið að taka enga áhættu, leggja alla bjartsýni til hliðar og sýna okkur blákalda spána. Rigning og rok! Fyrir um áratug síðan hélt einmitt ungt par af stað til Eyja í hálfgerðri blindni án þess að líta á veðurspána, sem á að giska leit örugglega út eins og þessi í ár. Keyptum miða aðra leiðina því ekki var laust í bátinn heim fyrr en á þriðjudeginum. Ungi Spánverjinn minn horfði á mig áhyggjufullum augum þegar við stigum um borð í Herjólf ”Íris, ertu viss um að við komumst aftur heim?”. „Já góði besti, þetta reddast! Það segjum við allavega á Íslandi,“ svaraði ég hoppandi kát og smellti í eina selfí af okkur á leið inn í Herjólf. Hann var ekki sannfærður en lét þó tilleiðast, enda kannski orðið of seint að hætta við núna, nýstiginn af þurru landi.

Það vildi ekki betur til en svo að kvölddagskráin leið hjá í raunverulegri blindni, þó ekki vegna áfengisneyslu heldur var hreinlega ekki hægt að horfa í átt að sviðinu fyrir sandfoki. Um miðnætti ákváðum við að þetta væri komið gott og freistuðum þess að ná bátnum heim. Hundruð unglinga biðu í röð við skýlið. Þá fer að berast orðrómur um að skiptstjórinn myndi ekki taka neina áhættu í ólgusjó og engir aukafarþegar kæmust með.

Við fundum lítið hótel og stormuðum þar inn með von í hjarta. Maðurinn í afgreiðslunni sagðist ekkert eiga laust fyrr en eftir rúma 9 klukkutíma. Hann sá þó aumur á okkur og leyfði okkur að sitja á sófum í móttökunni. Litlu seinna gengu inn þrjú ungmenni í sömu erindagjörðum en þeirra tjald hafði þó fokið út í veður og vind. Þarna sátum við í þögninni í sitthvorum sófanum og biðum. Sá sem í miðjunni sat var farinn að halla heldur mikið á vin sinn og dormaði. Ég öfundaði hann en svo slæmt var kvíðakastið yfir því að vera föst á þessari eyju að mér kom ekki dúr á auga. Skyndilega fer miðjumaðurinn að kasta rækilega upp yfir sætisfélaga sinn sem stekkur æpandi upp. Rauð vínblandan líktist einna helst blóði svo viðstaddir fengu hálfgert áfall og héldu að maðurinn væri að deyja drottni sínum þarna í anddyrinu. Þá gafst móttökustjórinn upp og henti okkur öllum út. Við stigum aftur út í storminn og niður á höfn en þar hafði röðin ekki haggast. Eftir nokkurra klukkustunda ráf um eyjuna töldum við best að snúa aftur á hótelið og fengum að lokum herbergi. Komumst reyndar ekki heim fyrr en sólarhring seinna, níutíu þúsund krónum fátækari og veðurbarin.

Íris Valsdóttir.