Góð ákvörðun að skella sér í djúpu laugina
Þegar þessi pistill kemur þá er júlímánuður svo til búinn en hann byrjaði á strandveiðum sem síðan voru stöðvaðar, og þá fækkaði mjög mikið færabátunum sem réru, en það voru þó nokkrir bátar sem héldu áfram veiðum og voru þá að mestu að eltast við ufsann ansi langt úti við Eldey. Veiðin hjá bátunum var ansi góð.
Ef við lítum á bátana sem réru eftir að strandveiðum lauk 17. júlí, þá kom Dóri Sæm HF með 2.5 tonn í einni löndun, Brói GK með 4,3 tonn í tveimur róðrum, þar af fullfermi, 3,3 tonn í fyrsta róðri sínum. Það má geta þess að skipstjórinn á Bróa heitir Hólmgrímur Hólmgrímsson og hann er rúmlega 20 ára gamall, sonur Hólmgríms, sem ég hef oft minnst á hérna í þessum pistlum mínum. Hólmgrímur eldri hefur gert út marga netabáta frá Keflavík, t.d. Maron GK, Halldór Afa GK og síðan Grímsnes GK.
Tjúlla GK kom með 1,9 tonn í einni löndun, Sella GK 2,9 tonn í einum róðri, Stormur GK 1,3 tonn í einum og Snorri GK með 2,7 tonn í einni löndun. Síðan var það Hawkerinn GK, sem kom með fullfermi, 3,5 tonn í einni löndun. Eigandinn á Hawkernum GK eru Ásta Sigríður Stefánsdóttir og Jóhann Haukur Þorsteinsson, en hann er oftast kallaður Johnny Hawk. Johnny hefur verið skipstjóri undanfarin ár á færum og núna í vetur þá skelltu þau sér í djúpu laugina og keyptu sér bát til að nota á strandveiðum og síðan á færum. Báturinn sem þau keyptu á sér hátt í tuttugu ára sögu í útgerð frá Suðurnesjunum, að mestu frá Sandgerði en báturinn hét Magnús GK og Binna GK. Þessi 3,5 tonna róður á Hawkernum GK er fyrsti róðurinn hjá bátnum eftir að strandveiðum lauk og óhætt er að segja að þessi ákvörðun þeirra að henda sér í djúpu laugina með því að kaupa sér bát hafi borgað sig, því strandveiðarnar hjá bátnum gengu vel og síðan er ansi góð byrjun á fyrsta róðri sínum á færum eftir strandveiðarnar. Að endingu kom Stakkur GK með 2 tonn í einni löndun til Grindavíkur.
Rólegur júlí
Fyrir utan að færabátarnir réru, þá var frekar lítið um að vera því að mest allur bátaflotinn er orðinn stopp, til dæmis þá stoppaði Aðalbjörg RE um miðjan júlí en bátnum hafði gengið mjög vel að veiða það sem af var júlí og var kominn með 116 tonn í tíu róðrum.
Enginn bátur frá Nesfiski var á veiðum nema Sóley Sigurjóns GK, sem er á rækjuveiðum og landar á Siglufirði og er kominn með 67 tonn þar í þremur róðrum. Auk þess 75 tonn af fiski. Rækjan er unnin á Hvammstanga og fisknum er að mestu ekið suður til Sandgerðis og Garðs til vinnslu.
Margrét GK er á línuveiðum frá Neskaupstað og gengur nokkuð vel, komin með 146 tonn í fjórtán róðrum en mest öllum fisknum af bátnum er ekið til Sandgerðis til vinnslu.
Báðir línubátar Vísis, Sighvatur GK og Páll Jónsson GK, eru í slipp, Páll í Reykjavík og Sighvatur GK í Njarðvík.
Togarnir Bergey VE og Vestmannaey VE hafa komið með fisk til vinnslu hjá Vísi í Grindavík og Hulda Björnsdóttir GK hefur landað þar 585 tonnum í fjórum löndunum og mest 179 tonnum. Allur aflinn frá Huldu Björnsdóttur GK fer á fiskmarkað.