Rólegheit í höfnunum eftir strandveiðar
Þar með er júlí mánuður kominn á enda og eftir að strandveiðunum lauk 17. júlí var frekar rólegt um að vera í höfnunum á Suðurnesjum. Ætla aðeins að líta á hvað var að gerast frá 17. júlí og til mánaðamóta. Kannski það merkilegasta var að netabátar hófu veiðar, fjórir talsins, og allir að veiða fyrir Hólmgrím. Nokkuð góð byrjun hjá bátunum.
Netabátarnir byrja af krafti
Addi Afi GK landaði 13,9 tonnum í fjórum róðrum og mest 4,8 tonn í einni löndun.
Halldór Afi GK var með 4 tonn í þremur róðrum. Sunna Líf GK var með 13,2 tonn í fjórum róðrum og mest 4,1 tonn. Síðan var það nýr bátur, Emma Rós KE, sem var með 11,8 tonn í fjórum og mest 5,1 tonn.
Þessi bátur á sér reyndar nokkuð langa sögu í útgerð á Suðurnesjum, sérstaklega í Grindavík. Hann hét áður Hraunsvík GK og bar það nafn frá árinu 2007.
Í tugi ára var mikill floti af netabátum í Grindavík, aðallega yfir vertíðina. Á þessari öld fór þeim smám saman fækkandi og eftir stóð Hraunsvík GK sem eini netabáturinn frá Grindavík síðustu árin. Nú hefur hann verið seldur, fengið nýtt nafn og ljósbláan lit – áður var hann dekkri blár.
Lína og dragnót róleg
Enginn stór línubátur landaði seinni hluta júlí, því bæði Páll Jónsson GK og Sighvatur GK voru í slipp. Þá voru engir dragnótabátar frá Nesfiski á veiðum.
Eini dragnótabáturinn sem landaði í Sandgerði var Margrét GK með 92 tonn í 12 róðrum. Auk þess landaði Auðbjörg HF 7,3 tonnum í tveimur róðrum.
Auðbjörg HF er í eigu Sigga Alla sem á einnig Margréti GK. Auðbjörg tilheyrir hópi þriggja elstu stálbáta landsins, ásamt Hafrúnu HU frá Skagaströnd og Maron GK í Njarðvík.
Smá líf í Njarðvík og Grindavík
Enginn bátur landaði í Njarðvík nema Klettur ÍS sem var á sæbjúguveiðum með 39 tonn í fjórum róðrum, mest 13 tonn í einni löndun.
Í Grindavík var smá togaraumferð. Hulda Björnsdóttir GK landaði 768 tonnum í fimm löndunum, mest 182 tonn. Hrafn Sveinbjarnarsson GK landaði 565 tonnum. Tómas Þorvaldsson GK landaði 647 tonnum.
Sandgerði eftir strandveiðar
Sandgerði var ein af stærstu höfnum landsins í fjölda báta sem lönduðu á strandveiðum. Eftir að þeim lauk voru aðeins 12 bátar sem lönduðu ferskum afla þar, aðallega á ufsaveiðum – en það gekk vel hjá þeim.
Ragnar Alfreðs GK – 9 tonn í tveimur róðrum
Brói GK – 4,4 tonn í tveimur róðrum
Hawkerinn GK – 3,5 tonn í einni löndun
Stakkur GK – 3,2 tonn í tveimur róðrum
Sella GK – 2,9 tonn í tveimur róðrum
Dóra Sæm HF – 2,5 tonn í einni löndun
Snorri GK – 2,7 tonn í einni löndun
Nýtt fiskveiðiár fram undan
Nú er ágúst mánuður kominn í gang og hann er bæði síðasti mánuður fiskveiðiársins og, já, mánuðurinn minn – því ég verð fimmtugur í ágúst.