Sveindís Jane skorar og skorar fyrir Ísland
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu lék gegn Kýpur í undankeppni HM í dag. Fyrri leik liðanna lauk með fimm marka sigri Íslands og frammistaða liðsins á útivelli í dag var ekki mikið síðri. Öruggur fjögurra marka sigur staðreynd og Ísland er komið með níu stig eftir fjóra leiki en Holland er með ellefu stig og hafa leikið einum leik fleiri en íslenska liðið.
Ísland komst yfir á 7. mínútu með marki Karólínu Leu Vil-hjálms-dótt-ur beint úr aukaspyrnu. Þá kom að þætti Sveindísar Jane en hún átti góðan sprett upp í hornið á 14. mínútu og gaf góða fyrirgjöf á Berg-lindi Björgu Þor-valds-dótt-ur sem skoraði annað mark Íslands. Sveindís skoraði svo sitt sjötta mark fyrir A-landsliðið þegar hún tók á móti hárri fyrirgjöf, lagði boltann fyrir sig og negldi í markið, 3:0. Karólína skoraði annað mark sitt í seinni hálfleik (62’) en fleiri urðu mörkin ekki.
Keflvíski framherjinn skeinuhætti sýndi einni flotta takta í síðustu viku þegar Ísland lék vináttuleik gegn sterku liði Japan. Þar skoraði Sveindís fyrra mark Íslands þegar hún keyrði upp völlinn, inn í teig Japans og lét þrumufleyg vaða í markið – óverjandi fyrir þá japönsku. Ísland sigraði leikinn með tveimur mörkum gegn engu en Japan er í þrettánda sæti styrkleikalista FIFA á meðan Ísland er í því sautjánda.
Sveindís Jane flytur nú búferlum eftir þessi verkefni með landsliðinu til þýska stórliðsins Wolfsburg eftir að hafa verið í eitt ár með sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad svo það eru spennandi tímar framundan hjá þessari heitustu knattspyrnukonu Íslands um þessar mundir.