Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Davíð Snær á leið til Lecce
Davíð Snær skrifar undir samninginn við Lecce.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 19. janúar 2022 kl. 14:43

Davíð Snær á leið til Lecce

Davíð Snær Jóhannsson, leikmaður úrvalsdeildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu, hefur skrifað undir samning við ítalska knattspyrnuliðið Lecce sem leikur í næstefstu deild (Serie B) á Ítalíu.

Sem kunnugt er sýndi Lecce því áhuga að fá Davíð í sínar raðir undir lok Íslandsmótsins á síðasta ári en þá náðust ekki samningar milli Lecce og Keflavíkur sem Davíð Snær var samningsbundinn.

Víkurfréttir heyrðu í Davíð Snæ sem er að vonum ánægður með framgang sinna mála.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er virkilega sáttur, þetta er náttúrlega það sem ég er búinn að vera að vinna að í svo langan tíma,“ segir kampakátur Davíð. „Ég er búinn að skrifa undir – allt klappað og klárt og ég fer nú bara strax í kvöld. Ítalinn er mjög direct í þessum málum, hann vill bara klára þetta og það helst á fimm mínútum.“

Ertu búinn að verða þér út um stað til að búa á?
„Já, ég er búinn að vera að skoða þetta. Þórir Jóhann [Helgason], sem er líka hjá Lecce, hefur boðið mér að leigja með sér og ég ætla að taka því, held að það sé mjög sniðugt.“

Hefur ekki komið til Lecce

Davíð segir að hann hafi ekki enn farið til Lecce þrátt fyrir að hafa verið í sambandi við síðasta haust.

„Þeir höfðu náttúrlega samband við mig í sumar en ég hef ekki farið þangað út. Ég hef heyrt talað mjög vel um þennan stað, bæði fótboltalega séð og að þetta sé virkilega fallegur bær. Bæði Þórir og Bjarki, umboðsmaður minn, hafa sagt mér frá staðnum og ég er virkilega spenntur.

Svona er fótboltinn í dag, þetta gerist allt yfir netið.“

Nú varstu ósáttur í haust þegar ljóst var að Keflavík var ekki til í að sleppa þér, ertu ekki sáttur við hvernig málin hafa þróast?
„Jú, ég get ekki verið annað en sáttur núna. Loksins búið að fá lokun á málið og allir geta gengið sáttir frá borði held ég.“

Davíð Snær skorar gegn Blikum í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins á síðasta ári í 2:0 sigri Keflavíkur á Breiðabliki en Keflvíkingar komust í undanúrslit keppninnar.

Stefnan tekin hátt

Lecce situr núna í fimmta sæti Serie B þegar deildin er hálfnuð. Lecce á leik til góða á þau lið sem eru ofar á stigatöflunni og gæti með sigri komist í annað sæti deildarinnar.

„Þetta er klárlega lið sem stefnir hátt og þeir hafa yfirleitt verið í Serie A í sögunni. Það eina sem ég hef heyrt frá þeim er að þeir ætli upp, það er ekkert annað sem kemur til greina þar. Ég er að fara í lið sem er að gera spennandi hluti og er að stefna hátt.“

Þeir horfa þá á þig sem framtíðarleikmann með liðinu í efstu deild.
„Það er í rauninni planið. Þegar ég kem út þá byrja ég með Prima Vera-liðinu, þ.e. unglingaliðinu hjá þeim, og það lið er að spila í efstu deild. Þar eru leikir á móti Juventus, Inter, AC, Napoli og öllum þessum liðum – og þar fæ ég virkilega góðan grunn fyrir skrefið sem ég tek svo upp í aðalliðið, sem gerist vonandi í sumar.“

Hvað er þetta langur samningur sem þú gerðir?
„Þetta eru átján mánuðir. Mér finnst það fín lengd á samningnum, bæði er þetta langt að heiman en svo er heimurinn alltaf að minnka með Facetime og öllu þessu. Þetta er ekki eins og þegar pabbi var að spila,“ segir Davíð og hlær en pabbi hans er Jóhann Birnir Guðmundsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur, sem fór einnig í atvinnumennsku á seinni hluta síðustu aldar.

Unganum sparkað úr hreiðrinu

Ætla foreldrar þínir út með þér?
„Nei, þau ætla ekki að gera það. Það er bara kominn tími á að fuglinn fari að fljúga út.“

En eru þau ekki ánægð?
„Jú, þau eru mjög sátt. Þau vita auðvitað að þetta er það sem ég hef stefnt að síðan ég var lítill krakki. Ég held líka að þau hlakki bara til að komast í smá frí til Ítalíu,“ segir Davíð að lokum en hann flýgur til Amsterdam í kvöld og þaðan til Ítalíu.


„Við Keflvíkingar erum stoltir af tækifærinu að fá að taka þátt í að ala upp góða knattspyrnumenn eins og Davíð Snæ,“

– segir Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir.
Sigurður Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur.

„Það framlag sem Davíð Snær hefur lagt til meistaraflokks Keflavíkur þrátt fyrir ungan aldur er gríðarlegt,“ segir Sigurður en Keflavík hefur samþykkt tilboð Lecce í Davíð Snæ. Davíð á sinn þátt í að Keflavík er á þeim stað sem það er í dag, meðal bestu liða á Íslandi.“

Lecce reyndi að fá Davíð Snæ til liðs við sig á síðasta ári en á þeim tíma var Keflavík að berjast fyrir tilveru sinni í efstu deild og því mátti Keflavík ekki við því að missa jafn sterkan leikmann á þeim tímapunkti. Fleiri lið voru á höttunum á eftir Davíð en Keflavík hefur nú samþykkt tilboð Lecce og Davíð því á förum frá félaginu.

„Við Keflvíkingar erum stoltir af tækifærinu að fá að taka þátt í að ala upp góða knattspyrnumenn eins og Davíð Snæ,“ segir Sigurður jafnframt. „Þetta er samvinnuverkefni leikmanna og þjálfara og við erum ekki síður stoltir af hlutverki þjálfaranna okkar í uppeldinu því frá Keflavík hafa margir ungir leikmenn verið að fara í atvinnumennsku og fleiri eru að banka á dyrnar. Það er góður efniviður í Keflavík, Davíð er sönnun þess og við óskum Davíð Snæ og fjölskyldu hans til hamingju með áfangann,“ sagði Sigurður að lokum.

Tengdar fréttir