Útskrifuð úr Eldey
Kristín Örlygsdóttir og Ólafur Árni Halldórsson settust á nýliðnu ári að í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú. Sápan er fyrirtæki Ólafs Árna en Kristín er með fyrirtækið Blámar. Þessi tvö fyrirtæki hafa vaxið hratt síðan þau settust að í frumkvöðlasetrinu og þau hafa nú flutt starfsemina úr Eldey. Ólafur Árni er að flytja Sápuna í húsnæði við Brekkustíg og Kristín er að opna fiskvinnslustöð við Bakkastíg þar sem fyrirtæki hennar mun framleiða þær afurðir sem Blámar er með á markaði. Dagný Gísladóttir er verkefnastjóri hjá Heklunni og hefur umsjón með þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem setjast að í Eldey. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með Kristínu, Ólafi Árna og Dagnýju á þessum tímamótum þegar tvö fyrstu fyrirtækin eru að „útskrifast“ úr frumkvöðlasetrinu eftir að Heklan tók við rekstri setursins.
Sápan fimmfaldaði veltuna
Ólafur Árni fékk starfsleyfi fyrir Sápuna í frumkvöðlasetrinu Eldey í mars á sl. ári. Áður hafði hann verið við sápuframleiðslu og þróun í eldhúsinu heima hjá sér. Það þarf ekki að hafa mörg orð um vöxt fyrirtækisins frá því það settist að í Eldey snemma á síðasta ári. Reksturinn fimmfaldaðist á nýliðnu ári og nú er svo komið að fyrirtækið er að hreiðra um sig við Brekkustíg 41 í sama húsi og Netaverkstæði Suðurnesja.
Vinsælustu sápurnar sem Sápan framleiðir eru með tengingar við eldgos. Önnur þeirra heitir Eyjafjallajökull en hin Gjóska en stærstur hluti af framleiðslu Sápunnar fer í ferðamannaverslanir á landinu.
Þessa dagana er Ólafur Árni einnig að vinna með hraunefni af Reykjanesinu þannig að í boði verði sápur unnar úr efnum úr nýjum jarðvangi sem unnið er að á Reykjanesi. Þá hefur hann jafnframt verið að leika sér með áferð í sápunni og búið til sannkallaða norðurljósasápu sem vakið hefur athygli.
Sápan er einnig að fara í framleiðslu á fljótandi handsápum og nokkrum gerðum af hársápu. Í nýrri aðstöðu fyrirtækisins við Brekkustíg 41 verður hægt að taka á móti ferðamönnum og þar verður sérstök verslun fyrir þá.
Blámar í útflutning
Kristín Örlygsdóttir er með fyrirtækið Blámar og settist að í Eldey á miðju síðasta ári. Fyrst hafði hún verið með starfsemina heima hjá sér. Þegar umfangið varð meira á rekstrinum þurfti meira næði fyrir skrifstofuhaldið og því var skrifstofa í Eldey góður kostur. Blámar er í úrvinnslu og sölu á sjávarfangi ýmiskonar og er með nokkra vöruflokka á innanlandsmarkaði. Nú er Blámar kominn í samstarf við Ósk ehf. um samnýtingu á húsnæði við Bakkastíg þar sem Ósk hefur verið að rækta og framleiða bláskel. Blámar hefur ráðið til sín 4 nýja starfsmenn og er að fara í frekari framleiðslu í fiski með því að kaupa hráefni beint af markaði. Þá er Blámar kominn með verkefni utan landsteinanna.
Kristín segir mikla vitundarvakningu vera á Suðurnesjum í tengslum við fiskvinnslu og þá hrósar hún Fisktækniskólanum í Grindavík sem hafi opnað augun hjá ungu fólki fyrir því að það eru tækifæri í sjávarútvegi og góð laun í boði. Þörf sé fyrir sérmenntað fólk í fiskvinnslu t.a.m. í gæðastjórnun og önnur sambærileg störf.
Biðlistar eftir plássi í Eldey
Þó svo Sápan og Blámar hafi verið útskrifuð úr Eldey, þá stóðu starfsstöðvar fyrirtækjanna ekki lengi auðar. Starfsemi er þegar komin í þær báðar og segir Dagný Gísladóttir, verkefnastjóri í Eldey, að nú séu biðlistar eftir plássi og eftirspurnin mikil. Dagný sagði að mikið væri að gera hjá öllum þeim litlu sprotum sem sett hafa sig niður á Ásbrú og mikill vöxtur hjá þeim aðilum sem eru í Eldey. Hún sagði Eldey vera nokkurs konar stoppistöð fyrir fyrirtæki og frumkvöðla. Þau komi og fari og það sé markmiðið að fyrirtækin nái að vaxa og dafna í Eldey og geti svo flutt sig í stærra húsnæði og haldið áfram að blómstra.
Kristín Örlygsdóttir segir að það hjálpi fyrirtækjum í sínum fyrstu skrefum að fá aðstöðu eins og í Eldey, þar sem í boði er ódýrt húsnæði og hægt að nálgast góða leiðsögn. Það sé gott fyrir fyrirtæki á fyrstu metrunum að hafa lágan rekstrarkostnað, að fá tilfinningu fyrir markaðnum og að frumkvöðlarnir geti greitt sér laun.
Þjónusta Heklunnar
Heklan styður bæði við ný sprotafyrirtæki sem og fyrirtæki í nýsköpun og starfsvæði hennar er öll Suðurnes.
Stuðningur við frumkvöðla felst m.a. í leigu á aðstöðu í þróunarsetrinu Eldey en þar er jafnframt boðið upp á ráðgjöf, fræðslu og námskeið.
Ráðgjafar Heklunnar veita aðstoð við gerð viðskiptaáætlana, markaðsáætlana og veita viðtöl og ráðgjöf til þess að fylgja nýsköpunarverkefnum eftir.
Heklan hefur umsjón með Vaxtarsamningi Suðurnesja og Menningarsjóði Suðurnesja og veitir jafnframt aðstoð við umsóknir um styrki í aðra sjóði.
Boðið er upp á fjölbreytta kynningarfundi, fræðslu og námskeið en að auki er Heklan tengiliður við stoðkerfið.
Heklan er í Eldey
að Grænásbraut 506 á Ásbrú. Síminn er 420 3288 og póstfangið [email protected].