Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Uppbygging á Vallarheiði heldur áfram þrátt fyrir efnahagsþrengingar
Fimmtudagur 30. október 2008 kl. 10:32

Uppbygging á Vallarheiði heldur áfram þrátt fyrir efnahagsþrengingar


- höfum alla burði til að vera eitt mesta vaxtarsvæði landsins, segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri KADECO.


Suðurnesjamenn gengu í gegnum krýsu fyrir tveimur árum síðan þegar Varnarliðið yfirgaf herstöðina á Keflavíkurflugvelli. Heimamenn ákváðu að nýta krafta sína til uppbyggingar og horfa í tækifærin. Í dag erum við að ganga í gegnum svipaða hluti og við verðum að sjá tækifærin sem framundan eru, þrátt fyrir erfiðleikana, segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Hann segir jákvæðni hafa verið vopn sem menn nýttu þegar Varnarliðið fór. Því eigi að beita núna og leggja verði áherslu á að menn máli ekki ástandið of dökkum litum. Suðurnesjamenn búi yfir fjölmörgum tækifærum sem verði að nýta til uppbyggingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þarf að skerpa á verkefnum

„Það eru gríðarleg tækifæri á þessu svæði. Við höfum alla burði til að vera eitt mesta vaxtarsvæði landsins. Það þurfa hins vegar allir að leggja sitt af mörkum. Ég er ekki að fara fram á tilslakanir á lagalegum þáttum, heldur að hlutir fái að vera í sínu ferli. Það þarf að skerpa á ákveðnum hlutum eins og t.a.m. verkefninu varðandi uppbyggingu álvers í Helguvík. Þess vegna þurfum við öll að leggjast á eitt að vinna málum gott brautargengi til framtíðar,“ segir Kjartan Þór í viðtali við Víkurfréttir. Kjartan fer fyrir Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar [KADECO] sem ætlar í ljósi efnahagsástandsins að blása til sóknar og flýta ýmsum framkvæmdum á Vallarheiði og skapa þannig verkefni fyrir fyrirtæki og um leið að auka verðmæti eigna sinna á svæðinu.

Efnahagsþrengingar koma ekki á óvart

Þrátt fyrir miklar breytingar á efnahagslífi þjóðarinnar á örskömmum tíma, þá láta stjórnendur KADECO þær ekki koma sér á óvart. Þeir voru reyndar vel undirbúnir eftir að hafa farið óhefðbundna leið í stefnumótun fyrir félagið. Kallaðir voru til lykilaðilar úr samfélaginu og hugsuðir á ýmsum sviðum til skrafs og ráðagerða. Farið var í svokallaða sviðsmyndavinnu þar sem greindar voru megin breytur í framtíðarsýninni og stærstu breyturnar teknar út og unnið nánar með þær. Útkoman varð listi yfir það hvernig svæðið gæti litið út árið 2020.

„Í þessu verkefni unnum við síðan dæmisögur um það hvernig framtíðin gæti litið út eftir 12 ár árið 2020. Vinna við þetta verkefni hófst í nóvember á síðasta ári og lauk í apríl í vor. Verkefnið byggir m.a. á því að setja upp bjartsýnisspár og svartsýnisspár og meðal annars var unnið með nokkuð ýkt dæmi,“ segir Kjartan Þór. Eitt þeirra í svartsýnisspánni hafi mönnum þótt fjarstæðukennt og hafi gantast með það. Sú dæmisaga sé hins vegar næst því ástandi sem ríkir á Íslandi í dag, örfáum mánuðum eftir að vinnunni lauk. „Við töldum það mjög fjarri að sjá þær aðstæður koma upp. Með því að hafa farið í gegnum sviðsmyndaverkefnið, þá erum við hins vegar með verkfæri sem gerir okkur hæfari að takast á við aðstæðurnar og sveigja okkur eftir aðstæðum í þjóðfélaginu. Við getum byggt ofan á þá vinnu sem hefur farið fram og miðum stefnu KADECO við hvernig næstu misseri líta út“.

Kjartan segir að KADECO gerði ráð fyrir að vinna eftir þeirri línu að útrásin væri að halda áfram. „Á undanförnum misserum höfum við hins vegar fundið að fjármagnsmarkaðir hafa verið að lokast. Þá förum við að rýna betur í söguna og vinna viðbrögð miðað við það“.


Fókusinn á frumkvöðlastarf

Þegar ljóst var að frekari eignir væru ekki að seljast hafi fókusinn verið settur á að ýta undir frumkvöðlauppbyggingu. KADECO kemur að því frumkvöðlastarfi sem er að hefjast hjá Eldey í byggingu 506 á Vallarheiði. „Við erum að skoða það alvarlega núna að taka meira húsnæði undir frumkvöðlastarfið og einnig tæknigarða sem myndu taka við þeim fyrirtækjum sem koma út úr frumkvöðlasetrinu,“ segir Kjartan Þór.


Skapa aukin verkefni

Með því að taka meira húsnæði undir frumkvöðlastarfið er Þróunarfélag  Keflavíkurflugvallar að skapa aukin verkefni fyrir m.a. iðnaðarmenn á Suðurnesjum. Félagið sé einnig að auka verðmæti sinna eigna og byggja þær upp til framtíðar. Verið sé að taka í gegn húsnæði sem muni nýtast vel þegar ástandið á mörkuðum lagast. KADECO horfir til þess að vera þá komið með virðismeira húsnæði sem félagið geti selt. Þá vonist menn til þess að út úr frumkvöðlasetrinu komi fyrirtæki sem mögulega nái að festa hér rætur til framtíðar.




Blönduð verkefni í Eldey

Þegar við flest hugsum um orðið frumkvöðull þá sjáum við fyrir okkur aðila sem á engan pening, góða hugmynd en mikinn vilja til að koma henni í framkvæmd. „Að hluta til er þetta rétt. Hins vegar eru til sterk og öflug fyrirtæki sem jafnvel eru með hundruð milljóna króna í eigið fé og eru með stórar hugmyndir um rannsóknir og þróun. Verkefnin sem eru í Eldey eru blanda af þessu, þ.e. verkefni með lítið fjármagn og önnur sem hafa mikið fjármagn. Verkefnin sem eru að koma inn í Eldey eru til 618 mánaða. Við viljum hins vegar skapa þær aðstæður að eitthvað af þessum fyrirtækjum festi hér rætur. Við viljum velja verkefni til áframhaldandi uppbyggingar. Þó svo töluverð breidd sé í þeim verkefnum sem koma inn í Eldey reynum við að vera fókuseruð og nefni þar t.a.m. á sviði orkuvísinda. Við viljum byggja á þekkingu á svæðinu,“ segir Kjartan Þór.


Engin ástæða til að slá af

Kjartan Þór segir að þrátt fyrir þá stöðu sem nú sé komin upp í efnahagsmálum þjóðarinnar þá sé engin ástæða til að slá af í þeim verkefnum sem unnið sé að á Vallarheiði og í því starfi sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar kemur að. Nú sé ástæða til að grípa tækifærin og hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd. KADECO hafi sett skammtímaplön í gang en sé einnig að horfa til langs tíma. Í dag búa 1850 manns á Vallarheiði og þar sé að verða til myndarlegt samfélag í svokölluðum háskólacampus. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir íbúafjölda upp á 1700 - 2000 manns á fimm árum og að 12 stórum verkefnum væri landað á hverju ári. Staðan í dag sé langt umfram væntingar.

„Hérna er meðal annars mikið af fólki í doctors og mastersnámi á ýmsum sviðum. Við viljum að þetta fólk festi hér rætur og hér verði myndarlegt samfélag og fjölbreytt störf í boði fyrir mismunandi menntunarsvið“.

Umbreyting herstöðvar

Kjartan Þór leggur áherslu á að öflugir aðilar hafi komið að þessu verki sem umbreyting gömlu herstöðvarinnar sé og mikil þekking sé til staðar á svæðinu.
„Við höfum lagt meiri áherslu á uppbyggingu stoðþjónustu og þ.a.l. hafa önnur verkefni fengið minni áherslu, eins og t.d. mengunarmál. Reykjanesbær hefur komið öflugur inn í samfélagsþjónustu á Vallarheiði. Langbest hefur opnað glæsilegan veitingastað sem gerir mikið fyrir samfélagið. Samkaup hefur verið með verslunarrekstur frá upphafi og ýmsir aðrir aðilar eru að leysa sitt hlutverk gríðarlega vel“.


Í takti við upphafleg áform

Þar sem uppbygging á Vallarheiði er mun hraðari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir hafa menn hliðrað til í áætlunum. Uppbyggingin og sú mynd sem komin er á hana í dag er hins vegar alveg í takti við það sem lagt var upp með í upphafi.

Gagnaver, Keilir, Háskólavellir og Tæknivellir. Allt er þetta starfsemi sem menn vildu sjá úr upphaflegum plönum að yrði á Vallarheiði. Það þurfi að halda áfram uppbyggingunni.


Heilbrigðistengd ferðaþjónustua

„Þrónunarfélag Keflavíkurflugvallar er nú að skoða heilbrigðistengda ferðaþjónustu í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og fleiri leiðandi aðila á hverju sviði fyrir sig,“ segir Kjartan og nefnir m.a. Bláa lónið til leiks. „Við viljum byggja á því sem fyrir er á svæðinu, auk þess að opna fyrir ný tækifæri til þróunar“.


Skipt um raflagnir og endurbætur eigna

Af framangreindu má vera ljóst að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ætlar hvergi að slá af í þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað á Vallarheiði. Það sem nefnt hefur verið hér að framan tekur einhvern tíma að verða að veruleika. Varðandi verkefni á komandi vetri segir Kjartan Þór að KADECO hafi breytt áætlunum í ljósi aðstæðna. Ýmsum verkefnum verði flýtt. Farið verði hraðar í umbreytingu rafdreifikerfis og í að breyta raflögnum í húsnæði í umsjón KADECO. Þá verði farið í framkvæmdir við að aðlaga húseignir, gera á þeim endurbætur og auka virði þess húsnæðis. KADECO mun styðja við frumkvöðlaverkefni í vetur. Verkefni verði skilgreind þannig í vetur að menn hafi hag af þeim. Þannig er unnið að skilgreiningu lykilþátta í heilbrigðistengdri starfsemi og er að vænta tíðinda í þeim málum í kringum áramót.




Einn milljarður á ári á svæðið

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur verið að skila töluverðum tekjum inn í ríkissjóð en félagið er einnig með stóran rekstrarreikning. Þannig er áætlað að KADECO verji um einum milljarði á ári í rekstur eigna í gömlu herstöðinni, endurbætur og viðhald. Þetta séu fjármunir sem séu að skila sér inn á svæðið. Markmiðið sé að nýta eignir og skapa virði. „Hér erum við að skapa grundvöll til framtíðar. Við erum að skapa grundvöll til fjárfestinga hjá einkaaðilum. Það kostar fjármuni að landa þeim verkefnum sem við vinnum að en umfram allt erum við að nýta hér fjármuni á skynsaman hátt. Við erum að fjárfesta til framtíðar á þessu svæði sem hefur gríðarleg tækifæri og alla burði til að vera mesta vaxtarsvæði landsins,“ sagði Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar í Víkurfréttaviðtali.

Viðtal og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson