Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Landris við Þorbjörn heldur áfram á sama hraða
Nýjasta gervitunglamynd síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 sm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn.
Miðvikudagur 1. nóvember 2023 kl. 12:52

Landris við Þorbjörn heldur áfram á sama hraða

Engin skýr merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborð

Nýjasta gervitunglamynd síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 sm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn. Sama aflögunarmerki sést á GPS mælingum á svæðinu og nýjustu GPS-mælingar frá því í morgun sýna að hraði aflögunarinnar er svipaður síðustu daga. Veðurstofa Íslands greinir frá þessu.

Þegar jarðskjálfta-, aflögunar- og gervitunglagögn eru túlkuð saman er ályktað að kvikuinnskot sé til staðar á um 4 km dýpi norðvestan við Þorbjörn. Staðsetning kvikunnar er óbreytt frá því í gær þegar vart var við kvikuhreyfingar á svæðinu. Þá um morguninn hófst ör skjálftavirkni sem var merki um kvikuhlaup og stóð það yfir í um 2 klukkustundir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nýjustu gögn gefa ekki til kynna að kvika sé að brjóta sér leið grynnra í jarðskorpunni en staðan getur hinsvegar breyst hratt.

Áframhaldandi skjálftavirkni á Reykjanesskaga

Frá því á miðnætti hafa hátt í 500 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga, flestir þeirra nærri Eldvörpum um 3 km vestan við Þorbjörn. Stærsti skjálftinn var 3,7 að stærð kl. 00:56.

Gera má ráð fyrir að jarðskjálftavirkni haldi áfram norðvestan við Þorbjörn og skjálftar yfir 4 að stærð gætu fundist í byggð.

Einnig má gera ráð fyrir gikkskjálftavirkni á næstu dögum vegna þess að kvikuinnskotið veldur aukinni spennu á svæðinu. Það er líkleg útskýring á jarðskjálftavirkni nærri Eldvörpum í dag, 1 nóvember.

Mikilvægt er að benda á það sem áður hefur komið fram að atburðarrásin á svæðinu við Þorbjörn er hluti af margþættu ferli kvikuhreyfinga í jarðskorpunni á Reykjanesskaga. Þessi ferli hafa áhrif á stóru svæði, þar á meðal Fagradalsfjall (þar sem þensla heldur áfram - síðan í ágúst 2023) og getur sú kvikusöfnun einnig valdið gikkskjálftum.

Nýjasta gervitunglamynd síðan í gærkvöldi (31. október), sýnir 5-6 sm aflögun á 12 daga tímabili með miðju norðvestan við Þorbjörn. Mynd: Veðurstofa Íslands