Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Elstu menn muna ekki annað eins fiskirí
Áhöfnin. Frá vinstri: Magnús Kristján Guðmundsson, yfirvélstjóri, Halldór Kristinn Valdimarsson, skipstjóri, Gabríel Ari Tryggvason, háseti, Veigar Þór Gissurarson, matsveinn, Jóhann Ingi Grétarsson, yfirstýrimaður, og Andri Smári Hilmarsson, háseti.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 7. apríl 2023 kl. 06:36

Elstu menn muna ekki annað eins fiskirí

Benni Sæm þurfti að forðast þann gula og var að reyna við kola.

Vertíðarbátarnir á SV-horni landsins liggja flestir við höfn þessa dagana þar sem hrygningarstoppið er í gangi og verður til 21. apríl. Litla stoppið svokallaða, hófst 1. apríl en þá mega bátar ekki veiða innan þriggja sjómílna. 12. apríl hefst svo stóra stoppið, þá mega bátar ekki veiða innan tólf sjómílna. Þriðjudaginn 28. apríl kom snurvoðabáturinn Benni Sæm í land í Sandgerði en það er Nesfiskur í Suðurnesjabæ sem gerir bátinn út. Þetta var síðasti róður Benna fyrir stopp svo mannskapurinn var í góðu stuði. Skipstjórinn heitir Halldór Kr. Valdimarsson og hefur verið á snurvoð í rúm þrjátíu ár.

Halldór Kr. Valdimarsson.

Halldór sagðist ekki muna annað eins fiskirí eins og verið hefur í vetur. „Við vorum með tíu tonn í dag, uppistaðan koli. Við erum að reyna forðast þorskinn því kvótastaðan er þannig. Ég hefði getað fyllt bátinn nokkrum sinnum ef ég hefði mátt veiða þorsk, ég man ekki eftir öðru eins fiskeríi og í vetur. Það var mjög gott í fyrra en vertíðin í ár hefur verið enn betri. Veiðin hófst í nóvember má segja, þá var nóg af fiski inni í Flóa og svo er hann bara hér rétt utan við Garðskaga. Ég þarf ekki að fara nema tæpan klukkutíma frá Sandgerði og þegar hefur gefið á sjóinn er alltaf mok. Það gerði brælu um daginn en frá og með miðjum febrúar hefur meira og minna verið hægt að róa og alltaf fiskirí, hverju hægt er að þakka skal ég ekki segja til um, líklega bara gott fiskveiðistjórnunarkerfi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Hásetarnir Gabríel Ari og Andri Smári eru í lestinni þegar landað er.

Kokkurinn getur opnað niðursuðudós

Halldór lýsti hvernig dagurinn gekk fyrir sig. „Við mættum kl. sex, tveir skipverja búa í bænum og höfðu komið kvöldinu áður og sváfu um borð. Það kemur bíll frá Nesfiski og sækir okkur hina, þrír búa í Reykjanesbæ og sjálfur bý ég í Garði. Þegar búið er að ýta á takkann á kaffivélinni er sleppt og við sigldum tæpan klukkutíma áður en við köstuðum snurvoðinni. Venjulega erum við að toga í einn og hálfan tíma og þá er híft, gengið frá aflanum og svo koll af kolli. Við tókum sex höl þennan dag en þessi veiðiskapur er háður dagsbirtunni. Yfir dimmustu mánuðina getum við kannski bara híft þrisvar til fjórum sinnum. Við reynum að miða hádegismatinn við sjálft hádegið en við látum það svo sem ekki ganga fyrir, veiðarnar eru auðvitað í forgangi.“

Við spurðum Halldór út í kokkinn, hvort hann væri fínn eða hvort hann gæti varlað opnað niðursuðudós. „Kokkurinn er mjög góður, getur hent í góðan lambahrygg eða aðra veislu en í dag átti einn skipverja afmæli, þá er regla hjá okkur að boðið er upp á pylsur. Svona gengur svo dagurinn fyrir sig, við erum venjulega seinni partinn í landi aftur en það getur auðvitað teygst eins og núna, við renndum í höfn um sjöleytið,“ sagði Halldór.

Magnús Kristján Guðmundsson sér venjulega um að hífa þegar landað er.

Kolinn í Miðnes

Eins og áður kom fram gerir Nesfiskur Benna Sæm út. Fyrirtækið er með mest af starfseminni í Garði, þangað fer t.d. allur þorskurinn en Miðnes, dótturfyrirtæki Nesfisks, tekur kolann. Það er Elfar Borgþórsson sem stýrir Miðnesi, hann fór yfir vinnsluferlið á kolanum og hvert hann fer. „Við tökum allan kolann af bátunum en mest er þetta skarkoli eða rauðspretta eins og fiskurinn er oftast kallaður. Svo er eitthvað af öðrum kolategundum en við tökum flestar af þessum aukategundum, eins og steinbít. Kolinn er að mestu leyti handflakaður, það er bara minni kolinn sem fer í flökunarvél og svo er allur gangur á því hvort kúnninn vilji hann með roði eða án. Við erum með roðvél og svo eru flökin einfaldlega snyrt á snyrtiborðinu, þeim pakkað og langmest fer ferskt í flug. Stutt fyrir okkur að flytja afurðirnar í flug þar sem flugvöllurinn er í landi Suðurnesjabæjar. Mest af kolanum fer á Bretland og Írland, eitthvað fer til Ameríku og á meginland Evrópu,“ sagði Elfar.

Elfar Borgþórsson.