Umbætur og lýðræði
Umbótanefnd Samfylkingarinnar hélt fund í Sandgerði í síðustu viku og vonandi veit það á gott fyrir bæjarfélagið okkar. Það er gott að fara í gegnum ástæður hrunsins á gagnrýnin hátt til að læra af þeim mistökum sem gerð voru í stjórnsýslunni til að forða okkur frá því að gerð verði sömu mistök aftur.
Lýðræði er eitt af því sem talið hefur verð ábótavant hér á landi og í Umbótaskýrslu Samfylkingarinnar kemur meðal annars fram að eitt af því sem talið er nauðsynlegt að laga er að lýðræðislegar samþykktir hjá stofnunum flokksins séu í heiðri hafðar hjá fulltrúum flokksins á þingi og í ríkisstjórn.
Almenningur hefur mikið rætt um það eftir hrun að forsenda þess að hægt sé að byggja upp nýtt Íslands sé að samspillingu og einkavinavæðingu verði hætt. Almenningur hefur einnig talað um og krafist þess að endurskoða yrði þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið og hér á landi og í stað skoðanakúgunar og einræðistilburða verði byggt upp nýtt Ísland þar sem lýðræðisleg vinnubrögð eru höfð að leiðarljósi.
Undirritaður tók þá ákvörðun síðast liðið haust að styðja tillögu frá minnihlutanum í atvinnu- og hafnaráði Sandgerðisbæjar um að ráða verkefnisstjóra á höfnina. Tillagan var bæði tímabær og góð að mínu áliti. Ég hef lengi talað fyrir því að nauðsynlegt væri að fá til starfa mann á höfnina með þekkingu og reynslu til að bæta þjónustu hafnarinnar, efla atvinnulíf í tengslum við höfnina og þar með tekjur bæjarfélagsins. Tillagan var samþykkt í ráðinu með atkvæðum minnihlutans og mínu. Bæjarstjórn felldi síðan þessa tillögu en í kjölfarið var lögð fram samskonar tillaga frá meirihluta bæjarstjórnar. Hún var að sjálfsögðu samþykkt enda var hún þá lögð fram af réttu mönnunum í rétta flokknum.
Mér þótti eftir þessa uppákomu, símhringingar og hvatningu frá nokkuð stórum hóp bæjarbúa siðferðileg skilda mín að skrifa greinar um það sem betur hefði og mætti fara í stjórnsýslu bæjarins. Svona vinnubrögð hafa viðgengis alltof lengi og eiga meðal annars þátt í því ófremdarástandi sem ríkir í bæjarfélaginu á mörgum sviðum. Það er að mínu mati nauðsynlegt að fortíðin verði gerð upp með þeim hætti að viðurkennd verði þau mistök sem ég tel að gerð hafi verið í stjórnsýslu bæjarfélagins síðustu tvö kjörtímabil.
Greinarskrifin féllu ekki í góðan jarðveg og urðu til þess að oddviti Samfylkingarinnar hringdi í mig og lét mig vita af því að meirihlutinn hefði tekið ákvörðun á fundi hjá bæjarmálafélagi Samfylkingarinnar að reka mig úr atvinnu- og hafnarmálanefnd bæjarins, þar sem ég hef átt sæti í 29 ár. Ég hefði kosið og tel að það hefði borðið vott um heiðarleg og lýðræðisleg vinnubrögð ef bæjarmálafélagið hefði séð sóma sinn í því að leyfa mér að segja frá minni hlið varðandi þetta mál. Bæjarmálafélagið hefði getað gert þetta með því að gefa mér kost á því að mæta á fundinn eða gefa mér kost á því að senda inn skriflega yfirlýsingu sem lesin hefði verið upp á fundinum.
Ég tel að ég hafi ávallt haft hagsmuni hafnarinnar, bæjarfélagsins og bæjarbúa að leiðarljósi í vinnu minni fyrir bæjarfélagið mitt.
Góðir Sandgerðingar því mun ég mun halda áfram að leggja mitt að mörkum til að gera gott samfélag betra með því að skrifa fleiri greinar. Ég mun skrifa um hvernig hægt er að auka tekjurnar og hvar er hægt að spara í rekstri bæjarfélagsins.
Lýðræðið lifi,
Grétar Mar.