Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 12. júní 2003 kl. 14:10

Þotugnýr og þrastarsöngur

Í dagrenningu hvítasunnunnar við þotugný horfði ég í augu lítillar fallegrar dótturdóttur minnar. Fegurð hennar og sakleysi lýsti upp svefndrukkin augu afans. Það sem vakti hugrenningarnar þennan annars fallega morgun var þotugnýrinn. Hljóð sem fast er orðið í hugum okkar og eyrum sem hér búa. Hljóð sem tengist æskuminningum og hét þrýstiloftshljóð, sem óðar en varði tók við af taktföstu hljóði skrúfuvélanna á „Vellinum“. Sambland þessara hljóða ásamt hvítu og grænu leiftri flugvitans efst á vatnstanki flugvallarins, sem leiftraði á myrkum götum, hornum og skúmaskotum gamla bæjarins okkar, er hluti af lífi okkar. Leikfélagar og vinir sem ekki gátu alltf skilið hvor eða hver annan notuðu leikinn sem túlk. Leikurinn skýrði margt, vináttubönd mynduðust, en slitnuðu þegar herskyldan kallaði hermanninn og föðurinn annað. Þetta voru oftast sumarleikir, því skólinn skyldi vini að og annars konar skólastarf var upp á heiðinni. En ævintýrin gerðust hér á sumrin, leikvöllurinn fjaran, heiðin, bryggjan og bátarnir voru ekki síður spennandi í augum „kananna“. Einstaka strákar kom í fótboltann okkar og voru liðtækir. Nokkrum árum seinna voru sumir þessara fyrrum vina okkar ekki lengur á meðal vor, fengu herkvaðningu og létu lífið fyrir fósturjörðina í Víetnam. Þar voru líka hálf-íslenzkir strákar, sem fermdust hér. Blessuð sé minning þeirra. Þegar mest lét var talið að um fjórðungur íbúa Keflavíkur væru varnarliðsmenn í leiguíbúðum. Margir þeirra voru hreinir og beinir ameríkanar, einstaka af norrænum ættum ekki langt aftur talið, sumir innfæddir þ.e.a.s. af indíánaættum, aðrir af gyðingaættum og enn aðrir sem áttu íslenzka að. Fjölbreytileikinn var með ólíkindum. Skyldu engir þeirra hafa bundist vináttuböndum við heimamenn? Voru þetta allt menn sem við vildum hafa annars staðar en hér? Var hernámsliðið óværan í hreinræktaða landinu? Fyrirheitna landið var í augum okkar strákanna „Völlurinn“ með stóru vaffi, þangað var margt að sækja, bíóið þeirra með bezta poppkorni sem til var, gos í dósum í kassavís, þar óku um bílar fullir af sælgæti af öllum beztu tegundum sem hvergi fengust nema þar og í Ameríku. Þá má ekki gleyma að minnast á „hasarblöðin Dell eða Comic“ , þau fengust ódýrt í óheyrilegu magni. Þau seldust síðan vel fyrir fjögur-sýningu í Nýja-Bíó á Roy Rogers eða Jungle-Jim á sunnudögum, ef þau voru slétt. Þau krumpuðu gengu einnig út, en það var verra að „býtta“ þeim. Eldri og reyndari í strákagengjunum töldu þeim yngri trú um stórhættulegar tjörugildrur í heiðinni og enginn skyldi voga sér að fara inn fyrir girðingu nema vita hvar gildrurnar væru. Mjög margir okkar, sem lékum saman á þúsund polla götunni, sem Kristinn Reyr orti um, en nú er verið að helluleggja, hún var reyndar nýmalbikuð að hluta í endurminningunni, sóttum síðar vinnu á völlinn ýmist til „Hersins“ eða „Verktakanna“. Þar minnist ég þess að a.m.k. tveir núverandi stjórnarþingmenn unnu á sama stað hjá verktökunum ásamt mér og fleiri ungum mönnum bæði af Reykjavíkursvæðinu og hér af Suðurnesjum, en það voru þeir Hjálmar Árnason og Davíð Oddsson. Samfélagið sem sendi hljóðin og ljósin yfir næsta umhverfi, hefur mikið breytzt í tímanna rás. Þeir sem þar bjuggu í fyrstu, voru nánast allt hermenn án fjölskyldna. Þá kom tímabil, þar sem hluti þeirra var með fjölskyldu. Hin síðari ár hefur samsetningin orðið sú að fjölskyldur hermanna fylgja þeim og hermenn geta líka verið kvenmenn. Húsnæði hermannanna og búseta fjölskyldna þeirra hefur nú um alllangt skeið verið allt innan girðingar og mjög fáir búa utan hennar. Hugrenningar mínar snerust um endurminningar í þotugný, þar sem áhyggjur vegna allra þeirra sem gætu átt það á hættu að missa atvinnuna, ef herinn héldi á brott með stóran hluta af varnarvirkinu, sem reist var á svæði Kölku. Kalka var varða, hvítmáluð(kölkuð), á efsta hæðarpunkti heiðarinnar sem herstöðin er byggð á. Hún var notuð m.a. sem mið á fiskibátum fyrrum. Hvernig brugðist yrði við þeirri vá? Vonandi ekki á nótum „Vinstri grænna“, sem sjá menn fyrir sér knékrjúpandi. Það er með ólíkindum að þingmenn úr þeirra flokki, sem gerðu allt sem þeir gátu til að halda sex stólum sínum á Alþingi, en geta ekki skilið að 1700 menn vilji halda í vinnu sína hér á Vellinum. Þeim er annara um hreiðurstæði heiðargæsarinnar vegna virkjana, heldur en lifibrauði 1700 manna í byggð. Hér yrði málið öllu alvarlegra, en á Raufarhöfn, svo dæmi sé tekið, án þess að gera lítið úr þeirra vanda. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum þurfa ekki síður en ríkisstjórnin að koma saman og ræða málin af alvöru. Gera þarf stífar og ákveðnar kröfur á ríkisstjórnina, hæg ættu heimatökin að vera og fylgja því eftir að fá að sitja með ráðamönnum og setja fram kröfur á hvern hátt bezt verði brugðizt við þessum válegu tíðindum. Kröfur hljótum við að hafa á hendur vinaþjóð vorri og skyldur hennar hljóta einhverjar að vera miðað við aðstöðu frá 1941. Ég lít aftur í augu litlu fallegu stúlkunnar minnar, heyri þotugnýinn dofna og hverfa. Fagur morgunsöngur þrastarins í næsta húsi tekur við og hann syngur skærum, tærum, björtum rómi um framtíð unganna sinna.

Vilhjálmur Ketilsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024