Minningardagur fórnarlamba umferðarslysa við Ytri-Njarðvíkurkirkju á sunnudaginn
Nú styttist í alþjóðlegan minningardag fórnarlamba umferðarslysa sem verður haldin víðsvegar um landið sunnudaginn 16. nóvember næstkomandi, kl. 14:00. Í Reykjanesbæ verður komið saman við Ytri-Njarðvíkurkirkju.
Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa.
Auk þess að vera minningardagur hefur hér á landi skapast sú venja að tileinka daginn umfjöllun og forvörnum tiltekins áhættuþáttar sem valdið hefur banaslysum. Nú í ár er það notkun eins mikilvægasta öryggisbúnaðar bifreiða, sem eru öryggisbelti. Öryggisbelti minnka líkur á dauðsfalli í fólksbílum um allt að 45%. Koma hefði mátt í veg fyrir fjölda banaslysa og alvarlegra slysa ef öryggisbelti hefðu verið notuð.
Við ætlum að hittast í Ytri Njarðvíkurkirkju kl 13:40 og taka þátt í þessum degi og eru öllum sem vilja koma boðið að koma og vera með okkur á þessari stundu.
Séra Helga Kolbeinsdóttir mun aðstoða okkur í kirkjunni og svo mun kvennakór Suðurnesja flytja lagið „When i think of angels“ á slaginu kl 14:00 inni í kirkjunni og svo stefnum við á hópmyndatöku utandyra. Lagið er nokkurskonar einkennislag þessa viðburðar og verður það flutt á öllum viðburðunum og spilað á útvarpsstöðvum á slaginu kl 14:00 þennan dag.
Dagskrá:
13:40 Þyrla Landhelgisgæslunnar lendir við Ytri-Njarðvíkurkirkju (að öllu óbreyttu)
13:45 til 13:55 Þátttakendur safnast saman í kringum þyrlu og ökutæki viðbragðsaðila og hópmynd tekin.
14:00 Kvennakór Suðurnesja flytur lagið „When i think of angels“ inni í kirkjunni
14:05 Minningarathöfn sett – séra Helga Kolbeinsdóttir og ræðumaður munu fara með nokkur orð
Öllum boðið í kaffi og kleinur í safnaðarheimili Ytri-Njarðvíkurkirkju að athöfn lokinni.
https://island.is/s/samgongustofa/minningardagur
Sigvaldi Arnar Lárusson,
aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.







