Félag hrossabænda heiðrar Brynjar Vilmundarson
Brynjar Vilmundarson hefur hlotið heiðursverðlaun Félags hrossabænda á hrossaræktarráðstefnu fagráðs í hrossarækt fyrir einstakt ævistarf í þágu ræktunar íslenska hestsins. Brynjar rak hrossaræktarbúið Fet þar sem hann ræktaði hundruð gæðinga, þar á meðal fjölda verðlaunahrossa og heiðursverðlaunahryssna og stóðhesta, og hlaut Fet margoft viðurkenninguna Ræktunarbú ársins. Árangur Brynjars hefur markað djúp spor í íslenska hrossarækt og mun áhrifa hans gæta í stofninum um ókomin ár. Greint er frá heiðursverðlaununum á vef Eiðfaxa og þar er ítarlega fjallað um feril Brynjars.
Það voru fleiri Suðurnesjamenn verðlaunaðir og árangur Mánamanna var góður. Margeir Þorgeirsson og Ástríður Lilja Guðjónsdóttir á Vöðlum fengu tilnefningu sem ræktunarbú ársins. Bragi Guðmundsson og Valgerður Þorvaldsdóttir ásamt Sveinbirni syni þeirra fengu tilnefningu fyrir stóðhest með 1. verðlaun fyrir afkvæmi.




