Stjórnun fiskveiða í skötulíki
Stjórnun fiskveiða verður að byggja á þekkingu, ekki póltík. Byggja verður ákvörðun um heildarafla á bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni, en síðan er það hlutverk stjórnmálamanna að ákveða hvernig eigi að veiða hann. Sem kunnugt er hrundi þorskstofninn við Kanada snemma á 10. áratugnum vegna ofveiði og samkvæmt nýlegum skýrslum er þorskur sagður vera í útrýmingarhættu þar við land. Er það sama að gerast á Íslandsmiðum? Á Íslandi leggja fiskifræðingar nú til minni veiði af þorski, því komið hefur í ljós að staða stofnsins er fremur slök en ekki góð eins og menn héldu. Spurningar vakna. Af hverju voru stofnanir ofmetnir? Á sér stað umtalsverð ofveiði á Íslandsmiðum sem enginn þorir að viðurkenna og bera ábyrgð á? Fyrir leikmenn virðist stjórn fiskveiða á Íslandi vera í skötulíki. Um brottkast afla á Íslandsmiðum sagði Morgunblaðið m.a í forystugrein fyrir tæpu ári: "Flestum svíður sú sóun, sem brottkast á fiski er í raun, en hins vegar hefur verið ill mögulegt að fá haldbærar upplýsingar um umfang brottkastsins." Fyrrverandi sjávarútvegsráðaherra, Þorsteinn Pálsson, afgreiddi spurningu um brottkast afla á Íslandsmiðum þannig að það væri ólöglegt. Svo mörg voru þau orð og íslenskir fjölmiðlar, vana sínum trúir, létu kjurrt liggja. Hafrannsóknarstofnun hefur ekki haldbærar upplýsingnar um brottkast afla við Ísland og virðist ekki geta gert viðeigandi ráðstafanir til að meta þá stærð á vísindalegan hátt. Hver er ábyrgur? Í umræðum um brottkastið í fyrra komst forstjóri Hafró upp með það í viðtali við Morgunblaðið að draga órökstutt í efa að brottkastið sé jafn umfangsmikið og fullyrðingar hafa heyrst um, eða "60-100 þúsund tonn af þorski árlega." Sú napra staðreynd blasir nú við að þorskstofninn minnkar á Íslandsmiðum þrátt fyrir kvótakerfið, sem stjórnvöld telja besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi og hugmyndafræðingur ríkisstjórnarinnar rómar í útlöndum. "Lausleg athugun" Hafrannsóknarstofnunar er hvorki þekking né vísindi sem skiptir verulegu máli í þessari umræðu og fjárhagsleg sjónarmið tala gegn útvegsmönnum í málinu. Það er augljós þörf útgerðarinnar að ná fram hámarksnýtingu og hámarksaflaverðmæti í hverri veiðiferð. Þar sem sjómenn eru alltaf ráðnir uppá aflahlut er það tekjuhvetjandi fyrir þá líka, a.m.k. tímabundið, að kasta "verri" afla fyrir verðmeiri. Kvótakerfið býður uppá vinnulag virðingarleysis fyrir auðlindinni og sjálfbærri nýtingu hennar. Yfirlýsing fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að brottkast eigi sér ekki stað vegna þess að það sé ólöglegt er brosleg. Hún er hins vegar alvarleg að því leiti að stjórnvöld hafa í einfeldni sinn látið undir höfuð leggjast að afla ítrustu þekkingar sem stjórnun fiskveiða þarf að byggja á. Það er ekki bara að kerfið bjóði einstaka útvegsmönnum eins og Þorsteini Vilhelmssyni að klippa til sín á góðum degi þrem milljörðum í eiginn vasa, heldur er nú svo komið að kerfið er að hlunnfara þjóðina um ómæld framtíðarverðmæti. Yfirlýsingar stjórnarmanna LÍÚ um hið gagnstæða eru fallnar. En málið varðar ekki bara ábyrgð útvegsmanna, það varðar stjórnun fiskveiða í heild. Þess vegna er ekki nægjanlegt að núverandi sjávarútvegsráðherra skipi nefnd í málið til að rannsaka leynda ofveiði sem afleiðingu af stjórnunarkerfinu sem hann og ríkistjórnin öll ber ábyrgð á. Það þykir nefninlega hvergi góð lögfræði að menn rannsaki embættisafglöp sem þeir bera sjálfir stjónsýslulega ábyrgð á. Meðan ekki er sérstökum stjórnsýsludómstól til að dreifa ættu íslenskir fjölmiðlar að gera á þessu máli þá úttekt sem dugir til að fá fram hvað er að gerast í raun og veru. Stjórnun fiskveiða verður að byggja á þekkingu, ekki hagsmunapóltík. Mannlíf á Suðurnesjum krefst þess að umræðan um stjórn fiskveiða leiði inn á nýja braut sjálfbærra og vaxandi fiskveiða í stað minnkandi afla. Grindavík stendur og fellur með þeim öflugu sjávarútvegsfyrirtækjum sem þar eru. Þau þurfa fisk úr sjó. Úr Sandgerði er kvótinn farinn norður í land eða uppá Skaga. Það þarf að tryggja útgerð frá Keflavík til langframa, líka frá Sandgerði, Njarðvík, Vogum og Garði. Hagsmunir útvegsins og þjóðarinnar allrar krefjast þess. Stjórnmálamenn og flokkar sem hafa staðið fyrir núverandi stjórn fiskveiða eða hafa af kerfinu persónulegan ávinning virðast óhæfir til að leiða þróunina í rétt horf.
Skúli Thoroddsen
Skúli Thoroddsen