Sjólaskip, Palma Kanarí, hvað er nú það?
Nokkuð var ég búinn að heyra um útgerð Sjólaskipa frá Kanarí hjá Sigurði vini mínum Arasyni, sonur hans Albert er skipstjóri þar. Meira fór ég að heyra um þessa útgerð þegar Kristinn Jónsson pottfélagi réðist skipstjóri í vetur til þessarar stórtæku útgerðar. Þegar við fórum til Kanaríeyja í vetur var ég ákveðinn í að heimsækja höfuðstöðvar Sjólaskipa í Palma.
Nokkru eftir að við komum til Kanarí hringdi ég í einkasíma Haraldar Jónssonar, hann er í forsvari fyrir útgerðina í Palma, ég þekkti föður hans vel. Haraldur kannaðist strax við mig og tók því vel að ég kæmi í heimsókn með eitthvað af ferðafélögunum. Að morgni 16. febrúar héldum við ellefu saman í tólf manna bíl til Palma, sum vel kunnug móðir þeirra Sjólabræðra henni Marinellu Haraldsdóttur sem ættuð er úr Sandgerði. Þegar við komum að höfuðstöðvum Sjólaskipa stóð Haraldur utandyra, hann heilsaði öllum ljúfmannlega og bauð okkur upp á skrifstofu sína, en hún er látlaus en rúmgóð. Þar tók á móti okkur glæsileg og brosmild kona Haraldar, sem hann kynnti sem Mundu sína. Haraldur fór svo í stuttu máli yfir sögu fyrirtækisins og Munda sýndi myndir á tölvu eftir efninu. Höfuðstöðvar þeirra eru í Hafnarfirði, þaðan er öllu stjórnað. Nokkrar eignir eiga þeir, þeim málum stjórnar Guðmundur bróðir Haraldar en Haraldur stjórnar útgerðinni.
Undanfarin ár hafa þeir stundað veiðar í lögsögu Máretaníu samkvæmt leyfum stjórnvalda þar. Veiðisvæðið er um 500 sjómílur suður frá Kanarí allt að 12 mílum undan Márataníu. Langmestur aflans er „Horsmarkríl“. Þeir hafa verið með þrjá togara sem eru fullvinnslu skip um 7500 tonn hvert. Auk þess eitt fjölveiðiskip, sem landar í vinnsluskipin eftir því sem hentar. Afköstin eru 500 tonn á dag. Skipin eru þarna suðurfrá í tvö ár í senn.
Allt viðhald nema á botninum er framkvæmt af til þess ráðnum mönnum. Á hverju skipi eru 80 til 95 menn. Yfirmenn eru Íslendingar, 20 arabar eru á hverju skipi, hinir eru frá Eystrasaltslöndunum og Rússlandi.
B/v Sjóli, sem þeir gerðu áður út frá Hafnarfirði, þjónustar skipin og er í förum milli Palma og flotans. Íslendingarnir eru tvo mánuði á miðunum og fá svo frí í tvo, eitthvað er það misjafnt með aðra. Sjólamenn sjá sjálfir um sölu á allri framleiðslunni, mikið fer til arabalanda, nokkuð til Nígeríu og svo vítt um heiminn. Umskipað er í flutningaskip á miðunum og þar fá skipin olíu, en eingöngu er notað svartolía.
Fjöldi stórra skipa frá Austur-Evrópu er að grotna niður í höfninni í Palma, fá ekki olíu til þess að komast heim. Skipshafnirnar komast heldur ekki heim og eru jafnvel á framfæri Rauða Krossins. En Sjólaskip eru búin að kaupa þrjú skip sem eru 7800 tonn að stærð, það síðasta var verið að „skvera af” í slipp í Palma en hin eru farin til Evrópu, þar sem verið er að setja þau í nýtísku fiskvinnslubúnað og auka frystigetuna. Einnig hafa þeir keypt flutningaskip af Magnúsi Björgvinssyni í Garðinum. Það verður líka þjónustuskip. Búið er að taka það í gegn á Akureyri og er nú verið að flytja fiskvinnsluvélar héðan til Esbjerg, sem eiga að fara í nýju skipin. Eitt skip af sömu gerð keypti HB Grandi í vetur, Eftir að hafa sagt okkur frá fyrirtækinu sýndi hann okkur lagerinn, sem nú er verið að stækka um helming. Hann er mikill og fjölbreyttur. Það er látið í sérsmíðaða gáma það sem fara á í hvert skip, gamli Sjóli færir þeim það svo. Margs þarf við, kost, veiðarfæri, málningu og varahluti. Að þessu loknu kom Haraldur okkur í bílinn og ók okkur um höfnina. Hafnargarðurinn er 5 km. langur og verið er að lengja hann í 7,5 km.
Ferðinni lauk við slippinn þar sem verið er að ljúka fyrirhalningu á síðasta skipinu, Geysir á það að heita. Haraldur var búinn að eyða í okkur um þremur tímum, látlaus og ljúfur eins og hann hefði ekkert annað að gera. Hann er þó forstjóri langstærsta útgerðarfyrirtækis sem er í eigu Íslendinga og þeir selja alla framleiðsluna sem nú stefnir í allt að 1000 tonn á dag sjálfir. Við þökkum honum og kvöddum með virtum.
Ólafur Björnsson.