Níu verkefni sem umbylta atvinnumálum í landinu
Mönnum er tamt að tala um tækifærin sem bjóðist á Suðurnesjum og Suðurlandi. Þau tækifæri væru ekki til ef ekki væru til eldhugar sem hafa sýnt fram á þau, fylgja hugmyndum sínum eftir og gefast ekki upp þótt víða sé reynt að slökkva eldmóðinn.
Ég hef kynnst þessu af eigin raun á Suðurnesjum og í Eyjum og verið svo lánsamur að fá að taka þátt í að fylgja nokkrum slíkum verkefnum eftir. Önnur tækifæri geta verið skammt undan á Suðurlandi ef rétt er haldið á málum en það er ekki ofsögum sagt að til þess að þau gerist þurfa öflugir sveitarstjórnarmenn og atvinnurekendur öfluga þingmenn og ríkisstjórn sér við hlið. Verkefnin níu sem ég vil nefna hér geta skapað þúsundir vel launaðra starfa. Stundum slá menn upp setningum um atvinnuverkefni sem telja þúsundir, en þær eru lítið annað en hljómfögur orð. Að baki þessari fullyrðingu minni eru fyrst og fremst staðreyndir. Þekkt atvinnuverkefni munu skapa þúsundir vel launaðra starfa fyrir íbúa Suðurnesja og Suðurlands. Fyrir þessum verkefnum þarf nú að berjast.
Álverið í Helguvík
Nú er skammt í að samningar klárist um orkuöflun fyrir álver í Helguvík. Enn mun koma til kasta ríkisstjórnarinnar og ráðuneyta hennar því Landsnet þarf líklega að ganga í eignarnám vegna línulagna á Suðurnesjum. Enn einu sinni mun reyna á vilja þessarar ríkisstjórnar til að klára málið. Virkjanaleyfi töfðust í marga mánuði á mjög viðkvæmum tíma í samningum orkufyrirtækjanna vegna álvers í Helguvík en nú vonum við hið besta. Í álverinu verða 400 störf. Tengd störf nema um 700. Það verða því á annað þúsund störf sem álverið skapar.
Kísilver í Helguvík
Kísilver í Helguvík er enn í undirbúningi. Viðræður standa yfir við tvo erlenda aðila um verkefnið og vonir standa til að á miðju næsta ári liggi fyrir ákvarðanir sem gera okkur kleift að hefja framkvæmdir. Kísilverið skapar alls um 90 störf auk afleiddra starfa.
Mér er kunnugt um að unnið er að undirbúningi stórrar verksmiðju til framleiðslu á vörum tengdum bifreiðum, þótt enn ríki trúnaður um hvers eðlis verkefnið er. Enn annað framleiðsluverkefni bíður einnig færis í Helguvík, sem einnig getur skapað hundruð vel launaðra starfa, ef réttar aðstæður bjóðast í landinu og við gerum það samkeppnishæft í skattastefnu og orkustefnu.
Nýsköpun hverskonar vex og dafnar í umhverfi þar sem öflugt atvinnulíf er fyrir. Unga fólkið sem fyllir skóla landsins þarf á nýsköpun og nýjum tækifærum að halda. Nýjum vel launuðum störfum til að standa undir grunneiningu þjóðfélagsins. Heimilum landsins.
Grænn efnagarður í Helguvík
Efnagarðar eru afleiður stórra verkefna eða framleiðslufyrirtækja sem skila afgangsafurð sem er hráefni fyrir nýja framleiðslu. Slíkar framleiðslukeðjur mynda hóp fyrirtækja sem eru kallaðir „Efnagarðar.“ Bláa lónið er skýrasta dæmið á Íslandi um hvernig nýta má verðmæta afgangsafurð sem er kælivatn orkuvers í heilsulind Bláa lónsins.
Grænn efnagarður í Helguvík verður til þegar Kísilverið hefur starfsemi sína því mikilvæg afgangsafurð þess er heit gufa. Gufan er eftirsótt og fyrirtæki vilja byggja upp verksmiðjur í Helguvík til framleiðslu verðmætra efna eins og glykol og metanol úr gufunni. Þegar hefur verið unnin stefnumótun fyrir græna efnagarðinn og fjárfestar eru reiðubúnir að hefjast handa um leið og grænt ljós fæst á kísilverið.
Förum eftir Rammaáætlun og vilja sveitarfélaganna
Rammaáætlun var niðurstaða þverpólitískrar sérfræðinganefndar og faglegrar verkefnastjórnar sem skilað var árið 2010 eftir 13 ára vinnu og undirbúning. Allar pólitískar breytingar á niðurstöðu áætlunarinnar er vísasta leiðin til að gera vinnu sérfræðingahópsins og þá breiðu þjóðfélagssátt sem var á borðinu að engu. Í umsögn Orkustofnunar um þingmál ríkisstjórnarinnar vegna Rammaáætlunar segir: „hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjanakostir eru fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk“. Hér er átt við þrjár vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Ég mun sem þingmaður leggja áherslu á sátt um Rammaáætlun og vilja sveitarfélaganna sem þegar hafa samþykkt skipulagstillögur vegna virkjana. Orka er nauðsynleg undirstaða öflugs atvinnulífs sem skapa verðmæti og atvinnu. Vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir í Suðurkjördæmi eru hagkvæmur kostur sem framleiða græna orku sem á að nýta til atvinnuuppbyggingar. Nálægð atvinnutækifæra og virkjana er kostur sem á að koma Sunnlendingum til góða.
Nýtum orkuna á Suðurlandi
Sunnlendingar kalla eftir því að orkan sem framleidd er í landshlutanum verði nýtt til frekari uppbyggingar orkufreks iðnaðar á heimaslóð. Yfir 65% allrar orku landsins er framleidd í fallvötnum á Suðurlandi og því ekki óeðlilegt að hún verði í ríkara mæli nýtt þar. Mér finnst of einblínt á að ekki sé möguleiki á orkufrekum iðnaði á Suðurlandi nema með því að stækka höfnina í Þorlákshöfn. Verksmiðja sem framleiðir 50.000 tonn árlega getur nýtt nálægar hafnir við Faxaflóa til inn- og útflutnings en stórir bílar færu 10 ferðir á dag til að annast alla flutninga. Slík leið er skoðunar verð og gæti flýtt fyrir verkefninu. Fyrirtæki sem setja vilja upp stóriðnað á Íslandi huga fyrst að vinnuafli, innviðum samfélagsins, menntun, skattalegu umhverfi, og trúverðugleika stjórnvalda. Það er því vinnuaflið á Suðurlandi, þjónustan og góðar samgöngur við nærliggjandi þéttbýlisstaði, hafnir, sjúkrahús og opinbera þjónustu sem skiptir mestu máli þegar staðsetning orkufreks iðnaðar er ákveðin.
Við skulum ekki láta annað kjörtímabil fara til spillis í að byggja upp alvöru atvinnutækifæri í Þorlákshöfn eða nágrenni. Ég vil takast á við slíkt verkefni með heimamönnum og við munum saman ná árangri.
Vatnsútflutningur
Verksmiðja Jóns Ólafssonar á jörðinni Hlíðarenda í Ölfusi sem framleiðir vatn undir vörumerkinu Icelandic Glacial er þekktasta vörumerki í vatnsútflutningi á Íslandi í dag.
Vatnsútflutningur frá Suðurnesjum, Suðurlandi og fleiri stöðum í stórum stíl hefur lengi verið í undirbúningi. Sterkir aðilar eru nú að koma að útflutningi til þróunarlandanna. Suðurnes og Suðurland eru í lykilaðstöðu í slíku verkefni ef rétt er á málum haldið en hef ég tekið þátt í skoðun á slíku verkefni og þekki því möguleikana. Tækifærin eru mögnuð en það tekur lengri tíma að koma þeim í gang en við héldum í upphafi. Ég trúi því að innan fárra ára sköpum við margföld verðmæti í vatnsútflutningi frá því sem við erum að gera í dag og fjöldi starfa mun verða til í greininni.
Fullvinnsla sjávarafurða og fiskeldi
Í fullvinnslu sjávarafurða eru tækifæri sem sjávarútvegsfyrirtækin í kjördæminu ættu að skoða. Nú þegar eru slíkum fullvinnslum að fjölga og eitt fyrirtæki í Sandgerði að verða fullbúið í byrjun árs 2013. Fiskeldi er rekið með góðum árangri í Suðurkjördæmi. Stolt farm byggir stóra fiskeldisstöð sem nýtir kælivatn frá Orkuverinu á Reykjanesi. Ráðgert er að ekki færri en fimmtíu manns starfi við eldisstöðina en allt að 75 önnur störf gætu fylgt starfseminni. Framleidd verða 2000 tonn af senegalflúru en áætlaður kostnaður er um 2,5 milljarðar en byggingar stöðvarinnar verða á um sjö hektara svæði. Í Grindavík er sjávarútvegsklasi þar sem afar áhugaverðir hlutir eru í gangi sem miða að aukningu verðmæta sjávarafurða svo stóru nemur. Í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn og Höfn eru öflug fyrirtæki sem eru grundvöllur nýsköpunar í veiðum og vinnslu. Í öllum þessum tilvikum er treyst á að ríkisstjórn komi að völdum sem vinnur skynsamlega og skilur að sjávarútvegurinn er undirstaða velmegunar þjóðarinnar. Veiðileyfagjöld og skattastefna í sjávarútvegi þarf að vera með þeim hætti að greinin hafi getu og afl til að sækja á ný mið. Við eigum að líta til undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar með stolti og skapa greininni þær aðstæður að veiðar og vinnsla skapi aukin útflutningsverðmæti. Fleiri vel launuð störf og það verði aftur eftirsótt launanna vegna að fólk vilji starfa í fiskvinnslu í framtíðinni.
Kornrækt og þurrkun á framtíð fyrir sér á Suðurlandi
Kornrækt er hvergi meiri en á Suðurlandi og má rekja upphaf hennar til þess að hún hófst á Sámstöðum í Fljótshlíð árið 1940 og 1960 á Skóga-sandi. Í dag er fjöldi bænda sem ræktar korn. Innflutningur á fóðurkorni er um 67.000 tonn. Íslenskir bændur framleiða um 15.000 tonn. Það má því fimmfalda framleiðsluna. Til þess að hægt verði að auka kornræktina hér innanlands þarf að koma upp þurrkstöð og verslun með korn í landinu, samanber hugmyndir Ólafs Eggertssonar á Þorvaldseyri, en þær fela meðal annars í sér að reist verði þurrkstöð á Suðurlandi í hjarta kornræktarinnar, sem nýtir orku úr héraði til þurrkunar. Gríðarlegar hækkanir hafa orðið á innfluttu korni á síðustu misserum og hefur því skapast grundvöllur til að stórefla innlenda kornrækt og skapa með því atvinnu og tekjumöguleika í landbúnaði. Með þessu aukum við fæðuöryggi þjóðarinnar og spörum gjaldeyri. Þá eru ótalin tækifæri í ræktun á olíunepju og repju. Tilraunir sem fram hafa farið lofa góðu. Hér er um að ræða framleiðslu á olíu sem breyta má í eldsneyti (bíodisel) og mjölið sem fellur til er próteinríkt og nýtist til skepnufóðurs. Þessi ræktun stuðlar að aukinni sjálfbærni í landbúnaði, sem nauðsynlegt er að stefna að. Styðja verður við áframhaldandi þróun í þeirri nýsköpun. Tækifæri í fjölbreyttri ræktun eru því mörg, en ræktanlegt land á Suðurlandi er um 300.000 ha. Það eru því gríðarleg tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í landbúnaði og fjölgun starfa á næstu árum. Skógrækt er einnig vaxandi grein sem getur skapað fleiri störf og tekjur.
Ferðaþjónustan blómstrar í Suðurkjördæmi
Trúlega allir ferðmenn sem sækja Ísland heim koma við í Suðurkjördæmi. Margir staðir í kjördæminu eru þeir fjölsóttustu á landinu. Yfir 2 milljónir farþega koma með flugi til landsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á árinu 2012. Bláa lónið, Gullfoss og Geysir, Þingvellir, Landmannalaugar, Skógasafn, Dyrhólaey, Vestmannaeyjar, Kirkjubæjarklaustur, Öræfin, Jökulsárlón og fl. staðir eru heimsóttir af hundruðum þúsunda á ári. Í nokkrum héruðum og hreppum er gistirými margfalt meira en íbúarnir. Og enn eru áform uppi um ný hótel, 100 herbergja hótelbyggingu á Hellu, einnig í Mýrdal, á Hvolsvelli, Stokkseyri, Reykholti í Biskupstungum og Hveragerði. Ferðaþjónustan er í stórkostlegum vexti og garðyrkjubændur og hestamenn sjá og nýta tækifærin. Ný og vaxandi tækifæri eru komin af stað, ripp-rafting, ferðamannafjós í Efstadal og fl. og fl. Dæmi um nýjan velheppnaðan ferðamannastað á Suðurlandi er Gestastofan á Þorvaldseyri en hana sóttu yfir 44.000 gestir árið 2012. Alls staðar eru einstaklingar að skapa tækifæri og störf.
Treystum grunn atvinnulífsins sem við byggjum framtíðina á
Ég hef í þessari upptalningu ekki minnst á allar greinar þó allar skipti þær máli en þær hugmyndir og nýsköpun sem við viljum koma í framkvæmd geta aldrei orðið að veruleika nema við styrkjum það atvinnulíf sem fyrir er. Við verðum að hlúa að atvinnurekstrinum og skapa honum það umhverfi að fyrirtækin vaxi og dafni. Við verðum að auka framleiðslu og flytjum út meiri verðmæti sem er grundvöllur að bættum lífskjörum þjóðarinnar. Án meiri verðmætasköpunar verður enginn hagvöxtur og loforð um bætta þjónustu, heilbrigðis- og menntakerfis því innantóm og verða ekki gefin ætli menn að standa við það sem þeir segja.
Fyrir þessum verkefnum þarf að berjast. Suðurkjördæmi er land tækifæranna á Íslandi og þar drýpur smjör af hverju strái. Ég er reiðubúinn að leggja mig allan fram í þágu þessara verkefna í samstarfi við íbúa í Suðurkjördæmi á mannlegum nótum. Til þess að svo verði þarf ég stuðning ykkar.
Ásmundur Friðriksson
sækist eftir 3. sæti á lista
Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri í Suðurkjördæmi 26. janúar nk.