Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 17. mars 2005 kl. 14:00

Minnkandi atvinnuleysi og meira atvinnuframboð

Miðað við sama tíma í fyrra er um 100 manns færra á atvinnuleysisskrá sem er umtalsvert. Það er rífandi uppgangur í byggingariðnaði sem hefur áhrif víðar úti í atvinnulífinu. Það má líka segja að um leið og loðna berst að landi byrja hjólin í atvinnulífinu að snúast hraðar og það tekur að fækka á skránni. Það kom langur góðviðriskafli í febrúar sem gerði það að verkum að sjósókn var meiri og aflabrögð sömuleiðis. Þetta kemur fram í grein sem Ketill G. Jósefsson, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlun Suðurnesja, hefur sent Víkurfréttum.

Í ár er mun meira atvinnuleysi á meðal kvenna og má segja að það vanti fleiri störf fyrir konur á venjulegum tíma þ.e.a.s. á tímabilinu 8:00 - 17:00. Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að fiskvinnslan hefur verið að byrja kl. 6:00 eða 7:00 á morgnana og hefur verið lokið um kl. 14:00 eða 15:00 á daginn.Ýmis verslunar- og þjónustustörf á flugvellinum byrja einnig kl. 6:00 á morgnana. Það þýðir í mörgum tilvikum erfiðleika fyrir ungt fólk með börn. Engin leikskóli á svæðinu opnar svo snemma á morgnana og eins eru fáar dagmæður sem taka á móti börnum á þessum tíma. Hvað getur samfélagið gert til að mæta þessum kröfum atvinnulífsins eða hefur einhver könnun farið fram hvað þetta varðar ? Það er vandamál að manna sumar stöður sem standa fólki til boða vegna þess að vinnutíminn byrjar of snemma á morgnana og það vantar upp á að samfélagið komi til móts við breyttar aðstæður. Ýmis úrræði hafa staðið atvinnulausu fólki til boða á þessu vormisseri. Þar er helst að telja námskeið til að auka getu og hæfni einstaklingsins úti á hinum almenna vinnumarkaði. Má þar nefna byrjendanámskeið í tölvu auk framhaldsnámskeiðs sem er haldið í samvinnu við Tölvuskóla Suðurnesja. Í febrúarbyrjun fór af stað námskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 17 - 24 ára undir nafninu „Ungt fólk á uppleið“. Þar var tekið á mikilvægum þáttum eins og félagsfærni, ferilskrá og atvinnuviðtali, fjármálum heimilanna og handverki. Námskeið fyrir langtíma atvinnulaust fólk undir heitinu „Náum settu marki” fór af stað í lok febrúar. Þar var aðaláherslan á félagsleg samskipti, næringarfræði og hreyfingu, fjármál heimilanna, handverk og fleira. Um miðjan mars mánuð fer svo af stað námskeið fyrir eldra fólk undir heitinu „Svo lengi lærir sem lifir“. Þar er tekið á þáttum eins og breytingum, tryggingarmálum, fjármálum heimilanna, tölvu (internet, tölvupóstur og ritvinnsla), næringarfræði, hreyfingu og fleira. Þessi námskeið eru haldin í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Það er einnig mikilvægt að koma þeim upplýsingum áleiðis að náms- og starfsráðgjafi veitir hvers konar ráðgjöf handa þeim sem vilja kynna sér nánar hvaða atvinnu- eða námsmöguleikar eru fyrir hendi hverju sinni. Góð aðstaða er fyrir fólk til að sinna starfsleit þar sem aðgangur er bæði að tölvu og síma. Atvinnurekendum og atvinnuleitendum standa líka til boða ýmis úrræði sem eru meðal annars: Starfskynning, sem er stutt ólaunuð viðvera á vinnustað. Starfsþjálfun, sem er tímabundin þjálfun og þátttaka í starfsemi vinnustaðar (3 - 6 mánuðir). Reynsluráðning, sem er ráðning til reynslu með framtíðarráðningu í huga. Eins og undanfarin ár hefur Svæðisvinnumiðlun verið í samvinnu við sveitarfélög, fyrirtæki og félagasamtök á Suðurnesjum um sérstök verkefni. Þessi verkefni hafa flest komið að fegrun og hreinsun umhverfis, gróðursetningu og grisjun auk viðhalds og lagningar göngustíga á vinsælum ferðamannastöðum á svæðinu. Það er ósk okkar starfsmanna vinnumiðlunar að umsóknir verði bæði margar og fjölbreyttar að þessu sinni og berist okkur fyrr en seinna. Umsóknir er hægt að nálgast á www. vinnumalastofnun.is

Ketill G. Jósefsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024