Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Lokaorð á kveðjustund
Margeir Elentínusson, Jónatan Jóhann Stefánsson og Ásmundur Friðriksson.
Miðvikudagur 21. desember 2022 kl. 15:10

Lokaorð á kveðjustund

Ásmundur Friðriksson skrifar kveðjuorð um Jónatan Jóhann Stefánsson

Kæru vinir;

Jónatan Jóhann Stefánsson var frá Sólheimum í Garði var sjómaður frá fjórtán ára aldri í 55 ár og lagði móður sinni og systur lið meðan þeirra naut við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hann var vélstjóri og áhugamaður um vélar allt sitt líf. Hann skyldi virkni þeirra og átti gott með viðgerðir og að halda gömlum og slitnum tækjum gangandi. Hann talaði um vélar og tæki, hann dreymdi vélar og tæki. Vélar, tæki og bátalíkön voru líf hans og yndi.

„Ég hefði aldrei verið til ef þessir bátar hefðu ekki verið á floti,“ sagði Tani einu sinni þegar hann rakti feril sinn til sjós í spjalli okkar.

Í vélarrúminu á Hamri GK 224.

Tani var Garðmaður í húð og hár en afar stoltur af uppruna sínum. Móðurættin frá  Skálum á Langanesi og föðurættin frá Eiðum í Garði. Það er ósk Tana að jarðneskar leifar hans verði komið fyrir í fjölskyldugrafreit að Skálum í faðmi móður hans og fjölskyldu og það munum við Steingrímur og Birgir sjá um þegar fer að vora.

Þau tækifæri sem hann varð af í æsku, stutt skólaganga og takmarkað nám, lesblinda og sjóndepra varð til þess að hann þróaði með sér gríðarlega öflugt minni sem varð hans helsta vopn og uppspretta margra gleðistunda þegar aldurinn færðist yfir. Hann lærði lestrarbækur í Gerðaskóla utanbókar til að geta lesið óhikað í kennslustundum.

Bátar og skráningarnúmer, vélar og spil einstök síldarköst og hvenær ný tæki voru tekin í notkun var hans sérsvið. Margir útgerðarmenn- og sjómenn hringdu í Tana til síðasta dags til að fá upplýsingar um búnað báta sem þeir höfðu róið á eða verið eigendur að. Hann vissi hvenær fyrsta astikið var sett í íslenskan bát og hvaða skipstjóri notaði tækið fyrst. Þeir búmmuðu eins og sagt var í fyrstu köstunum en áttuðu sig á því að þeir þurftu að spegla geislann og þá fóru hlutirnir að ganga.

Jónatan við bílinn sinn með einkanúmerið HBETTY, sem hann hafði til heiðurs góðri vinkonu.

Hann mundi líka öll bílnúmer og símanúmer. Símanúmerin mundi hann með því að breyta þeim í bílnúmer og nöfn eigendanna í minnisbankanum. Ef ég spurði hvort hann myndi númerið hjá Siggu, 8986077 þá kom svarið. Reynir Gísla, Ö 898, Siggi Möllu Ö 60, og Maggi Jóns Ö77.

Villi Árna 8699294. Siggi á Berginu, Halli á gömlu flugstöðinni og Emil leigubílstjóri

Páll Magg. 8679188 Siggi Þórðar, Egill í slippnum og Jón norski vörubílstjóri

8943900 Emil Ö 894, Maggi Þorsteins Ö 39

8986077 Reynir Gísla Ö898 Ö 60 Siggi Möllu Ö 77 Maggi Jónsa á Vörubílastöðinni.

Númerið hjá Karli Gauta 8981067. Reynir Gísla Ø 898 og Siggi slembir Ø 1067.

Bergþór Ólafsson 8989007. Reynir Gísla og Sverrir bróðir Magga El (90) sjókælir á Listernum (07)

Hann var tvítugur vaktmaður hjá verktökunum sem lögðu Reykjanesbrautina. Var allar nætur frá byrjun maí til loka september að sparka í dekk, skipta um dekk, setja olíu á bíla og sinna viðhaldi. Þar fékk hann innsýn í viðgerðir og reddingar sem síðar gerðu hann að eftirsóttum vélstjóra. Hann telur sig hafa verið fyrsta ökumanninn á Íslandi sem ók um á nagladekkjum. Tana vantaði aldrei eina mínútu til vinnu hjá verktökunum.

VG peysuna prjónaði Kristín Kristjánsdóttir frá Einholti í Biskupstungum. Þarna er stofnandi VG # 7 ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem hann ber fulla ábyrgð á sem stofnfélagi og einn helsti hvatamaður að stofnun VG. Það var honum hjartans mál að gefa forsætisráðherra VG peysuna góðu.

Hann vissi líka eiginlega allt um verkfæri. Þannig vafðist ekki fyrir honum að þylja upp stærðir á verkfærum í tommum og millimetrum. Hann hikstaði ekki þegar hann sagði að  7/16 amerískar tommur væri sama og 14 mm, 11/16 sama og 17 mm, treikvarttomma sama og 19 mm. En vandinn var að það ekkert í amerískum tommum sem átti við 18 mm sem var algjört viðrini.

Tani var eitt sinn staddur hjá Birni í Kistufelli sem þá var í Brautarholti að kona kom í búðina og vildi kaupa kúplingsdisk. Kúplingsdiskurinn átti að vera með tommu gati og 10 rílum. Björn sagði konunni að þetta væri það gamall diskur að líklega væri hann ekki til í landinu.

Tani með sitt góða minnið mundi þá eftir slíkum diski, rykföllnum uppi á vegg í bílskúrnum hjá Guðna á Garðstöðum í Garðinum en þangað kom hann oft í spjall í frumskóg véla og varahluta. Á spýtu á norðurveggnum héngu ýmsir nytsamlegir hlutir á nöglum. Á þriðja nagla hékk kúplingsdisk úr Rambler 65 sem átti að fara í bíl hjá Guðna en passaði ekki. Diskurinn hékk því árum saman uppi á vegg, rykféll og var öllum gleymdur nema Tana.

Tani segir konunni að trúlega sé þessi diskur til úti í Garði. Það kom allt í ljós að okkar maður mundi þetta rétt. Konan fékk kúplingsdiskinn með tommu gati og 10 rílum. 

Steingrímur Jóhann Sigfússon, VG félagi nr. 1 og Jónatan Jóhann Stefánsson, VG félagi nr. 7.

Tani gat líka þulið skipanir sýslumanna og bæjarfógeta frá konungsskipunum langt fyrir fæðingu hans og allt til síðasta dags. Þær minningar urðu oft kveikja að heitum umræðum okkar um pólitískar embættisveitingar og enduðu með báli. En aldrei skildum við ósáttir.

Tani var ótrúlega magnaður með hverskonar þung handverkfæri, kúbein, slaghamra og törnara, (stangir til að törn vélum) sem lék í höndum hans. Af þeim afrekum eru til margar frægar sögur á Patró.

Tani tekur pokann í síðasta skipti á Njáli RE.

Hópur manna var að taka meiraprófið og þeir voru í æfingaakstri á bryggjunni þar sem Garðar BA lá og Tani um borð að fylgjast með. Þegar allir voru búnir að aka eftir bryggjunni átti að skipta um dekk á vörubílnum. Þá vandaðist málið. Felgan var svo gróin við nafið að engin leið var að losa dekkið af. Kennarar og fílelfdir nemendur gáfust upp hver af öðrum. Þá hoppar Tani í land með öflugan lykil og felgujárn. Hann biður menn að færa sig og losar allar rærnar bankar hraustlega í felguna og spennir síðan af með kröftugu og réttu átaki. Dekkið féll á bryggjuna eins og ekkert væri.

Ökukennarinn sagði yfir hópinn að Tani væri eini maðurinn sem ætti að fá meiraprófið og það fékk Tani á staðnum. Það kom sér vel en hann hóf leigubílaakstur árið 1977.

Þegar hann gerðist vélstjóri á Garðari BA, 66 ára gömlu skipinu, fór hann ekki frá borði öðruvísi en báturinn, vélin og kramið væri tilbúið í næsta róður. Hann lærði það hjá Verktökunum ungur maður að hafa allt klárt þegar vinnudagur hefst. Það var aldrei kallaður smiðjumaður um borð þrátt fyrir að báturinn væri orðinn 70 ára þegar hann fór síðasta róðurinn frá Patreksfirði.

Tani bjargaði vélstjóranum á Jóni Þórðarsyni BA 180. Hann var að losa hjól á vél bátsins sem kúplaði inn spilið en ekkert gekk.

Tani kunni handtökin og byrjaði á því að svínhita allt draslið framan á krúntappanum á vélinni og kæla svo snögglega með spúlnum. Þá verptist járnið og þvingan var hert í botn og hjólið dróst af öxlinum.

Hann hafði lært handtökin hjá Verktökunum í Reykjanesbrautinni þegar þeir lentu í verstu tilfellum við að losa ripperinn af jarðýtum.

Úrræðasnilld Tana varð fræg á Vestfjörðum og enn eru sagðar sögur af þeim afrekum hans.

Það er fræg sagan af því þegar þeir á Garðari voru að fara yfir 1000 tonn á vertíðinni. Jón skipstjóri ákvað að gefa körlunum tíma til að skjótast heim eftir löndun og hitta fjölskylduna. Þegar allir voru farnir frá borði var Tani einn eftir um borð, kófsveittur að sinna viðhaldi í vélarrúminu til að halda kraminu og gömlu vélinni gangandi.

Sjónminni og athygli hans fangaði allt sem snérist að vélum, gangverki þeirra, þrýstingi og öðru sem ekki öllum er gefið að skilja. Hann þuldi yfir mér tímunum saman slíkar upplýsingar og sögur af vélum sem ég skildi aldrei upp né niður í.

Palli patró hitti okkur félagana í bakaríinu einn morguninn. Hann sagði að Tani sé og hafi verið þjóðsagnarpersóna á Patreksfirði eftir árin sem hann var vélstjóri á Garðari BA og sé í miklum metum hjá fólki á Patró. Garðar var elsti bátur flotans og var honum lagt síðustu vertíðina sem Tani var um borð en þá var báturinn 70 ára gamall. Tana tókst það sem fáum vélstjórum hafði tekist en það var að halda sjötugri vélinni og kraminu gangandi fjórar síðustu vertíðarnar og aldrei var kallaður smiðjumaður um borð. Slíku afreki ná bara hetjuvélstjórar og verður vart leikið eftir.

Tani í safninu sem hann var með heima hjá sér þegar  hann bjó í Miðhúsum í Sandgerði.

Tani var alltaf illa verkaður, olíublautur og óhreinn eftir véla- og olíuslag í vélarrúminu en lét sig ekki vanta á dekk. Hann gaf ekkert eftir við netadráttinn og blóðgaði niður aflann eftir hverja trossu með strákunum á dekkinu.

Það er fræg sagan af því þegar þeir á Garðari voru að fara yfir 1000 tonn á vertíðinni. Jón skipstjóri ákvað að gefa körlunum tíma til að skjótast heim eftir löndun og hitta fjölskylduna. Þegar allir voru farnir frá borði var Tani einn eftir um borð, kófsveittur að sinna viðhaldi í vélarrúminu til að halda kraminu og gömlu vélinni gangandi. Þá kemur um borð Lilja  eiginkona Jóns skipstjóra og býður Tana að koma heim til þeirra hjóna til að borða saltkjöt og fara í bað, en þann lúxus hafði Tani ekki getað veitt sér síðan vertíðin hófst fyrir níu vikum. Tani ætlaði bara að þiggja saltkjötið en Lilja krafðist þess að hann færi fyrst í bað. Hann fékk hrein nærföt en Lilja henti þeim gömlu. Það er ástæðulaust að lýsa því sérstaklega af hverju Lilja lét nærbuxurnar róa í ruslið.

Þessu gleyma menn ekki á Patró og Tani þjóðsagnarpersóna í lifanda lífi þar vestra og mikill vinur fjölskyldu Jóns skipstjóra til dauðadags.

Jónatan með nafna sínum Jónatan Marlow sem er uppspretta gleði hjá Tana.

Jónatan Jóhann Stefánsson var einstakur maður, sérstakur í háttum og umgengni. Átti engan sér líkan, hann var bara líkur sjálfum sér.

Ég þakka honum skemmtilega og einstaka samferð í hans stíl.

Ásmundur Friðriksson