Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Látum ekki stjórnmálamenn og lögfræðinga eina um að breyta stjórnarskránni
Laugardagur 20. október 2012 kl. 10:13

Látum ekki stjórnmálamenn og lögfræðinga eina um að breyta stjórnarskránni

Á vormánuðum 2009 var mikil og þung krafa í samfélaginu um að endurskoða þyrfti íslensku stjórnarskrána frá grunni. Rætt hefur verið um grundvallaendurskoðun alveg frá lýðveldisstofnuninni 1944 en staðreyndin er sú að af henni hefur ekki orðið á þesssum tæpum 70 árum sem liðin eru. Krafan var einnig um að enduskoðun stjórnarskrárinnar ætti ekki lengur að vera einkamál stjórnmálamanna og lögfræðinga og öll þjóðin ætti að koma að málinu. Til marks um þetta höfðu allir flokkar – utan Sjálfstæðisflokksins – aðkomu þjóðarinnar að endurskoðun stjórnarskrárinnar á stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar 2009.

Að loknum kosningum 2009 náðist málamiðlun á Alþingi um endurskoðun stjórnarskrárinnar; skipa ætti stjórnlaganefnd, boða síðan til þjóðfundar og loks halda stjórnlagaþing. Þetta var gert. 950 Íslendingar valdir af handahófi komu saman til þjóðfundar haustið 2010 og niðurstöður hans voru lagðar til grundvallar vinnu stjórnlagaráðs. 522 Íslendingar buðu sig fram til stjórnlagaþings og 25 voru kjörnir. Hæstiréttur komst að þeirri umdeildu niðurstöðu að framkvæmd kosninganna hefði verið á þann veg að rétt væri að ógilda kosninguna. Alþingi ákvað síðan að skipa þá fulltrúa sem hlutu kosningu í stjórnlagaráð. Stjórnlagaráð tók til starfa og samþykkti einróma – á grundvelli niðurstaðna stjórnlaganefndar og þjóðfundarins – frumvarp til stjórnarskipunarlaga og skilaði því til Alþingis síðsumars 2011.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd Alþingis lagði til að íslenska þjóðin yrði spurð álits á frumvarpi stjórnlagaráðs samhliða forsetakosningunum í sumar – sjálfstæðismenn á Alþingi komu í veg fyrir það með málþófi. Mikill meirihluti Alþingis (35 gegn 15) hélt ótrauður áfram og náði að tryggja áframhaldandi aðkomu þjóðarinnar að langþráðri endurskoðun stjórnarskrárinnar og kjósendur verða því spurðir álits í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn næsta þann 20. október.

Viltu að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign í stjórnarskrá?

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn gefst okkur Íslendingum tækifæri til að senda Alþingi skýr skilaboð um það hvort við viljum að tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verði lögð til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Einnig erum við spurð mikilvægra spurninga um það hvort við viljum að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir lýstar þjóðareign, hvort við viljum að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi, hvort við viljum að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör heimilað í meira mæli en nú er, hvort við viljum að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um jafnt vægi atkvæða og hvort við viljum að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nægjanlegt er að svara einni af þessum sex spurningum til þess að kjörseðillinn sé gildur.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur verið rædd áratugum saman en aldrei áður jafn ítarlega og með aðkomu svo margra. Ferlið hefur jafnframt vakið heimsathygli, Íslendingar eru í augum heimsins þjóðin sem er að endurskoða stjórnarskrá sína sjálf. Mikilvægt er að við nýtum þetta merkilega  tækifæri sem flest, mætum á kjörstað á laugardaginn og sendum skýr skilaboð. Munum að þeir sem sitja heima eftirláta öðrum að taka ákvörðun fyrir sína hönd.

Eysteinn Eyjólfsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ