Hvernig viljum við sjá samfélag okkar þróast?
– Birgitta Jónsdóttir Klasen skrifar
Kæri íbúi Reykjanesbæjar!
Nú fer að renna upp sá tími að íbúalýðræðið fái að njóta sín í komandi sveitastjórnarkosningum og tími til kominn að íbúar sveitarfélaga fari að velta fyrir sér hverjum þeir muni vilja ljá atkvæði sitt að þessu sinni.
Hvernig viljum við sjá samfélag okkar þróast? Viljum við kyrrstöðu eða viljum við halda áfram þeirri framþróun, sem Árni Sigfússon, núverandi bæjarstjóri Reykjanesbæjar og oddviti sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu, hefur boðað og unnið ötullega að á umliðnum tólf árum?
Þegar ég fluttist á ný til Íslands og settist að í Reykjanesbæ eftir margra ára búsetu í Þýskalandi, uppgötvaði ég fljótt hversu mikið skorti á alla innviði sveitarfélagsins sem gerði það að verkum að bæjarfélagið átti langt í land með að standast samfélagslega samkeppni, t.d. með tilliti til menningar, menntunar og annarra samfélagslegra stoða. Og ég sá fljótlega tækifæri í samfélaginu þar sem ég gæti miðlað minni sérþekkingu á sviði heilsu og næringarráðgjafar sem ég hef menntað mig til og starfað við í Þýskalandi. Á sama tíma og ég fluttist til Íslands, var Árni Sigfússon að taka við embætti bæjarstjóra. Það hefur svo sannarlega ekki verið auðvelt verk að vera í forsvari við að byggja upp og koma sveitarfélaginu á kortið á ný.
Eftir að hafa á umliðnum árum sáð í jarðveginn góðum fræjum með samstilltu átaki sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum, erum við komin vel á veg og uppskeran er nú óðum að taka á sig mynd í formi ræktarlegra ávaxta, líkt og við viljum öll sjá. Að sjálfsögðu duga engar skammtímalausnir í takt við „hókus-pókus“-aðferðir. Alvöru uppbygging lýtur lögmáli vandaðs skipulags og eftirfylgni af hálfu stjórnsýslunnar. Það hefur núverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ kappkostað að hafa að leiðaljósi alla tíð. Og allir íbúar sveitarfélagsins þurfa auðvitað að leggjast á árar í þeirri vegferð.
Reykjanesbær var í sárum eftir að Bandaríkjamenn ákváðu að loka herstöðinni á Keflavíkurflugvelli árið 2006 og allt í einu stóðu átta hundruð manns í þeim sporum að vera án atvinnu sem hafði margfeldisáhrif á heilu fjölskyldurnar, maka og börn. Næsti „fellibylur“ reið yfir á haustmánuðum 2008 með íslensku efnahags- og bankahruni, sem allir landsmenn hafa á einn eða annan hátt orðið fyrir barðinu á. Og það tekur mörg ár fyrir íslenskt samfélag að ná „heilsu“ á ný eftir þann mikla skell. Gott er í þessu sambandi að minnast orða John F. Kennedy sem eitt sinn sagði: „The New Frontier of which I speak is not a set of promises – it is a set of challenges.“ Þetta skulum við hafa hugfast í þeirri uppbyggingu, sem framundan er!
Þegar ég lít til baka, er enginn efi í mínum huga um að síðasta ríkisstjórn Íslands hefur skaðað Reykjanesbæ mjög mikið sem situr uppi með sín sjúkdómseinkenni eftir þá yfirreið, sem sýnd var sveitarfélaginu. Og íbúarnir upplifa sig sem hálfgerð fórnarlömb andlegs ofbeldis af hálfu þáverandi stjórnvalda, þegar við vorum rétt að byrja að rétta úr kútnum eftir brotthvarf bandaríska hersins. Því má ekki gleyma! Nú þegar ný ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks boðar breytta tíma, eigum við að taka því fagnandi og hjálpast að í átt að sjálfbærni samfélaga og þeirra íbúa, sem þar kjósa og vilja búa.
Mín einlæga trú er sú að við íbúar Reykjanesbæjar eigum að sameinast um það að gefa sjálfstæðismönnum í sveitarfélaginu ráðrúm og tíma til að klára sín góðu verk, sem byrjað var að vinna að og sá inn í samfélagið fyrir tólf árum síðan. Við getum verið „best í heimi“ ef við bara berum gæfu til þess að sýna samstöðu og hjálpumst að við að byggja okkar samfélag þannig að allir íbúar njóti góðs af. Það er auðvelt að sitja heima og kvarta, en það gerist lítið án lýðræðislegrar og pólitískrar ábyrgðar. Í sveitarstjórnarkosningunum, sem fram fara þann 31. maí, höfum við öll val. Það skiptir máli hvernig við ráðstöfum atkvæðinu okkar. Ég mæli með því að við íbúar Reykjanesbæjar ráðstöfum atkvæðinu okkar skynsamlega og styðjum Árna Sigfússon og hans félaga í þeim samfélagslega brýnu verkefnum, sem sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ hafa á stefnuskránni. Í þeim anda sé ég krafta mína og sérþekkingu nýtast íbúum samfélagsins.
Þitt atkvæði telur í átt að fjölskylduvænu samfélagi.
Kjósum XD fyrir Reykjanesbæ.
Birgitta Jónsdóttir Klasen.