Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hverjar eru raunverulegar skuldir Reykjanesbæjar?
Föstudagur 20. maí 2005 kl. 19:08

Hverjar eru raunverulegar skuldir Reykjanesbæjar?

Það er makalaust hvað meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar er viðkvæmur þegar kemur að umræðu um fjármál sveitarfélagsins eins og lesa má í grein Böðvars Jónssonar hér á Víkurfréttavefnum. Gífuryrði og persónuárásir hvort sem það er á ráðherra, þingmenn eða íbúa í Reykjanesbæ virðist aldrei ætla að linna. 

Í grein minni í gær var ég að sinna samfélagslegri skyldu minni og greina bæjarbúum frá hversu gífurleg hækkun hefur orðið á skuldbindingum sveitarfélagsins í formi svokallaðra rekstrarleigusamninga. Þetta eru tiltölulegar nýjar skuldbindingar og eins og sjá mátti í grein minni sker Reykjanesbær sig töluvert frá öðrum sveitarfélögum hvað þetta varðar. Böðvar ásakar mig um vanþekkingu eða að ég sé vísvitandi að halda fram röngum upplýsingum. Þær upplýsingar sem ég greindi frá eru annars vegar úr ársreikningi Reykjanesbæjar og svar Félagsmálaráðherra við fyrirspurn Sjálfstæðisþingmannsins Gunnars I. Birgissonar. Ég treysti því fullkomlega að þessar upplýsingar séu réttar. Það sem okkur Böðvar greinir um er meðferð og framsetning á upplýsingum.

Böðvar veit fullvel að önnur sveitarfélög hafa ekki gert rekstrarleigusamninga í jafnmiklu mæli og Reykjanesbær, þess vegna eru t.d. skuldir pr. íbúa hærri hjá mörgum öðrum sveitarfélögum en hér í Reykjanesbæ. Telur Böðvar Jónsson að hann sé að segja rétt frá þegar hann eða fulltrúar meirihluta Sjálfstæðismanna setur fram í töflu skuldir pr. íbúa samanborið við önnur sveitarfélög í landinu án þess að greina frá skuldbindingum sem felast í rekstarleigusamningum. Trúir nokkur maður að þannig sé verið að gefa rétt mynd af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins ? Ég trúi á almenna skynsemi fólks til að vega og meta þær upplýsingar sem það fær. Telur Böðvar að fyrirtæki sem á það húsnæði sem það rekur sína starfsemi í þó svo að það skuldi eitthvað í því, sé jafnvel set fjárhagslega eins og fyrirtæki sem rekur sína starfsemi í rekstarleiguhúsnæði og mun ekkert eiga í húsnæðinu að 30 árum liðnum ?

Böðvar talar um að aðrir bindandi samningar eins og ráðningasamningar og samningur um sorphirðu færist ekki inn í efnahagsreikning sveitarfélagsins og því ætti að vera eins með farið í tilfelli samninga um leigu á húsnæði undir lögbundna starfsemi sveitarfélagsins. Það er rétt, að sjálfsögðu á ekki að færa ráðningasamning við kennara inn í efnahagsreikning né samning um sorphirðu. Hvað varðar leigusamninga um húsnæðið gilda alþjóðlegar reikningsskilastaðlar sem við skulum skoða nánar.

Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar

Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 17,  er leigusamningum skipt í tvennt, annars vegar fjármögnunarleigusamninga og hins vegar rekstrarleigusamninga. Flokkun leigusamninga ræðst af því hvernig áhættu og ávinningi sem fylgir eignarhaldi eignarinnar er skipt milli leigutaka og leigusala. Fjármögnunarleigusamninga á að færa inn í efnahagsreikning viðkomandi sveitarfélaga en rekstrarleigusamninga ekki. Að jafnaði er litið á samning sem fjármögnunarleigusamning ef einu eða fleirum af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
1. Ef ákvæði í samningi kveður sérstaklega á um að eignarréttur flytjist til leigutaka í lok leigutímans.
2. Ef leigutaki á í lok leigutímans rétt á að kaupa hina leigðu fjármuni fyrir fjárhæð sem kenna má við vildarkjör.
3. Ef leigutími svarar til meginhluta af áætluðum endingartíma hinna leigðu fjármuna.
4. Ef núvirði lágmarksleigugreiðslu svarar svo gott sem til markaðsvirðis hinna leigðu fjármuna.
5. Ef hin leigða eign er sérhæfð þannig að aðeins leigutakinn geti notað hana án meiriháttar breytinga.
6. Leigða eignin er svo sérhæfð að það er ekki auðvelt að finna staðgengil fyrir hana.
Sé engu ofangreindra skilyrða fullnægt er að jafnaði litið svo á að leigusamningurinn sé svonefndur rekstrarleigusamningur. Það er því ljóst að allir leigusamningar Reykjanesbæjar uppfylla ekki þessi skilyrði að mati meirihlutans og því hefur meirihluti Sjálfstæðismanna ákveðið að færa þetta sem rekstrarleigusamninga til að lækka skuldbindingar sveitarfélagsins um rúma 4 milljarða eða 383 þús. krónur á hvern íbúa. Trúir því nokkur maður að einhver annar aðili en Reykjanesbær munu nokkurn tíma nota grunnskólanna okkar hér í bæ eins og fram kemur í skilyrði 5 hér að ofan ? Eða er meirihluti Sjálfstæðismanna að segja með sínum bókhaldsæfingum að eftir 30 ár muni sveitarfélagið ekki reka neina grunnskóla ? Sem er þrátt fyrir allt lögbundið verkefni sveitarfélaga eins og Böðvar sjálfur minntist á.
Er auðvelt að finna staðgengil fyrir grunnskóla sveitarfélagsins, eins og fram kemur í skilyrði 6 ?
Þá þætti mér áhugavert að láta meta markaðsvirði hinna leigðu fasteigna og bera það saman við núvirtar leigugreiðslur og sjá hversu miklu munar á því og áætluðu markaðsvirði ?  Ætli munurinn sé mikill, ég stór efast um það.
Það er því ljóst að það er mjög vafasamt og vægast sagt á gráu svæði að flokka alla leigusamninganna sem rekstrarleigusamninga til þess eins að fegra fjárhagsstöðu bæjarins í samanburði við önnur sveitarfélög og beinlínis villa um fyrir íbúum. Ég trúi á skynsemi íbúa Reykjanesbæjar og taldi mér því skylt að greina frá þessari stöðu þar sem bæjaryfirvöld hafa passað sig að minnast ekki á þetta á þeim fundum sem haldnir hafa verið meðal íbúa sveitarfélagsins.
Þá er það einnig eðli rekstrarleigusamninga að eftir að leigutíma lýkur þarf að skila hinu leigða. Til að stemma stigu við þessa staðreynd hafa stjórnvöld í Danmörku t.d. gert sveitarfélögum skylt að deponera söluandvirði eigna sinna til að eiga fyrir þeim í lok leigutímans.

Eysteinn Jónsson
Formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ
[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024