Hryllingssaga úr raunveruleikanum
Árið 2001 ákvað fjögurra manna fjölskylda að stækka við sig. Fjölskyldan átti kjallaraíbúð sem hafði verið keypt nokkrum árum áður á 8,8 milljónir en nú fengust 12 milljónir fyrir íbúðina. Þrátt fyrir að greitt hefði verið samviskusamlega af íbúðinni hafði lánið sem hvíldi á henni hækkað en ekki lækkað, vegna verðtryggingar. Draumahúsið kostaði 25 milljónir. Með dugnaði og eljusemi hafði fjölskyldan lagt fyrir og átti nokkurn sjóð og því voru kaupin möguleg með því að taka hámarkslán hjá íbúðarlánasjóði til 40 ára og lán hjá lífeyrissjóði til að brúa bilið. Boginn var spenntur til hins ítrasta, sumarfrí ekki í boði og ekki ráðist í aðrar umbætur á húsinu en að mála það að innan. Nokkrum árum síðar höfðu lánin hækkað þannig að hjónin skulduðu nú 25 milljónir, þrátt fyrir að lánið hefði alltaf verið í skilum og hluti kaupverðs greiddur út. Þeim bauðst að skipta láninu út fyrir annað í erlendri mynt. Yfirvöld lofuðu stöðugleika, tekjur hjónanna voru góðar og íbúðarverð að hækka. Þau töldu sig ráða við sveiflur í myntkörfunni, enda með tryggar tekjur og engar aðrar skuldir. Lánstíminn var ákveðinn 25 ár því hjónin vildu borga lánið hraðar niður. Í janúar 2008 höfðu hjónin greitt hvern einasta gjalddaga á réttum tíma, krónan hafði styrkst, fasteignaverð hækkað og útlitið var bjart. Skuldin hljómaði nú upp á kr. 22,5 milljónir og húsið var metið á heilar 70 milljónir. Auk þess höfðu þau komið sér upp varasjóði í hlutabréfum í íslensku bönkunum. Nú stendur skuldin í rúmum 42 milljónum, fasteignaverð hefur hrunið og hjónin ráða í fyrsta skipti illa við afborganirnar af láninu. Væri húsið selt er óvíst að það dygði fyrir láninu og fjölskyldan því í raun eignalaus. Þrátt fyrir erfiðleika þessara hjóna er staða margra miklu verri. Þau geta klórað í bakkann, hafa enn sæmilegar tekjur og geta haldið sér á floti. Staða þeirra sem keyptu íbúðarhúsnæði nokkrum árum síðar er mun verri enda var verð þeirra eigna hærra og margir með fleiri skuldir á bakinu.
Íslensk stjórnvöld vissu í hvað stefndi í byrjun síðasta árs. Hefðu hjónin verið vöruð við hefðu þau til dæmis getað selt hlutabréf sín og greitt hluta lánsins niður, breytt láninu í hefðbundið húsnæðislán, sleppt sumarfríinu sínu og lagt kapp á að greiða inn á höfuðstólinn. Ef hjónin hefðu misst húsið sitt í bruna eða náttúruhamförum hefðu þau fengið það bætt. Stjórnvöldum ber skylda til að leiðrétta tjónið enda bera þau ábyrgð á ástandinu. Borgarahreyfingin hefur það á stefnuskrá sinni að höfuðstóll allra húsnæðislána verði lagfærður handvirkt í í samræmi við stöðuna fyrir hrunið.
Margrét Tryggvadóttir