Hreinar ágiskunum og óstaðfestum ásökunum vísað til föðurhúsanna af gefnu tilefni
Vegna greinar sem birtist í DV í gær um málefni Suðurnesjamanna ehf. finn ég mig knúinn til að leiðrétta þær rangfærslur sem þar komu fram í minn garð.
Í greininni eru settar fram óstaðfestar og órökstuddar fullyrðingar um fyrirtæki sem ekkert tengjast Suðurnesjamönnum, en fullyrt er að Hópsnes ehf. og Gámaþjónusta Hópsness hafi verið hluthafar í félaginu. Hið rétta er að þessi félög hafa aldrei verið hluthafar í Suðurnesjamönnum. Augljóst er að greinarhöfundur hefur fengið rangar upplýsingar í þessu máli.
Það er undarlegt hvernig þessari frétt er stefnt gegn mér þar sem ég var ekki stjórnarmaður í félaginu. Einnig er ljóst að það félag sem ég er í forsvari fyrir, Hópsnes ehf., er ekki hluthafi. Mér finnst augljóst að annar viðmælandi greinarhöfundar úr Grindavík hefur notað þetta tækifæri til að reyna að koma á mig höggi með uppspuna og hagræðingu á sannleika í minn garð. Greinilegt er að innanbæjarpólitíkin er farinn að harðna því núverandi meirihluta bæjarstjórnar Grindavíkur hefur ekki líkað sú gagnrýni sem ég hef haft um störf hans að undanförnu. Sú gagnrýni hefur í alla staði verið fagleg og byggt á staðreyndum um þeirra verk og vinnubrögð en ekki á persónulegu skítkasti eins og viðhaft var í greininni.
Ég sat hluthafafundi hjá Suðurnesjamönnum ásamt Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur sem fulltrúar Grindavíkurbæjar en hvorugt okkar var í stjórn félagsins. Bæjarstjórn Grindavíkur samþykkti á sínum tíma einróma að Grindavíkurbær gerðist hluthafi í Suðurnesjamönnum til mótvægis við Reykjanesbæ og Geysi Green í því ferli sem fram fór við sölu ríkisins á hlut þess í Hitaveitu Suðurnesja. Í því söluferli neytti Grindavíkurbær forkaupsréttar síns þegar ríkið seldi sinn hlut í Hitaveitunni.og eignaðist þannig um 10% hlut sem seldur var til Orkuveitu Reykjavíkur en ekki til Geysis Green eins og kom fram í greininni. Hluturinn var seldur á 4,2 milljarða sem var langt yfir áætluðu markaðsverði og má gera að því skóna að tilboð Geysis Green hafi verið hækkað vegna tilkomu Suðurnesjamanna. Á því hagnaðist Grindavíkurbær og öll þau sveitarfélög sem notuðu tækifærið og seldu hluti sína í Hitaveitunni. Má þar nefna Sandgerði, Garð, Voga; Kópavog, Árborg og Vestmannaeyjar.
Eftir að söluferli Hitaveitunnar lauk og Suðurnesjamenn snéru sér að öðrum fjárfestingum var ákveðið á fundi bæjarráðs Grindavíkur að ekki yrði tekið þátt hlutafjáraukningu í félaginu og þar með þynntist hlutur Grindavíkurbæjar og varð nánast að engu.
Sigmar Eðvarsson,
Grindavík.