Fyrir hverja eru almenningssamgöngur?
Unnið hefur verið að því að setja upp nýtt leiðarkerfi almenningssamgangna fyrir Reykjanesbæ með það að markmiði að bæta þjónustu. Samráð við íbúa og aðra hagaðila ætti að vera lykilatriði. Þar greinir okkur á meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.
Fara almenningssamgöngur ekki saman við skóla- og frístundaakstur?
Reykjanesbær er sveitarfélag í miklum og örum vexti. Byggð er dreifð og vegalengdir milli hverfa eru miklar. Þess vegna skipta almenningsamgöngur miklu máli í þjónustu við íbúa. Vel hannað kerfi sem er aðgengilegt og skilvirkt þannig að sem flestir geta nýtt þjónustuna bætir lífsskilyrði almennings, dregur úr umferðarþunga og hjálpar til í baráttunni við loftslagsmál. Sú þjónusta sem boðið er upp á í bæjarfélaginu hefur áhrif á val fólks um búsetu. Gott skólastarf, tónlistarlíf, metnaðarfullt íþrótta- og tómstundastarfs skiptir þar miklu og góðar almenningssamgöngur eru grundvöllur þess að sem flestir geti nýtt það sem í boði er.
Miklar umræður hafa verið um nýtt strætókerfi í Reykjanesbæ. Meirihlutinn hefur margoft komið upp í ræðustól og svarað gagnrýni minnihlutans um nýtt leiðarkerfi með því að segja að ekki væri um skóla- og frístundaakstur að ræða heldur almenningssamgöngur. Því er sjálfsagt að spyrja, hverjir eiga að nota þessar svokölluðu almenningssamgöngur? Í ljósi þeirra umfangsmiklu breytinga á leiðarkerfi og tímasetningum eru það varla börn og unglingar sem búa lengst frá þjónustukjarna sveitarfélagsins.
Meirihlutinn telur að mikið samráð hafi verið og kynningar fullnægjandi. Því er minnihlutinn ósammála og telur að ræða hefði þurfti við stærstu hópa notenda kerfisins, s.s. Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Fjöldi unglinga hefur notað strætó til að komast til og frá FS, sem reynist mun erfiðara núna vegna nýrra stoppustöðva og sérstaklega vegna tímasetninga ferða. Svör meirihlutans voru þau að FS þurfi að breyta sinni stundarskrá þannig að hún falli að strætóferðum.
Einnig kom gagnrýni frá fjölda foreldra sem lýstu yfir áhyggjum af breyttri akstursleið í Innri-Njarðvík sem lengir til muna fjarlægðir sem börn þurfa að ganga til að komast að stoppistöðvum.
Finnum lausn í sátt íbúa
Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til strax í byrjun janúar að strætómálinu yrði vísað til bæjarráðs og fundin yrði lausn í samráði við íbúa og FS samhliða því að unnin yrði frekari greiningarvinna. Meirihlutinn var ósammála og taldi að ekki ætti að gera neinar breytingar að svo stöddu. Engin breyting var gerð.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði minnihlutinn í bæjarstjórn, fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Frjáls afls, fram tillögu um að skapa samráðsvettvang milli bæjaryfirvalda og þeirra sem tjáð höfðu andstöðu sína vegna breytinga á leiðarkerfi strætó sem nýverið tóku gildi. Mikilvægt var að að unnið yrði hratt svo niðurstaða gæti legið fyrir í lok janúar þar sem breytingin hentaði engan veginn stórum hluta notenda. Meirihlutinn var ekki á því og niðurstaðan var að vísa málinu aftur í bæjarráð.
Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs hefur nú stigið fram og kallað íbúa Innri-Njarðvíkur til samráðs og fögnum við því. Þegar þessi orð eru skrifuð hefur ekkert verið rætt við stjórnendur FS.
Það er nauðsynlegt að meirihluti bæjarstjórnar hlusti á þær áhyggjur sem íbúar hafa vegna breytts leiðarkerfis, finni lausnir og sýni þeim þá virðingu að þeirra skoðun skipti máli. Það er mikilvægt að Reykjanesbær tryggi öruggar og greiðfærar samgöngur sem styðja við börn og ungmenni til félagslegrar þátttöku óháð því hvaða hverfi þeir búa í. Það er okkar von að meirihluti bæjarstjórnar komi í lið með okkur og bregðist við þeim umkvörtunum sem hafa borist, bæjarfélaginu til hagsbóta.
Margrét Sanders,
aðalmaður í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Hanna Björg Konráðsdóttir,
varamaður í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og íbúi í Innri-Njarðvík.