„Fljótandi skil“ grunn- og framhaldsskóla
Í grunnskólun landsins eru nemendur í 8. og 9. bekkjum að undirbúa sig fyrir næsta skólaár. Liður í því er að velja sér tilteknar námsgreinar eða valstundir sem samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla getur verið að lágmarki 10-11 kennslustundir á viku. Það að nemendur fái að velja sér námsgreinar er m.a. til að mæta þeim sveigjanleika og einstaklingsbundnu áhugasviðum og framtíðaráformum sem fjallað er um í aðalnámskrá grunnskóla frá 1999. Aukið valfrelsi nemenda á jafnframt að tryggja að þeir geti lokið grunnskóla með mismunandi áherslum, samræmd lokapróf eru ekki skylda. Ábyrgð nemenda á námi sínu er meiri og þeir þurfa að gera upp hug sinn fyrr hvert þeir ætla að stefna með því.
Einn liður í námsvali margra grunnskólanemenda í efri bekkjum er nám á framhaldsskólastigi. Það getur farið fram staðbundið eða með fjarnámi. Tengsl sem myndast milli skólastiganna á þennan hátt eru kölluð „fljótandi skil“. Hér á eftir ætla ég að fjalla um þessi tengsl hér á Suðurnesjum milli Fjölbrautaskóla Suðurnesja og grunnskólanna á svæðinu. Jafnframt ætla ég að benda á nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að höfð séu í huga við þá ákvörðun grunnskólanemenda og þeirra er næst þeim standa að hefja nám á framhaldsskólastigi.
Löng hefð
Það að best er vitað eru ,,fljótandi skil komin hvað lengst á veg hér á Suðurnesjum. Hefðin fyrir þeim má rekja til fyrsta starfsárs F.S. 1976, en skólinn er stofnaður út frá framhaldsdeild við Gagnfræðaskólann í Keflavík og Iðnaskólann í Keflavík. Hvergi er kveðið á um í lögum eða aðalnámskrám frá 1999 um að skólastigin að þau skuli hafa með sér formlegt samstarf að öðru leyti en því er snýr að inntökuskilyrðum í framhaldsskóla. Tengsl hafa fyrst og fremst sprottið vegna áhuga og velvilja skólastjórnenda og kennara beggja skólastiga við að koma til móts við námslegar þarfir einstaka nemenda. Enn í dag hefur ekkert breyst jafnvel þó að skólastigin séu rekin af sitt hvorum aðilanum, ríki og sveitarfélögum. Ég tel óhætt að fullyrða að andi aðalnámskrár grunnskóla 1999 hafi þ.a.l. verið kominn á flug hér á Suðurnesjum löngu áður en farið var að vinna eftir henni.
Skipulag samstarfs F.S. og grunnskólanna á svæðinu er enn að þróast og þó að ekkert skirflegt eða formlegt samkomulag sé þeirra á milli er það í miklum blóma. Sífellt fleiri nemendur grunnskólanna stunda nám í F.S. og valgreinum þar hefur fjölgað. Viss kaflaskil verða haustið 2000 en þá sjá fagkennarar í F.S. alfarið um kennslu grunnskólanemenda í húsnæði F.S. en áður komu margir grunnskólakennarar að kennslunni. Við þessa breytingu vannst margt m.a. það að allir grunnskólanemendur á Suðurnesjum sátu við sama borð varðandi fjölda valáfanga og var jafnframt tryggð sambærileg kennsla. Helst gallinn við þetta er e.t.v. sá að kennarar og stjórnendur í grunnskólunum duttu úr tengslum við þennan afmarkaða þátt í vali nemenda sinna og er það áhyggjuefni að mínu mati.
Skilyrði
Grunnskólar sem bjóða nemendum upp á valgreinar sem byggja á einingabærum framhaldsskólanámi hafa engin viðmið til þess úr námskrá eða lögum. Viðmiðin hingað til hafa fremur byggst á tilfinningu og tillit tekið til lágmarkseinkunna í íslensku, stærðfræði og öðrum tungumálum. Valgreinar í F.S. hafa einkum verið í bóklegum áföngum og ætlaðar nemendum sem skarað hafa fram úr í þeim greinum í grunnskólanámi sínu og búa yfir miklum námslegum aga og metnaði. Lágmarkseinkunnin hjá skólum hér hefur verið 8,5 en í öðrum skólum eins og t.d. Ölduselsskóla í Reykjavík fá einungis þeir sem eru með 9,5 og 10 að velja framhaldsskólaáfanga. Þar stendur nemendum einungis til boða fjarnám við Verkmenntaskólann á Akureyri.
Fyrirkomulag
Það getur verið á margan veg en hér sunnan Straums sækja nemendur námið í F.S. með undantekningum þó því að kennarar úr F.S. hafa kennt áfangana sína í grunnskólunum. Hér áður fyrr þegar grunnskólakennarar kenndu framhaldsskólaáfangana var námsmat í umsjón F.S. Enn eitt formið er að nemendur fái aðstoð í sínum heimskóla við úrvinnslu verkefna framhaldsskólaáfangans en kennslan og námsmatið er í höndum kennara F.S. Í Ölduselsskóla leita nemendur til námsráðgjafa ef þeir telja sig þurfa aðstoð í einstökum greinum í fjarnáminu.
Kostnaður
Nemendur greiða ekkert fyrir námið í F.S. annað en bókakostnað og efniskaup. Kostnaðinn af kennslunni ber F.S. eða ríkið sem rekur skólann í samvinnu við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Skólinn fær hins vegar einungis greitt fyrir kennslu þeirra grunnskólnemenda sem ljúka áföngum. Menntamálaráðherra hefur viðurkennt að nemendur í grunnskóla sem stunda nám við F.S. séu hluti af nemendum skólans. Svo lengi sem grunnskólanemendur á Suðurnesjum nýta sér þetta val þá má segja að það sé aukaframlag ríkisins til sveitarfélagnna til reksturs grunnskólanna. Mest er þó um vert að það gefur skólunum tækifæri til að koma enn betur til móts við aðalnámskrá grunnskóla frá 1999 um sveigjanlegt skólastarf, einstaklingsbundið nám og samfellu í námsframvindu nemenda. Einkum og sér í lagi þeirra sem tileinka sér námsefni grunnskólanna fyrr en jafnaldrar þeirra.
Hindranir
Það sem getur hindrað að „fljótandi skil“ haldi áfram gæti m.a. verið af pólitískum og fjárhagslegum toga ef ríkið hættir að vilja borga fyrir nám grunnskólanemenda. Það gæti líka verið af viðhorfslegum toga nemenda, foreldra, skólastjórnenda eða kennara. Þá gætu tæknilegir annmarkar komið til eins og að þeir áfangar sem nemendur stendur til boða eru ekki viðurkenndir í öðrum skólum en þeim sem hafa fjölbrautakerfið. Það stendur vonandi til bóta því í umræðunni hefur verið að samræma áfangaheiti fyrir alla framhaldsskóla í landinu. Viðhorfið þarf að mínu mati alltaf að miðast við, hvað er hverjum og einum nemanda fyrir bestu þannig að eðlileg samfella og stígandi sé í námi hans.
Með einingar í farteskinu
Mörg hundruð grunnskólanemendur á Suðurnesjum hafa tekið með sér einingar við innritun í F.S. Óhætt er að setja að hægur stígandi hafi verið í fjölda þeirra nemenda sem stundað hafa einingabært nám. Vorið 1999 luku 43 nemendur einingabæru námi og 62 árið 2001. Haustið 2003 varð algjör sprenging en þá hófu 154 grunnskólanemendur á Suðurnesjum af 291, flestir í 10. bekk, nám valáföngum í F.S. Þar af sækja 57 þeirra nám í tveimur áföngum og fjórir í þremur. Nemendum stóð einnig til boða fleiri valgreinar en áður og eru þær nú, stærðfræði, enska, spænska, þýska, málsmíði, nýsköpun og á næsta skólaári bætist franska við. Algengt er að nemendur taki með sér þrjár einingar en dæmi eru um nokkra nemendur sem höfðu lokið 24 einingum þegar þeir hópu námið í F.S. Þess má geta að 140 einingar þarf til stúdentsprófs.
Samskipti
Samskipti F.S. og grunnskólanna eru margbreytileg og einskorðast ekki við nám grunnskólanemenda. Námsráðgjafar skólanna hafa með sér samstarf. F.S. hefur lagt sig í líma við að kynna skólastarfið bæði fyrir 9. og 10. bekkjar nemendum sem og fyrir starfsmönnum grunnskólanna. Þá hittast stjórnendur skólastiganna á formlegum fundi a.m.k. einu sinni á hverju skólaári. Þá stendur Fjölbrautaskólinn fyrir stærðfræðikeppni grunnskólanna einu sinni á ári fyrir 8., 9. og 10. bekk.
Ávinningur
Sýnt er að nemendur sem velja áfanga í F.S. ná flestir að uppfylla námslegar kröfur sem þar eru settar. Það sést best á því að hingað til hefur brottfall nemenda ekki verið mikið úr einstökum áföngum ef undan er skilinn veturinn í vetur og þá einkum í stærðfræði.
Fyrir Fjölbrautaskólann er ávinningurinn bæði af hagkvæmnis-og ímyndarástæðum. Þeir fá forskot á aðra framhaldsskóla og geta hugsanlega náð í sterka og metnaðarfulla námsmenn sem síðan halda hópinn í áframhaldandi námi innan skólans. Dæmi eru um slíkt innan F.S. Einnig geta þeir boðið upp á áfanga að hausti sem annars hafa fallið niður vegna fámennis.
Fyrir grunnskólana ætti ávinningurinn af víðtækara námsvali að gera þeim betur kleift að koma til móts námslegar þarfir einstaka nemenda. Ekki eingöngu þeirra sem eru bókhneigðir heldur einnig þeirra sem hneigjast að starfs- og verknámi. Nemendur fá visst forskot á jafnaldra sína í grunnskólanum með því að kynnast framhaldsskólanáminu fyrr og geta haft áhrif á námsval sitt á breiðari grundvelli. Þeir kynnast ögðuðum og sjálfstæðum vinnubrögðum. Nám grunnskólanemenda í F.S. ætti að auka líkur á að grunnskólarnir fái fleiri „toppnemendur“ eða afburðanámsmenn. Rannsóknir eins og PISA og TIMSS hafa einmitt leitt í ljós að í íslenska grunnskóla vanti fleiri slíka. Þá ætti nám á framhaldsskólastigi í samræmdum greinum eins og stærðfærði og ensku að styrkja nemendur við undirbúning fyrir samræmd lokapróf í 10. bekk. Þá er þetta fyrirkomulag ákjósanlegt fyrir nemendur sem vilja ljúka stúdentsprófi fyrr en venja er t.d. á þremur árum. Stærsti ávinningurinn er að geta boðið nemendum nám sem er í samræmi við námslega stöðu þeirra.
Fram á veginn
Suðurnesjamenn geta verið stoltir af því hvernig „fljótandi skil“ grunn- og framhaldsskólans hafa þróast enda hafa þeir sýnt ákveðið frumkvæði í þeim efnum. Það þarf því ekki að koma á óvart að skólaumhverfi sem svipar til okkar eins og á Selfossi og Akranesi sæki eftir upplýsingum um hvernig staðið er að málum hér. Einingabært framhaldsskólanám grunnskólanemenda er ekki sjálfgefið og þurfa margir þættir að spila saman eins og rakið hefur verið hér að framan til að svo megi vera. Ég tel aðstæður skólaumhverfisins hér ákjósanlegar til að efla enn frekar en orðið er þetta sameiginlega hagsmunamál skólastiganna tveggja. Sveitafélögin reka metnaðarfulla skólastefnu og mikill meðbyr er fyrir framhaldsnámi hjá þeim er að nemendum koma það má sjá t.d. á mikilli fjölgun nemenda í F.S. og þeirri uppbyggingu og endurskipulagningu sem þar stendur yfir.
Umfjöllun mín hér að framan hefur vonandi sannfært hlutaðeigandi að það sé til þess vinnandi að þessi ,,hliðarafurð´´ í skólakerfinu verði þróuð enn frekar og þeir sem að námi nemenda koma sammælist um þær. Ég tel að það yrði til aukinnar hagræðingar fyrir alla aðila t.d. að:
-Hafa samvinnu F.S. og grunnskólanna formlegri m.a. með því að tilteknir aðilar innan skólanna séu ábyrgir fyrir samskiptunum og upplýsingaflæði um hvernig einstökum nemendum er að ganga í náminu í F.S. Í grunnskólunum gegna umsjónakennarar lykilhlutverki við að leiðbeina nemendum um námslega framvindu.
-Grunnskólarnir byrji fyrr að undirbúa nemendur fyrir nám í framhaldsskólaáföngum. Dæmi eru um að nemendur í 8. og 9. bekk stundi nám í F.S.
-Einkunnir ráði ekki einar þegar nemendur hyggja á nám í F.S. heldur einnig námstækni, metnaður og framtíðaráform.
-Grunnskólanemendur í námi í F.S. hafi aðstoð eftir þörfum í sínum heimaskóla eða með samvinnu þeirra við úrvinnslu verkefna í námsáföngum í F.S. Það tel ég að gæti komið í veg fyrir brottfall, verið nemendum stuðningur, hvatning og aðhald í náminu.
Það má alls ekki líta á nám grunnskólanemanda í framhaldskóla sem hans einkamál, nám þar er hluti af námi hans í grunnskólanum.
Skólamenn á Suðurnesjum hafa mikinn metnað og vilja spegla sig við grunnskóla í landinu sem náð hafa góðum mælanlegum árangri. Það er vel og að mínu mati er liður í því að hlúa að og þróa betur þau námstækifæri sem standa nemendum til boða í sínu eigin skólaumhverfi. Þannig er hægt að stuðla enn frekar að því að allir nemendur fái nám við sitt hæfi eins og þeir sem komu „fljótandi skilum“ á flot höfðu að leiðarljósi.
Nú stendur til að bæta verulega verknámsaðstöðuna í F.S. Leynast þar tækifæri fyrir nemendur grunnskólanna?
Björn Víkingur Skúlason
Greinin er hluti af verkefni höfundar í tengslum við nám í stjórnun við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands, við það voru bæði notaðar munnlegar og skriflegar heimildir.