Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Finnst þér eins og enginn skilji þig?
Fimmtudagur 29. apríl 2004 kl. 13:38

Finnst þér eins og enginn skilji þig?

Í desember 2003 var í húsi Sjálfsbjargar í Njarðvík, haldinn opinn fundur um geðheilbrigðismál á Suðurnesjum.
Sigursteinn Másson formaður Geðhjálpar var sérstakur gestur fundarins og sagði hann m.a. frá starfsemi Geðhjálpar, sem byggir að mestu á sjálfsprottnu starfi.  Í kjölfarið ákvað fundurinn að skapa aðstæður fyrir sjálfsprottið starf fyrir þá sem eiga við geðraskanir að stríða á Suðurnesjum.  Fundarmenn voru sammála um að hús Sjálfsbjargar og staðsetning hentaði ágætlega til starfseminnar.

Þann 5. febrúar 2004 var fyrsti fundur sjálfshjálparhóps haldin.  Sjálfshjálparhópurinn  er fyrir alla þá sem eiga við geðræn vandamál að stríða og búa á Suðurnesjum.  Hópurinn hefur aðsetur í Sjálfsbjargarhúsinu að Fitjabraut 6c í Njarðvík.  Þar kemur fólk saman vegna sameiginlegrar reynslu á vandamáli á hverjum fimmtudegi, húsið opnar kl. 19:30 og fundurinn sjálfur byrjar kl. 20:00, áætlaður fundartími er um það bil einn klukkutími.  Á fundunum er lögð áhersla á samkennd, að miðla reynslu, að hlusta og að eiga góða stund saman.

Hvar er sjálfshjálparhópur?
Sjálfshjálparhópur er hópur fólks sem kemur saman og þar fáum við tækifæri til að tjá okkur, segja hvað okkur liggur á hjarta.  Í hópnum hittum við fólk sem er að glíma við sambærilegan vanda og hefur sambærilega reynslu.  Það sem einkennir umræðurnar innan hópsins er gagnkvæmur skilningur og virðing gagnvart hvort öðru.  Þeir sem segja frá eru staddir í reynsluheimi okkar hinna.  Þannig er skilningur á því sem sagt er frá.  Engin hætta er á að gert sé grín af því sem við segjum eða að við séum ekki tekin alvarlega en jafnframt geta fundirnir verið skemmtilegir þar sem iðulega er slegið á létta strengi, gert grín og sagðar gamansögur.  Hvernig væri lífið ef við gætum ekki hlegið og notið samveru hvert með öðru?  Þannig er sjálfshjálparhópurinn ekki alvaran ein, með því skapast góður andi í hópnum og við tengjumst nánari böndum en ella.  Það er léttir í því að vita að maður er ekki ein(n) með sitt vandamál. 

Reynsla, innsæi og þekking hvers og eins skiptir máli og gagnast öðrum hópmeðlimum, bætir það oftast líðanina að geta talað um vandamál sín og að finna fyrir samúð og skilningi.  Það er ekki hægt að verða sér til minnkunar í hópnum.  Við erum öll kvíðin og óörugg.  Það er fullkomlega eðlilegt að vera óöruggur í hópnum og það er eðlilegt að upplifa einhvern kvíða í hópnum.  Sérstaklega til að byrja með. Það eitt og sér að mæta er stórt skref til bata.  Við gagnrýnum ekki aðra í hópnum heldur notum við óspart hrós þegar fólk er að takast á við og erum jákvæð og hvetjandi í garð þeirra.  Hver og einn hefur eitthvað til málanna að leggja.  Reynsla, innsæi og þekking hvers og eins skiptir máli og gagnast öðrum hópmeðlimum. Stendur til að fá annað slagið sérfæðinga á ýmsum sviðum í hópinn til að ræða við og fræða okkur.

Hugmyndafræði hópsins
Hugmyndafræðin að baki sjálfshjálparhópum byggir á sjálfshjálp með samhjálp.  Hver meðlimur hópsins ber ábyrgð á því að halda hópnum gangandi og að spjara sig sjálfur.  Í sjálfshjálparhóp eru allir jafnir - allir meðlimir hópsins búa yfir einhverskonar þekkingu sem nýtist við að taka á sameiginlegum vandmálum.  Við komum saman til að njóta samvista hvort við annað og fá tækifæri til að hitta fólk með sambærilega reynslu.

Við tjáum okkur um það sem okkur liggur á hjarta, það sem við viljum tala um í hvert skipti.  Engin takmörk eru sett á hvað hver og einn talar um.  Við berum virðingu fyrir öðrum í hópnum, virðingu sem hver og einn á skilið sem einstaklingur.  Við berum virðingu fyrir því sem aðrir í hópnum segja, skoðunum þeirra og reynslu.  Við erum ekki saman komin til að sýna öðrum fram á að skoðun okkar sé rétt, rökræða um ákveðin málefni eða reyna að hrekja hugmyndir annarra í hópnum.  Við erum saman komin til að tjá okkur og njóta félagsskapar.  Við segjum frá því sem jákvætt er í lífi okkar ekki síður en frá þeim vanda sem við erum að glíma við.  Munið að gamansemi og léttleiki er okkur mikilvægur og við erum óspör á að nýta okkur þessa þætti á fundunum.  Þó gleymum við aldrei að sýna hvort öðru virðingu

Samskiptareglur hópsins
Farið er hringinn og hver og einn segir frá því sem honum liggur á hjarta.  Allir í hópnum heita fullum trúnaði.  Mikilvægt er að virða þennan trúnað.  Þannig segjum við ekki frá því sem fram fer á fundunum.  Á meðan viðkomandi hefur orðið stjórnar hann þemanu.  Honum er frjálst að tala um hvað sem hann vill.
Við hin megum koma með athugasemdir, okkar innlegg og spurningar sem snúa að þemanu.  Hverjum og einum er frjálst að tala og jafn frjálst er að hlusta án þess að leggja eitthvað til málanna.  Rétturinn til að tala ekki, er virtur.  Skoðanir hvers og eins eru hans persónulega álit og það ber að virða.  Við véfengjum ekki skoðanir annarra.
Til að fá eitthvað út úr svona hópi þarf að mæta reglulega í nokkra mánuði en ekki aðeins nokkrum sinnum.  Við vitum að það er einfaldara og öruggara að vera heima hjá sér en að mæta í hópinn en með því að mæta ertu að gera eitthvað í þínum málum.  Einsettu þér að mæta, það er verðug ögrun.  Æfingin skapar meistarann.  Því oftar sem þú kemur í hópinn því öruggari ertu líkleg(ur) til að vera.  Þolinmæði, umburðarlyndi, tillitsemi og trúnaður gagnvart öðrum hópmeðlimum er nauðsynleg forsenda fyrir þátttöku.

Þótt sjálfshjálparhópar séu ekki leiddir af faglærðu fólki geta þeir tvímælalaust haft gildi fyrir hópmeðlimi og fjölskyldur þeirra.  Sjálfshjálparhópar eru oft uppspretta gagnkvæms stuðnings og gagnlegra ráðlegginga og fólki líður betur að vita af því að það er ekki eitt á báti.  Sjálfshjálparhópar geta einnig verið öflugir þrýstihópar, þeir gætu til að mynda knúið á yfirvöld um nauðsynlegar rannsóknir, meðferðarúrræði og félagslegan stuðning.  Í sameiningu er hægt að vinna gegn fordómum í samfélaginu á geðsjúkdómum og krefjast félagslegra úrbóta.

FUNDIRNIR ERU OPNIR ÖLLUM
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024