Eru græn svæði Reykjanesskagans í sorpinu?
Það heitasta í umræðunni í dag er Hringrásargarðurinn sem kynntur var á dögunum en inni í honum er svokölluð Þjóðarbrennsla.
Hringrásargarður er mjög gott framtak og er í raun stórgóð hugmynd.
Ég veit ekki með ykkur en ég er alfarið á móti því að byggja hér þjóðarbrennslu þessi framkvæmd er dýr, það er hægt að fara í aðra kosti sem ég skýri frá hér að neðan sem eru mun ódýrari, hagkvæmari og umhverfisvænir.
Það er mér óskiljanlegt af hverju við hér á Suðurnesjum ættum að fjárfesta í annarri sorpbrennslu þegar sú sem við erum með er fullnægjandi fyrir okkur. Er einhver þörf fyrir okkur að vera með sorpbrennslu Íslands?
Ef þessi sorpbrennsla Íslands verður að veruleika verður aukinn umferð flutningabíla á Reykjanesbrautinni eða því sem nemur um 10.000 Toyota Yaris bíla á hverjum degi.
Kostnaðurinn við að byggja svona brennslu er um 26 milljarðar, Ég veit ekki hvort þið lesendur gerið ykkur grein fyrir hversu mikið þetta er en til samanburðar þá eru heildar skuldir Reykjanesbæjar um 43 milljarðar.
Fjármögnun á verkefninu er nokkuð óljós, en ég hef heyrt því fleygt fram að sveitarfélögin sem koma að Kölku munu keyra verkefnið áfram ef af þessu verður og muni stofnfé muni koma þaðan frá.
Einnig er talað um að fá lán hjá lífeyrissjóðum og eða fjárfestum fyrir rest.
Sama hvernig fer þá munu bæjarsjóðir viðkomandi sveitarfélaga þurfa að gangast í ábyrgðir fyrir þessu verkefni, nema ef þetta verkefni verði alfarið í einkaframkvæmd, sem ég sé ekki gerast.
Ef sami eignarhlutur væri á þjóðarbrennslunni og er í dag á Kölku þá er hlutur Reykjanesbæjar um 73%. Auknar skuldir bæjarins við þessa einu framkvæmd yrði þá um 19 milljarðar.
Verandi nýkomin undan eftirlitsnefnd sveitarfélaga þá finnst mér ekki fýsilegt að auka skuldir bæjarins um 19 milljarða.
Í umræðunni um Kölku og sameiningaráform við Sorpu fyrir nokkru þá fór ég á stjá til þess að athuga hvaða aðrir kostir væru mögulegir.
Ég tel að ákveðin þjónusta eigi að vera á hendi sveitarfélaga á Suðurnesjum, ein af þeim er úrvinnsla á sorpi. Í leit að öðrum kostum komst ég í samband við framkvæmdastjóra Moltu Kristján Ólafsson, en Molta er moltugerð á Norðurlandi sem er með um 27.000 íbúa í sinni þjónustu sem er svipaður íbúafjöldi og er á bakvið þá sem nýta Kölku í dag.
Molta hefur um það bil 12.000 tonna framleiðslugetu á ári og eru að taka á móti um 6.000 tonnum af úrgangi og er því ekkert til fyrirstöðu fyrir því að hér á Suðurnesjum geti álíka stöð haft sömu framleiðslugetu og Norðanmenn ef ekki meiri.
Talað hefur verið um að allt að 40% af úrgangi sé nothæft til moltugerðar, og er ekkert því til fyrirstöðu að við getum ekki náð því markmiði hér á Suðurnesjum.
Með 40% nýtingu sem færi í moltugerð þá þýðir það að í 13.000 tonna brennslustöð Kölku sem er við það að fullnýtast léttum við á þeirri stöð um 5.200tonn.
En þó getum við velt því fyrir okkur hver er ávinningurinn við moltugerð yrði hér á Suðurnesjum. Kostnaður við að byggja þessa stöð er um 500 - 700 milljónir samkvæmt heimildum frá framkvæmdastjóra Moltu. Moltugerðarstöð er því töluvert ódýrari kostur en að byggja nýja sorpbrennslu, það er ef við miðum við vinnslu per tonn. Enn fremur getum við búast við um 20 störfum á byggingartímanum, þá má búast við 4-6 stöðugildum þegar að stöðin er komin í gang.
Þó er annar ávinningur við moltugerð, það er að efnið sem kemur úr moltugerðinni er hægt að nota í að rækta upp Reykjanesskagann og bæta þar með land sem er örfoka land.
Hægt væri að horfa á allan skagan sem heild og gera útivistarsvæði með tiltölulega ódýrum hætti út um allan Reykjanesskagann.
Þar má nefna að hægt væri að byggja upp útsýnissvæði fyrir norðurljósa aðdáendur á gamla Rockville svæðinu og koma þar upp norðurljósamiðstöð Íslands.
Svæði sem um er rætt er í dag að mestu notað fyrir fólk sem fer með hunda sína þangað, en þó hefur verið mikið af óþrifnaði á svæðinu, og með uppbyggingu á svæðinu má því koma í veg fyrir þeim óþrifnaði sem þekkist á svæðinu í dag.
Hægt væri að vera með allskyns gróðursvæði um Reykjanesskagann, þar má nefna svæði sem fjölskyldufólk gæti komið saman, farið í lautarferðir, grillað saman og jafnvel haldið kvöldvökur.
Því mælir margt með því að Suðurnesjamenn komi sér saman og byggi hér upp útivistarsvæði bæði fyrir íbúa sína og ferðamenn innlenda jafnt sem erlenda.
Auðvelt væri að byggja upp tjarnir á Reykjanesskaganum fyrir fuglalíf sem myndi blómstra þar í kring og ég tala nú ekki um öll þau skógræktarfélög sem gætu fengið úthlutað skipulögð svæði til þess að rækta upp og færa síðan sveitarfélögunum til notkunnar að ræktunartímabilinu loknu.
Hér er því verið að tala um að rækta upp Reykjanesskagann með úrgangi sem hefur verið breytt í moltu öllum íbúum Reykjaness til hagsbóta.
Eiður Ævarsson