Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Einelti - Okkur kemur það við
Laugardagur 18. september 2010 kl. 10:30

Einelti - Okkur kemur það við


Nokkur umræða er nú í samfélaginu um einelti og hefur fundaherferð Heimilis og skóla vakið verðskuldaða athygli en samtökin standa nú ásamt öðrum fyrir eineltisátaki með fundum um landið undir yfirskriftinni  „Stöðvum einelti strax”.

Einelti er ekki einkamál þeirra sem í því lenda. Einelti er samfélagsvandamál sem hefur alltaf verið til og verður líklega alltaf til meðal manna. Það þrífst í aðgerðaleysi fjöldans,  í samfélagi þar sem afskiptaleysi og sinnuleysi er mikið og þar sem ekki er tekið á málum. Allir þurfa að láta málið til sín taka, bæði skólar, heimili og stofnanir bæjarfélagsins. Sérstaklega nú þegar við siglum þjóðarskútunni í gegnum ólgusjó. Það þarf að bæta samskipti í samfélaginu og bæta þannig líðan fólks sem býr saman, vinnur saman eða er saman í skóla.  Sífellt þarf að halda uppi fræðslu meðal almennings og vinna að hugarfarsbreytingu. Þannig bætum við mannlífið og aukum lífsgæði okkar allra. 


Skapa þarf samstöðu meðal fólks um að takast á við einelti og gera stórátak í að samræma  vinnubrögð og viðbrögð við því. Einelti er ekki bara í skólum. Það er alls staðar þar sem menn  eru saman t.d. hefur verið greint frá hræðilegu einelti á vinnustöðum ekki síður en í skólum. Það þrífst jafnt meðal fullorðinna og barna. Við þurfum að láta okkur varða það samfélag sem við búum í. Við þurfum að breyta merkingu orðsins afskiptasemi og gera hana jákvæða. Afskiptasemi er ekki neikvæð og það borgar sig að skipta sér af. Því varðandi einelti þá hefur hinn þögli aðgerðalausi hópur stórt hlutverk og leggur til skilyrði fyrir verknaðinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


En hvað er einelti og hvernig lýsir það sér?


Einelti hefur verið skilgreint sem upplifun einstaklings á að vera settur út úr samfélagi. Tilfinningunni sem þolandinn finnur fyrir má líkja við köfnunartilfinningu  og sumir lýsa því að einelti sé eins og félagsleg kaffæring. Einelti er útskúfun.  Að fá ekki að vera með.  Að fá um það merki að tilheyra ekki hópnum. Það er í raun endurtekin valdbeiting eða valdníðsla. Það eru skilaboð til einhvers um að hann sé einskis verður. Skilaboðin eru kannski ekki áberandi og jafnvel komið áleiðis einungis með því einu að lyfta augabrún eða með svipbrigðum. 


Það er okkur jafnnauðsynlegt og að draga andann að fá að tilheyra og vera hluti af hópnum.  Það kallar því fram sársaukafullar tilfinningar að vera útskúfaður.    Þegar við sjáum einelti sjáum við líka mikið ójafnvægi valds og smám saman fer þolandinn ( sá sem verður fyrir einelti)  að kenna sér um. Hann finnur fyrir minnkandi sjálfstrausti og sjálfsmynd hans breytist. Seinna hrjáir depurð og þunglyndi oft þolandann. Hið ógnvænlega aðgerðaleysi fjöldans túlkar þolandinn gegn sér á meðan gerandinn túlkar það með sér. 


Gerandinn (sá sem leggur aðra í einelti) er oft einstaklingur sem burðast með erfiðar tilfinningar eða slæma líðan sem oftar en ekki eru hvatinn að eineltinu. En með síendurteknum verknaði er eins og gerandinn rugli fólk í ríminu um hvað er rétt og hvað er rangt og viðmiðin breytast. Svokallaðir taglhnýtingar(þeir sem með sinnuleysi eða ósjálfstæði láta hlutina viðgangast, án þess að skipta sér af) eru hirð gerandans og auðlind sem gerandinn nýtir sér.
Langvarandi afleiðingar eineltis í æsku geta fylgt fólki um áraraðir og leitt til alvarlegra geðtruflana fái fólk ekki viðhlýtandi stuðning og aðstoð. Við þurfum að vanda okkur og huga að fólkinu í kringum okkur. Okkur kemur það við.


Helga Margrét Guðmundsdóttir,
liðsmaður Jerico og starfsmaður Heimilis og skóla