Bréf frá Noregi: Komið heim aftur!
Tveir ágætir menn í Noregi, Roy Sævik og Haavard Yndestad, brugðu á það ráð að skrifa til Íslands og bjóða þeim sem hefðu áhuga á að hefja nýtt líf eða breyta til í skemmri eða lengri tíma og setjast að í Stongfjord sem er lítill bær á vesturströnd Noregs. Íbúar þessa litla vinalega bæjar eru í sömu sporum og vinir okkar á Ylvingen sem sagt er frá í Himmelbla í Sjónvarpinu, þ.e. ef ekki fjölgar í bænum er hætta á að skólanum verði lokað. Bréfið er hér:
Það eru 1136 ár síðan þið yfirgáfuð okkur. Núna er kominn tími til að þið komið aftur heim. Við erum nánustu ættingjar ykkar og hér fáið þið bæði vinnu og húsnæði. Við erum viss um að það myndi gleðja Ingólf Arnarson, ef einhverjir af hans afkomendum myndu flytja heim aftur.
Roy Sævik horfir eftirvæntingafullur vestur um haf en hans æðsta ósk er að lítill herskari hrausts og framkvæmdaríks fólks komi siglandi yfir hafið og setjist að í Stongfjorden.
Íbúarnir á þessum vinalega stað lengst út við hafið á vesturströnd Noregs bjóða íslenskum barnafjölskyldum að koma og setjst að hjá þeim. Staðinn bráðvantar fleira fólk því ef nemendum fjölgar ekki um 3-4 börn á næsta skólaári, þá er hætta á að skólinn og leikskólinn verði lagður niður og börnin þá send með rútu í aðra skóla í sveitarfélaginu. Margir óttast að án skóla muni þessi gamli iðnaðarstaður deyja hægt og rólega.
-Við þurfum fleiri börn sem eru fædd árin 2002 til 2005, segir Roy Sævik og Haavard Yndestad en þeir eru talsmenn baráttuhóps sem ætlar að reyna að fá fleiri íbúa á staðinn. Þeir aðstoða þær fjölskyldur sem vilja koma, að fá húsnæði og vinnu og borga húsaleigu fyrstu 3 mánuðina.
Forfaðir Íslendinga, Ingólfur Arnarson ólst upp á þessu svæði, en árið 874 varð hann að flýja frá Noregi, eftir að hafa myrt tvo syni Atla jarls, stórhöfðingja staðarins. Hann flúði í báti og stefndi í vestur þar til hann kom að landi á Íslandi og varð þar með fyrsti landnámsmaður Íslands.
Roy Sævik lofar því að gamlar erjur séu gleymdar sem og að Ingólfi Arnarsyni séu fyrirgefin hans ódæðisverk. -Við munum taka vel á móti Íslendingum, segir Roy.
Nemendafjöldinn í skólanum næstu tvö árin er í lágmarki en eftir árið 2012 munu skólastofurnar fyllast aftur. Leikskólinn sem er fullsetinn í dag, ber þess merki enda margar ungar fjölskyldur sem hafa flutt á staðinn, þó eru flest börnin ennþá undir skólaaldri en væntanlega eykst íbúafjöldinn eftir nokkur ár, segir Sævik.
Marine Harvest, sem er eitt af stærstu laxaframleiðendum heims, hefur áætlanir um að byggja stóra laxeldisstöð árið 2013 sem mun skapa mörg ný störf. Auk þess hefur annað útgerðarfyrirtæki sýnt Stongfjorden áhuga, en Roy Sævik er hræddur um að áhuginn dvíni ef skólinn verður lagður niður. -Samfélag án skóla á enga framtíð fyrir sér, segir hann.
Sævik hefur trú á að þessir vinnustaðir gætu verið áhugaverðir fyrir marga Íslendinga en auk þeirra eru margir atvinnumöguleikar í bænum Förde, sem er um hálftíma akstur frá Stongfjorden. Vegna kreppunnar á Íslandi hafa margir Íslendingar flust til Noregs, þó ekki hafi margir sest að á því svæði, þaðan sem þeir eru ættaðir. Roy Sævik og Haavard Yndestad vona að þar geti orðið breyting á. Þeir eru vissir um það að Íslendingum geti liðið vel í Stongfjorden og falli vel inn í hið góða samfélag fólksins á Vesturlandinu, sem veður og vindar hafa mótað. –Ótrúlega gott samfélag, segja þeir.
Nokkrar staðreyndir um svæðið
Stongfjorden er gamall iðnaðarstaður á vesturströnd Noregs fyrir norðan Bergen með u.þ.b. 200 íbúa, 45 km er til Förde sem er næsti bær. Fyrsta álverksmiðja í Norður Evrópu, British Aluminium Company (BACO) var sett á stofn í Stongfjorden árið 1907. Stongfjorden er einstaklega gott og opið samfélag þar sem menningarlífið er fjölbreytt og aðstæður góðar fyrir hinar ýmsu íþróttir eins og tennis, blak, fótbolta og veiðar. Margir atvinnumöguleikar eru á svæðinu og góðar lóðir sem hægt er að kaupa fyrir 1 krónu.
Frekari upplýsinga um Stongfjord er hægt að nálgast á stongfjord.no en einnig er hægt að senda fyrirspurnir á [email protected] eða [email protected]