Blekkingar kvótahafa
- Aðsend grein frá Þórólfi Júlían Dagssyni
Núverandi leiguverð á þorskkvóta er lægst 175 krónur á kílóið og hæst 230 krónur. Þegar auðlindagjaldið var í kringum 23,20 kr. á hvert þorskígildis kíló barmaði útgerðin sér svo yfir íþyngjandi álögum að í látunum hélt þjóðin að sjávarútvegurinn væri að fara á hausinn vegna veiðigjalda.
Útgerðin leigir frá sér aflaheimildir á tíu sinnum hærra verði en hún telur sért fært að greiða íslensku þjóðinni. Eru þær útgerðir sem leigja kvótann í dag betur stæðar en almennt gerist? Hver er skýringin á þessum tvöföldu skilaboðum? Þetta ætti fólk að hafa í huga þegar rætt er um að veiðiheimildir fari á uppboð.
Það er ekkert öryggi í núverandi kerfi, nema fyrir kvótahafana. Heilu byggðarlögin hafa nánast lagst í eyði vegna tilfærslna á kvóta. Uppboð á veiðiheimildum þar sem ALLIR geta boðið í veiðiheimildirnar, tryggir öllum byggðarlögum jafnan aðgang að fiskimiðunum. Samhliða frjálsum handfæraveiðum tel ég þetta stærsta byggðamálið. Aðskilnaður fiskveiða og fiskvinnslu er tryggður með því að setja allan afla á markað. Þannig tryggjum við hráefnisöryggi fyrir öll fiskframleiðslufyrirtæki en í dag er öryggið aðeins til staðar fyrir vinnslur með eigin útgerð.
Þjóðin á fiskveiðiauðlindina. Uppboð veiðiheimilda tryggir sanngjarna skiptingu arðs, nýliðun og jafnræði í greininni. Markmiðið er sátt milli þjóðar og útgerðar. Sátt um sjávarútveg. Sátt um kerfisbreytingar án kollsteypu.
Þórólfur Júlían Dagsson
Sjómaður og frambjóðandi Pírata í Suðurkjördæmi