Atvinna og bjartsýni
Góðar fréttir berast nú af atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Þær fréttir auka okkur Suðurnesjamönnum bjartsýni og þrótt.
Hagvöxtur fyrir hrun var einkum bundinn við vöxt í byggingariðnaði og fjármálastofnana. Ekki reyndist innistæða fyrir þeim vexti og hrunið átti sér stað með kunnum afleiðingum fyrir kjör allra landsmanna. Hátt hlutfall atvinnulausra og slæmar afleiðingar fyrir líf manna og efnahag fylgdu í kjölfarið. Stjórnvöld hafa unnið ötullega að því að skapa virkniúrræði og ný störf til að stemma stigu við langtímaatvinnuleysi og öllum þeim slæmu aukaverkunum sem því fylgja. Frá hruni hefur atvinnuleysi minnkað um helming og nokkuð góðar horfur um að það minnki enn á næstunni.
Þau svæði sem einna verst hafa orðið úti hvað þetta varðar eru Suðurnesin. Þar fækkar þó atvinnulausum jafnt og þétt eins og á öðrum stöðum á landinu. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi í desember sl. 5,7% að meðaltali á landinu öllu en 7,3% í desember 2011. Atvinnuleysi á Suðurnesjum var 12,8% í desember 2011 og 10,2% í desember sl., þ.e. 1.069 einstaklingar. Þótt vandinn minnki er hann enn of stór. Þess vegna fagna ég því sérstaklega þegar góðar fréttir berast af nýjum atvinnutækifærum á Suðurnesjum og þær hafa verið nokkrar undanfarið.
Í Sandgerði hefur atvinnuleysi verið mikið en þar er nú verið að reisa eða endurbyggja fjögur fiskvinnsluhús. Þar munu 200–250 manns fá vinnu og ótalin þar eru þau afleiddu störf sem fylgja í kjölfarið. Kvótaeign er ekki mikil í Sandgerði en verslað er á fiskmörkuðum og þannig fæst hráefni til vinnslu.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra kynnti á dögunum tillögu að nýjum fjárfestingarsamningi á grundvelli laga um ívilnanir vegna nýfjárfesta. Samningurinn er um byggingu og rekstur hátæknifiskvinnslu í Sandgerði þar sem fiskur verður unninn og seldur á erlenda markaði. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður um 5.000 tonn. Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð 609 m.kr. og gert er ráð fyrir 41 starfsmanni við rekstur vinnslunnar.
Risavaxin fiskeldisstöð rís nú í hrauninu við Reykjanesvirkjun. Kælivatn úr virkjuninni sem rennur nú út í sjó á að nýta til að rækta hlýsjávarfisk sem seldur er til meginlands Evrópu. Þar eru 75 bein störf en alls 150.
Um 100 manns, einkum iðnaðarmenn, fá á næstunni vinnu við breytingar og endurbætur í Leifsstöð. Breytingarnar eru gerðar til að mæta ört vaxandi fjölda farþega um stöðina en fjölgun þeirra kallar einnig á fleiri starfsmenn til þjónustu við þá.
Fjárfesting í atvinnutækifærum til framtíðar skiptir okkur miklu máli og þessar góðu fréttir gefa okkur tilefni til að horfa bjartari augum fram á veginn.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður
Samfylkingarinnar.