Viðskipti

Öðruvísi heimilis- og gjafavara í ZOLO & CO
Starfsfólk ZOLO & CO. F.v.: Hanna Þurý Ólafsdóttir, Rúna Óladóttir, Erlingur Jónsson og Thelma Rut Stefánsdóttir. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 15. desember 2023 kl. 13:42

Öðruvísi heimilis- og gjafavara í ZOLO & CO

ZOLO & CO er lítið fjölskyldufyrirtæki í Keflavík með aðsetur að Hafnargötu 23. Eigendur eru þau Rúna Óladóttir og Erlingur Jónsson en verslunin rekur sögu sína aftur til ársins 2017. Þau Rúna og Elli höfðu flutt inn ilmolíulampa sem fljótt urðu vinsælir hér á landi. Lamparnir voru aðallega seldir í gegnum Facebook og á netinu til að byrja með en einu sinni á ári, um Ljósanæturhelgina, voru þeir einnig seldir á markaði í göngugötunni á Park Inn hótelinu við Hafnargötu.

Nú brá svo við að ekki var hægt að halda markaðinn þar og voru góð ráð dýr. Þau fengu inni í rými hjá skóbúðinni við Hafnargötuna og ætluðu að vera þar í viku, tíu daga. Úr varð að verslunin með ilmolíulampana var þar í nokkra mánuði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Rúna segir í samtali við Víkurfréttir að þetta hafi bara verið svo gaman að úr varð að þau festu kaup á verslunarhúsnæði að Hafnargötu 23. Rúna er þó ekki ókunnug verslunarrekstri við Hafnargötu, því þar rak hún snyrtivöruverslunina Gallery förðun í mörg ár.

Óhætt er að segja að sjón sé sögu ríkari í versluninni.

ZOLO & CO og skilgreind sem gjafavöruverslun þar sem áherslan er á öðruvísi heimilis- og gjafavöru. Fyrst um sinn voru ilmolíulamparnir og allt sem þeim fylgir helsta vara verslunarinnar. Rúna segir úrval af ilmolíulömpum vera stórkostlegt  og þó að þeir séu kallaðir ilmolíulampar þá eru þeir svo frábær rakatæki líka. Við erum án efa með landsins mesta úrval af ilm- og ilmkjarnaolíum, ásamt ilmstöngum, ilmkertum og híbýlaspreyjum.

„Svo erum við líka með fjöldan allan af skemmtilegum vörumerkjum á borð við Eco by Sonya, Elements lighting, Made by zen, Kooduu og ég gæti haldið lengi áfram.“

Öðruvísi heimilis- og gjafavara er áberandi í versluninni við Hafnargötu, og Rúna segir að það sé markmið að vera með lítið af hverju, þegar um er að ræða sérstaka og mikið öðruvísi hluti. Það takist þó ekki alltaf og mikið sé spurt um suma hluti. Aðrir eru hins vegar bara til í örfáum eintökum á heimilum víða um land. ZOLO & CO reka nefnilega vinsæla netverslun þar sem flestar vörur verslunarinnar eru seldar og pantanir afgreiddar alla virka daga til póst- og flutningafyrirtækja. Þegar útsendari blaðsins kíkti í verslunina var Elli að fara út úr húsi með sendingar austur á Egilsstaði, Neskaupsstað og vestur á Patreksfjörð, Suðureyri við Súgandafjörð sem dæmi.

Í versluninni við Hafnargötu má sjá sýnishorn af þeim vörum sem ZOLO & CO eru að selja í netversluninni sem er á slóðinni ilmoliulampar.is. Gylltir fuglar og ýmis önnur dýr sem lampar og ljósastæði vekja athygli. Einnig húsgögn eins og stólar og smáborð. Þá vakti athygli Led-lampi frá „Kooduu“ sem einnig er bluetooth hátalari og vínkælir. Jacob Jensen hannaði gripinn en úr honum er hágæða hljómur sem kemur frá JBL hátölurum, einstaklega eftirtektarverðir.

Þá eru í versluninni Led-kerti sem eru hlaðanleg og loga í 100 klukkustundir á hverri hleðslu og flöktandi „loginn“ er sérstaklega eðlilegur. Þá er úrval kerta, lukta og lengi mætti telja. Þegar farið er inn á vefverslunina má sjá á fjórða hundrað vara af ýmsu tagi.

Hnotubrjótur af stærstu gerð tekur á móti viðskiptavinum.

Í verslun ZOLO & CO er ekki verið að selja beint sérstakar árstíðavörur, það sem er til sölu hentar í rauninni allt árið. Þó mætti nú nefna alla dásamlegu jólailmina sem henta bæði í ilmolíulampana o.fl. Rúnu telst til að jólailmirnir séu þrjátíu og sjö talsins, já allir ættu að finna „sinn“ jólailm.
Það er heldur ekki langt í snyrtifræðinginn þegar Rúna er annars vegar en hún selur einnig húð- og snyrtivörur í versluninni og netversluninni. Þá er vape verslunin ZOZ einning staðsett í sama húsnæði, vape verslunin nýtur mikilla vinsælda, hún var fyrsta vape-verslunin á Suðurnesjum og á sinn fasta viðskiptamannahóp.

Heimsókn í ZOLO & CO er góð hugmynd fyrir jólin, því þar er örugglega hægt að finna öðruvísi og ótrúlega skemmtilega jólagjöf. Til að setja sig betur inn í vöruúrvalið er líka þjóðráð að kíkja á vefinn, ilmolíulampar.is.